154. löggjafarþing — 44. fundur,  6. des. 2023.

fjárlög 2024.

1. mál
[20:38]
Horfa

Sigmundur Davíð Gunnlaugsson (M):

Frú forseti. Í þessari fyrstu ræðu minni um fjárlög við 2. umræðu ætla ég að reyna að halda mig við stóru myndina. Í seinni ræðum fer ég hugsanlega nánar í stöku málaflokka og tölurnar sem liggja hér að baki. Það veitir ekkert af því að líta á stóru myndina í því sem ríkisstjórnin er að gera, hefur verið að gera og birtist aldeilis núna með þessum fjárlögum. Stærsta myndin er líklega sú að nú hyggst ríkisstjórnin eina ferðina enn slá eigið Íslandsmet og mörg fyrri Íslandsmet í ríkisútgjöldum. Hún á eiginlega öll metin á þessu sviði, hvort sem það er aukning milli ára í rauntölum eða einfaldlega í krónutölu, eða heildarupphæð. Þetta met slær hún aftur og aftur og nú eina ferðina enn.

En til hvers? Ef þessi gífurlega útgjaldaaukning væri að skila samfélaginu einhverju betra, einhverjum framförum, skildi maður það kannski, þó að aukningin engu að síður teldist mjög vanhugsuð til lengri tíma litið, sérstaklega í ljósi þess að skuldir ríkisins hafa vaxið mjög hratt og nú fara hátt í 100 milljarðar á ári bara í að greiða vexti af lánum ríkisins eftir þessa metsækni ríkisstjórnarinnar. En það versta við þetta er að við fáum ekkert fyrir. Hvað hefur samfélagið fengið fyrir þessi gífurlegu útgjöld upp á um 1.000 milljarða frá 2020–2027, miðað við svar frá hæstv. fjármálaráðherra? 1.000 milljarðar. Hvað fáum við fyrir? Ástæðan fyrir því að þetta situr svona í mér, frú forseti, er að á sínum tíma í ríkisstjórn áranna 2013–2016 ákváðum við að fyrsta skrefið væri að ná tökum á rekstri ríkissjóðs og við höfðum leiðir til þess, sem aldeilis virkuðu. En þegar við hefðum náð tökum á rekstrinum gætum við farið að bæta kjör fólks, rétta stöðu alls almennings í landinu. Eitt af því sem ég og fleiri tókum sérstaklega til var mikilvægi þess að rétta hlut eldri borgara og annarra sem eru á lífeyri. Þetta var ekki gert hjá núverandi ríkisstjórn þrátt fyrir að hún hafi fengið í fangið kjöraðstæður í ríkisfjármálum. Það var farið í að eyða peningum í eitthvað sem enginn veit hvað var. Er heilbrigðiskerfið orðið betra? Er menntakerfið orðið betra? Er löggæslan orðin betri? Það er ekki að sjá. Þessi ráðgáta er enn óleyst: Hvernig fór ríkisstjórnin, bæði á þessu kjörtímabili og því síðasta, að því að eyða svona miklum peningum án þess að fá neitt fyrir? Og aftur verður mér hugsað til áranna 2013–2016, hvað við hefðum getað gert fyrir nokkra tugi milljarða í viðbót ef við hefðum leyft okkur að reka ríkið áfram með halla. Það hefði verið hægt að gjörbreyta ýmsu. Ég tala nú ekki um ef við hefðum aukið útgjöld um einhver hundruð milljarða. En við töldum rétt að gera þetta í réttri röð, ná niður skuldunum þannig að tugir milljarða, 100 milljarðar, færu ekki í að borga af lánum ríkisins en myndu frekar nýtast í uppbyggingu samfélagsins, innviðafjárfestingu, betri kjör eldri borgara og annarra, betra heilbrigðiskerfi o.s.frv. En ef við hefðum ákveðið að eyða umfram efni á þeim tíma þá getur maður rétt ímyndað sér hvað hefði verið hægt að gera í tíð skynsemishyggjuríkisstjórnar.

En þessari ríkisstjórn hefur tekist að slá öll met án þess að fá neitt fyrir. Við erum væntanlega mörg hér minnug þess þegar útgjöldin fóru yfir 1.000 milljarða. Það voru ákveðin tímamót í rekstri ríkisins og ekki skemmtileg tímamót því að meira að segja fulltrúar meiri hlutans, ríkisstjórnarinnar, virtust skammast sín fyrir það og ætluðu að bæta úr. Þetta væri tímabundið ástand, við myndum svo leiðrétta það og komast aftur niður fyrir 1.000 milljarðana. Nú sést ekki lengur í þessa 1.000 milljarða. Þetta eru að verða 1.500 milljarðar í útgjöldum ríkisins án þess að neitt sem nokkur maður tekur eftir hafi fengist fyrir.

Covid-ástandið kom auðvitað inn í þetta eins og ríkisstjórninni hefur orðið tíðrætt um. En við hv. þingmenn munum væntanlega þegar ríkisstjórnin kom hér til þings með betlistaf í hendi og sagðist vera að fást við ákaflega erfitt ástand og það kallaði á sérstaka útgjaldaaukningu. Það var skiljanlegt í ljósi þess að stjórnvöld höfðu ákveðið að loka að miklu leyti fyrir atvinnulíf og verðmætasköpun í landinu. Þegar stjórnvöld ákveða að loka fyrirtækjum er eðlileg krafa af þeirra hálfu að fá það bætt. En þessu fylgdi frá hæstv. ráðherrum ríkisstjórnarinnar að þegar við yrðum komin í gegnum þetta ástand, þegar þessum heimsfaraldri, þessu óvænta hamfaraástandi lyki yrði farið beint í það að greiða niður þær skuldir sem höfðu safnast upp á Covid-tímanum. Annað kom nú aldeilis á daginn því að þessi aukaútgjöld, þessi miklu ófyrirséðu útgjöld, mynduðu einfaldlega nýtt gólf í útgjöldum þessarar ríkisstjórnar, gólf sem hún nýtti til að spyrna sér sem hæst upp og slá öll fyrri met í útgjöldum. Engir tilburðir sýndir til að nýta hagsveifluna — hagvöxtur hefur verið mikill á Íslandi, ekki hvað síst vegna stórkostlegra útgjalda ríkisins — og engir tilburðir sýndir til að fara með þær skatttekjur af skynsemi. Þeim var öllum eytt og meiru til. Og hvað fengum við fyrir? Við vissum það ekki áður en þetta fjárlagafrumvarp birtist og við vitum það ekki enn.

Maður leyfði sér að vona að þetta fjárlagafrumvarp yrði lagað í meðförum þingsins. Nú á milli umræðna hafa einhverjar breytingar verið gerðar en þetta fjárlagafrumvarp hefur ekki verið lagað í nokkru samræmi við tilefnið sem var til. Jafnvel þrátt fyrir jarðhræringar á Reykjanesskaga og gríðarlegt tjón í Grindavík er einfaldlega reynt að líta fram hjá því. Það er ekki farið í það að spara það sem ætti að spara til að geta brugðist við á viðeigandi hátt gagnvart þessum óvæntu ófyrirséðu náttúruhamförum. Nei, okkur er sagt að það verði væntanlega einhver útgjaldaauki en engir tilburðir eru til að spara, engir tilburðir til að fara betur með skattfé almennings.

Svo höfum við séð það sem af er þessari umræðu að fulltrúar stjórnarliðsins, fulltrúar meiri hlutans, virðast vera feimnir við að verja þetta fjárlagafrumvarp, virðist þykja óþægilegt að þurfa að tala fyrir því. Minna eiginlega á einhvern ferðalang sem er villtur í skóginum og mætir birni og ákveður bara að leggjast í jörðina og þykjast vera dauður. Það kann að vera rétt ráð. Ég veit það ekki, frú forseti, ég hef heyrt að þetta sé ráðið þegar maður mætir villtum birni. En það er ekki ráðið fyrir ríkisstjórnina. Þetta er ekki leiðin til að verja fjárlagafrumvarp, að leggjast niður og þykjast vera dauður. Hvað kemur þá á daginn? Við sjáum t.d. hv. þingmenn Viðreisnar mæta hér og hæðast að ríkisstjórninni og krónunni, gjaldmiðli landsins. Það er reyndar ekki nýtilkomið frá hv. þingmönnum Viðreisnar. En í ljósi þess að stjórnarliðar hafa lagst flatir vaða hv. þingmenn Viðreisnar uppi og gera lítið úr gjaldmiðli landsins, kenna honum um allar ófarir. Hæstv. utanríkisráðherra, fyrrverandi fjármálaráðherra, má reyndar eiga það að hann skrifaði ágætispistil á Facebook-síðu sína sem birtist í fréttum þar sem hann kom krónunni til varnar og útskýrði rangfærslur í sjónvarpsþætti, eða mistúlkun skulum við segja. En svo kemur enginn stjórnarliði til að bakka hæstv. utanríkisráðherra og formann Sjálfstæðisflokksins upp þegar hv. þingmenn Viðreisnar koma hér og rægja gjaldmiðil landsins sem hefur á undanförnum árum og raunar áratugum, þrátt fyrir sína galla, reynst okkur ómetanlegur við að auka kaupmátt í landinu og komast í gegnum efnahagsþrengingar, auka hagvöxt þegar á þurfti að halda. Þessi hæstv. ríkisstjórn þorir ekki einu sinni að verja það sem þó er rétt, þau tækifæri sem hún þó gæti haft til að minna á að það sé ekki allt glatað, hún hafi ekki enn sem komið er kastað krónunni og gengið í Evrópusambandið. Nei, þau leggjast flöt í mosann í skóginum og vona að fyrir vikið muni björninn, stundum í formi hv. þingmanna Viðreisnar, ekki ráðast á þau. Það hefur ekki reynst þeim vel.

Ef við færum okkur aðeins yfir á málasviðið í framhaldi af því sem ég nefndi um hversu lítið hefur fengist fyrir þessi stórkostlegu útgjöld er kannski nærtækast að líta á menntamálin. Við höfum heyrt fréttir af því í dag og í gær að íslenskir nemendur í grunnskóla standi sig einfaldlega ekki nógu vel, standi sig í rauninni bara illa, frú forseti. Við skulum bara segja hlutina eins og þeir eru, að íslenskir nemendur standi sig illa í alþjóðlegum samanburði. Við höfum í þessi sex ár, eða hvað það er nú orðið hjá þessari ríkisstjórn, ítrekað heyrt ráðherra menntamála og raunar aðra hæstv. ráðherra lýsa því hversu mikilvæg menntun væri, hversu mikla áherslu viðkomandi ráðherra legði á að bæta menntakerfið og menntun í landinu. Ekki hefur skort fjármagn í það. Það hefur aukist þar eins og annars staðar. En svo kemur niðurstaðan. Munurinn frá því fyrst eftir að þessi ríkisstjórn tók við — hún tók við seint 2017 og síðasta PISA-könnun á undan þessari var gerð 2018 — er sá að Ísland hefur fallið meira en nokkurt annað land í OECD í námsárangri, þrátt fyrir allar umbúðirnar, þrátt fyrir allar yfirlýsingarnar um hversu gríðarlega áherslu þessi ríkisstjórn legði á menntamálin og þrátt fyrir allt fjármagnið. Þetta er fyrst og fremst áminning um það að hvað sem líður fjármagni og yfirlýsingum er þessi ríkisstjórn og ráðherrar hennar ekki fær um að stjórna til að ná árangri. Þau hafa fengið meira og minna allt það fjármagn sem þau vildu en árangurinn er ekki eftir því. Það er sérstaklega dapurlegt og mikið áhyggjuefni að sjá hversu lítill árangurinn er á jafn mikilvægu sviði og menntamál barna eru því að það mun hafa áhrif til allrar framtíðar. Það mun augljóslega hafa áhrif á líf þessara barna sem síðan verða fullorðin en það mun líka hafa áhrif á hagkerfið og auka útgjöld ríkisins til langrar framtíðar ef börn hafa ekki hlotið þá menntun sem þarf til að geta skapað öll þau verðmæti sem ella hefðu getað orðið, til að geta uppfyllt drauma sína og lagt eins mikið til samfélagsins og þau hefðu getað gert ef stjórn menntamála hefði verið í lagi.

Það var ánægjulegt að sjá þó a.m.k. einn af skólastjórnendum höfuðborgarsvæðisins lýsa því yfir að þetta væri bara ekki í lagi, það þyrfti að grípa inn í og sleppa öllum þeim afsökunum sem hefðu birst. Þetta var Jón Pétur Zimsen, aðstoðarskólastjóri Réttarholtsskóla, sem sagði það sem þurfti að segja, að þetta væri ekki ásættanlegt. Það yrði að bregðast við. Viðbrögðin úr kerfinu, frá ráðherrum, jafnvel frá samtökum kennara og frá Menntamálastofnun höfðu öll verið á aðra leið, að afsaka þessa niðurstöðu og kenna einhverjum öðrum um. En eins og Jón Pétur nefndi er það vonlaus nálgun. Við þurfum að láta þetta okkur að kenningu verða, þurfum að læra af þessu og breyta skipulaginu, breyta því hvernig við vinnum hlutina hér og fá meira fyrir peningana. Eins og hann nefndi þá eru 200 milljarðar settir í þetta, af hverju fáum við ekki meira fyrir?

Það sama má segja um heilbrigðiskerfið. Meira að segja fyrrverandi landlæknir benti á að það væri endalaust hægt að auka framlög til heilbrigðiskerfisins án þess að ná nokkrum árangri, það gæti jafnvel leitt til afturfarar ef menn laga ekki kerfið sjálft. Hefur þessari ríkisstjórn tekist að laga kerfið? Nei, aldeilis ekki. Henni hefur tekist að auka framlög og útgjöld til heilbrigðismála mjög verulega, en fá menn meira fyrir? Er heilbrigðiskerfið orðið betra en það var áður en þessi ríkisstjórn tók við? Það er ekki að sjá. Mér sýnist hafa orðið afturför. Mér sýnist biðlistarnir hafa lengst og fleiri en áður lendi í vandræðum innan heilbrigðiskerfisins. Það er vegna þess að þessi ríkisstjórn lítur svo á að útgjöld séu árangur. Hún ruglar saman raunverulegum árangri og útgjöldum og státar sig af því að hafa eytt svo og svo miklu meira í menntakerfið eða heilbrigðiskerfið og í því felist árangur. En það er ekki svo. Það er hægt að eyða endalaust af peningum ef menn stjórna ekki af skynsemi og skynsemishyggja virðist vera býsna fjarri þessari ríkisstjórn.

Svo hefur það auðvitað líka áhrif, hvort heldur sem litið er til menntakerfisins eða heilbrigðiskerfisins, löggæslu eða nokkurs annars í samfélaginu, þegar stjórnleysi ríkir á öðrum sviðum. Nú hefur alla tíð þessarar ríkisstjórnar ríkt fullkomið stjórnleysi á sviði hælisleitendamála. Þetta hafa meira að segja hæstv. ráðherrar ríkisstjórnarinnar viðurkennt. Fyrrverandi hæstv. dómsmálaráðherra, núverandi hæstv. dómsmálaráðherra, formaður Sjálfstæðisflokksins og líkast til fleiri hafa viðurkennt að málaflokkurinn sé stjórnlaus en ná á engan hátt tökum á honum. Og nú sjáum við afleiðingarnar. Við sjáum ekki bara afleiðingarnar í beinum kostnaði, það er mjög erfitt, frú forseti, að fá nokkrar alvörutölur um það. Jú, það er hægt að reikna þann kostnað sem er hægt að heimfæra beint á móttöku og utanumhald málaflokksins. Alltaf virðist hann vera vanáætlaður og er það eflaust í þessu fjárlagafrumvarpi líka, nema kannski á þessu ári, 15 milljarðar, kannski fer hann upp í 20 milljarða, við vitum það ekki. Þá er ekki allt hitt tekið með í reikninginn, allar hinar afleiðingarnar af þessu stjórnleysi, afleiðingarnar fyrir menntakerfið eins og við sjáum mjög glögglega núna og bent hefur verið á, að skólakerfið sé í einhvers konar nauðvörn og hafi ekki aðstæður til að kenna börnum að lesa á íslensku af því að það sé svo mikið umstang annars staðar og álagið svo mikið; á heilbrigðiskerfið þar sem álagið, m.a. af völdum þessa stjórnleysis, gerir kerfið verr í stakk búið til að þjónusta almenning, þrátt fyrir gríðarlega útgjaldaaukningu til sama kerfis. Þannig mætti lengi telja. En þessi ríkisstjórn lítur aldrei á heildarmyndina. Það virðist vera algerlega framandi hugsun fyrir meiri hlutann hér á Alþingi og sérstaklega ráðherrana í ríkisstjórn að líta annars vegar á heildarmyndina eða langtímaáhrif. Í staðinn er öllu pakkað inn í nýjar umbúðir og útgjöld aukin ár frá ári, aftur og aftur til að fresta vandanum þangað til einhver önnur ríkisstjórn er komin sem getur tekist á við vandann þegar þessir ráðherrar eru sloppnir eitthvert annað. Allt gengur þetta út á það að fresta vandanum frekar en að líta á heildarmyndina og langtímaáhrifin af þeim ákvörðunum sem eru teknar.

Nýjasta dæmið um þetta er líklega það sem nú er til meðferðar hér í nefndum þingsins, áform þessarar ríkisstjórnar um skattahækkanir, gjaldahækkanir. Það eru svo sem engin ný tíðindi, ég geri mér grein fyrir því, frú forseti, að þessi ríkisstjórn hækki skatta og gjöld. En það sem er áhugavert við þau áform núna er að með því er verið að framfylgja óskum Evrópusambandsins og hækka skatta og gjöld á almenning á Íslandi ekki bara til þess að auka tekjur ríkissjóðs eða refsa fólki fyrir að gera eitthvað sem stjórnvöldum er illa við að fólk geri, eins og að keyra bíl, heldur er líka verið að ráðast í skattheimtu fyrir lénsherrana, lénsherra þessarar ríkisstjórnar í Brussel, Evrópusambandinu. Hér er ég auðvitað að tala um áform um að leggja nýja skatta og ný gjöld, refsigjöld, á almenning fyrir að ferðast með flugvélum, fyrir að flytja inn vörur með skipum. Í framhaldinu stendur svo til að refsa fyrir flutninga á landi og húsbyggingar. Húsbyggingar, frú forseti, nokkuð sem maður hefði haldið að þessi ríkisstjórn væri búin að gera sér grein fyrir að sé skortur á. En nei, nú skal innleiða nýjar refsingar fyrir að fólk byggi hús þar sem með því losna gróðurhúsalofttegundir. Fyrir það skal refsað og reynt að draga úr slíkum framkvæmdum.

Það er a.m.k. ljóst að markmiðið með nýju refsigjöldunum á flugið er að fólk hætti að ferðast svona mikið, fari frekar í járnbrautarlestir, hvernig sem Íslendingar eiga að gera það. Hæstv. ráðherrar ríkisstjórnarinnar höfðu reyndar gert sér grein fyrir því að það væru ekki járnbrautarlestir á Íslandi, auk þess sem Ísland væri miðstöð flugs í Norður-Atlantshafi og því myndi þessi gjaldtaka reynast okkur alveg einstaklega illa, langt umfram aðrar þjóðir. Það höfðu verið gerðar rannsóknir og þær birtar sem gáfu til kynna að yrði af þessari gjaldtöku myndi flug til og frá landinu dragast verulega saman, yrði árið 2050, eftir rúman tvo og hálfan áratug, um fjórðungur af því sem ella hefði orðið og þriðjungur af því sem það er nú. Þetta er markmiðið með refsigjöldunum, að fólk hætti að fljúga. Nýju skattarnir á flutninga myndu kosta svona til að byrja með 5, 6 milljarða á ári sem leggjast auðvitað á almenning en svo vita menn ekkert hvað tekur við, hversu mikið þetta hækkar þegar við erum búin að eftirláta Evrópusambandinu stjórn þessara mála.

Fyrra málið, flugmálið, hafði verið talið grafalvarlegt og ráðherrar höfðu komið hér og sagt: Það kemur ekki til greina að samþykkja þetta óbreytt. Svo þurfti að halda hér mikla Evrópuhátíð í Hörpu sem nokkrir hæstv. ráðherrar virtust alveg einstaklega spenntir fyrir, kostaði held ég 3, 4 milljarða, en þá þótti ekki við hæfi að spilla gleðinni og þess vegna var Ursula von der Leyen ekki fyrr stigin út úr flugvél á Reykjavíkurflugvelli en tilkynnt var um að náðst hefði samkomulag um þessi flugmál. Og hvernig var það? Jú, Ísland fær frest að einhverju leyti í tvö, þrjú ár sem vill reyndar svo til að voru akkúrat aðlögunarárin. Ísland fær frest í þennan tíma og hvað gerist svo? Svo tekur við kerfið sem ráðherrarnir voru búnir að segja að yrði aldrei samþykkt af því að það gengi svo illa gegn hagsmunum Íslands. Hvað siglingarnar varðar þá lýstu ráðherrar því yfir kokhraustir og stoltir að við myndum ekki einu sinni sækja um undanþágur. Jú, við áttum að vísu kannski rétt á þeim vegna legu landsins og stöðu að öðru leyti, engar járnbrautarlestir, engir fljótaflutningar eða kanalar. Því ættum við kannski rétt á undanþágum en við ætluðum að sýna slíkt fordæmi að sækja ekki einu sinni um þær. Gefum þessa 6 milljarða á kostnað almennings á ári eða 10 eða 12 eða hvað það verður, það lítur betur út í kokteilboðunum í Brussel. Þannig er þetta allt, frú forseti, farið að snúast um umbúðirnar. Annars vegar að geta tekið á móti einhverjum Evrópumönnum á hátíð í Hörpu og glatt þá með því að gefa eftir hagsmuni landsins eða gefa eftir að fyrra bragði undanþágur sem við hefðum átt rétt á varðandi siglingarnar.

Þetta bætist við alla hina skattana og gjöldin sem þessi ríkisstjórn hefur ítrekað hækkað og fundið upp nýja skatta og ný gjöld. Þessi ríkisstjórn hefur ekki aðeins haldið Íslandi í hópi þeirra ríkja sem leggja allra hæstu skatta á þegnana af nokkru landi, hún hefur bætt í jafnt og þétt og oft einmitt með umbúðamennsku, með því að gefa gjöldunum og refsingunum ný nöfn, kalla þau græna skatta til að mynda. Um leið hefur hún gert fyrirtækjum og öllum almenningi erfiðara og erfiðara fyrir að búa til verðmæti og skapa eitthvað nýtt með því að stækka báknið og flækja regluverkið. Það er orðið nánast ófært fyrir einstakling að stofna lítið fyrirtæki, gera hugmyndina sína að veruleika, af því að stjórnvöld munu stoppa hann af. Uppfylla þarf 22 skilyrði og þú hefur jafnvel enga hugmynd um hvernig þú eigir að uppfylla þessi skilyrði, jafnvel eftirlitsstofnanirnar vita það ekki fyrir fram hvernig eigi að uppfylla þessi skilyrði. En þú þarft að gera það og til þess þarftu að ráða sérfræðinga til að fara í gegnum þetta allt saman og leggja fram öll gögn, allar áætlanir o.s.frv., borga fyrir allt saman og hugsanlega færðu leyfi til að búa til ný verðmæti, framfylgja góðu hugmyndinni þinni, hugsanlega ekki. Meira að segja fyrirtæki sem eru þegar í rekstri hafa ekki undan að bregðast við nýju flækjunum sem koma hingað á færibandi og eru afgreiddar á færibandi í gegnum þetta þing án þess að hv. þingmenn oft á tíðum og jafnvel stofnanirnar og ráðuneytin sem fjölluðu um þær viti í rauninni hverjar afleiðingarnar verða. Þetta eru iðulega einhverjar Evrópureglur sem okkur er þó sagt að sé gríðarlega mikilvægt að hleypa hér í gegn.

Meðan á þessu gengur eru grunnstoðir samfélagsins vanræktar og grunnatvinnuvegirnir, ekki hvað síst, kannski alveg sérstaklega þessa dagana og þessi misserin, landbúnaður. Stöku stjórnarþingmaður kemur upp og lýsir áhyggjum af ástandinu, jafnvel stöku ráðherra, en það er ekki brugðist við í samræmi við tilefnið. Og hvert er tilefnið? Tilefnið er neyðarástand í landbúnaði eins og framkvæmdastjóri Bændasamtakanna, Vigdís Häsler, hefur ítrekað sagt frá í viðtölum og í greinum. Þetta er ekki eitthvað sem þarf að leysa á næstu misserum eftir að skipuð hefur verið nefnd til að skoða málið. Þetta er eitthvað sem þarf að leysa strax, á næstu dögum, því að þessi undirstöðuatvinnugrein landsins, greinin sem býr til matvælin sem hafa haldið í okkur lífinu og haldið uppi þessu samfélagi frá landnámi, er ekki bara í raunverulegri hættu. Við sjáum hvað er að gerast nú þegar. Fólk er að bregða búi og hætta búskap vegna þess að kerfið er orðið svo fjandsamlegt þessari mikilvægu grein að menn sjá ekki til lands og hvernig þeir eiga að geta haldið áfram sínum rekstri, sínum fjölskyldubúum, að óbreyttu. Þetta ætti að kalla á í fjárlagafrumvarpi aðgerðir sem taka mið af stöðunni, taka mið af raunveruleikanum og breyta stöðunni. Í þessu fjárlagafrumvarpi hefði ríkisstjórnin þurft að sýna að henni væri alvara með þessar stöku athugasemdir sem koma hér einstaka sinnum frá hv. þingmönnum meiri hlutans, að henni væri alvara með að bjarga landbúnaðinum og gerði sér grein fyrir stöðunni sem hann er í. Það er ekki að sjá í þessu fjárlagafrumvarpi.

Það er í rauninni alveg furðu lítið að sjá í þessu fjárlagafrumvarpi um eitthvað sem kalla mætti framtíðarsýn, einhverja stefnu fyrir landið, fjárfestingu í því sem er hagkvæmt og mun skila okkur aukinni verðmætasköpun, svo ég tali nú ekki um sparnað sem virðist vera þessari ríkisstjórn algerlega framandi hugtak; sparnaður. Það er kannski ekki skrýtið í ljósi þess að ríkisstjórnin hefur slegið öll met í útgjöldum en það hvarflar ekki að henni að við þær aðstæður sé kannski rétt að fara að huga að útgjaldahliðinni á sparnaði. Hvar er það að sjá? Hvergi, en við sjáum nýja skatta, ný gjöld og ný útgjöld ríkisins á mörgum sviðum, nýjar stofnanir. Framsóknarflokkurinn og ég tala nú ekki um Vinstrihreyfinguna – grænt framboð eru alveg sérstaklega áhugasöm um að auka útgjöld til hinna ýmsu stofnana og búa til nýjar. Vinstri græn vilja stofna enn eina mannréttindastofnunina. Ég veit ekki hvort hún verður sú fimmta eða sjötta en þau vilja tikka í þetta box þó að það muni engu breyta um mannréttindi. Það mun ekki auka mannréttindi á Íslandi og jafnvel hafa öfug áhrif. En af því að þetta snýst allt um umbúðirnar þá telja þau sig vera að tikka í boxið með því að búa til nýja stofnun sem heitir Mannréttindastofnun. Það eru reyndar ekkert mörg ár síðan búin var til ný stofnun en þó í því tilviki með sameiningu stofnana. Sú stofnun fékk nafnið Menntamálastofnun. Nú þegar við sjáum árangurinn af því, námsárangur íslenskra barna falla hraðar en í nokkru öðru OECD-landi, nokkru öðru efnahagslega þróuðu landi, hvert er þá ráðið sem þessi ríkisstjórn býður upp á? Meiri umbúðir; nýja stofnun, nýja Menntamálastofnun. Búið er að finna nýtt nafn á hana sem er kannski ekki eins lýsandi fyrir hlutverk stofnunarinnar og Menntamálastofnun, en nú skal aldeilis tekið til óspilltra málanna og mynda nýja stofnun til að leysa árangursleysi þessarar ríkisstjórnar í menntamálum. Það er ekki hægt að undirstrika það nógu mikið, frú forseti, eins og hv. þm. Líneik Anna Sævarsdóttir kom reyndar inn á í upphafi dags, að þetta er á ábyrgð ríkisins, stjórnvalda og þessarar ríkisstjórnar fyrir vikið. Við getum ekki leyft henni að afgreiða þetta bara út af borðinu með því að endurskíra stofnun eða búa til nýja stofnun með sama hlutverk.

Þessi ríkisstjórn og hæstv. ráðherrar þessarar ríkisstjórnar þurfa að fara að taka einhverja ábyrgð á gjörðum sínum eða aðgerðaleysi. Aðgerðaleysið hefur kannski verið ráðandi en viðbrögðin eina ferðina enn með þessu fjárlagafrumvarpi eru að reyna að borga sig frá vandanum sem þau hafa búið til, auka útgjöldin í von um að aukin útgjöld, aukinn hallarekstur ríkisins, hærri skattar, fleyti þeim fram að næstu kosningum þrátt fyrir að allir megi sjá hversu lítill árangurinn af þeirri nálgun hefur reynst vera. Þau fengu tveggja ára frí á Covid-tímanum, við munum eftir því. Þá þegar var byrjaður óróleiki yfir stefnu eða stefnuleysi ríkisstjórnarinnar, sem átti að vera ópólitísk milli flokkanna. Svo kom stóra hléið, fríið, og þeim hafði aldrei liðið betur en þegar þau þurftu ekki að taka ákvarðanir og stjórna. En nú er raunveruleikinn aftur tekinn við og hann er aldeilis að koma í bakið á okkur eins og birtist svo glögglega í þessu nýja metútgjaldafrumvarpi sem þó virðist ekki leysa nokkurn skapaðan hlut.

Frú forseti. Ég bið yður að afsaka að ég á erfitt með að hætta að nefna þetta af því að það er bara svo mikil ráðgáta fyrir mér hvernig hægt er að eyða svona miklu af peningum almennings og hækka álögur á almenning svona mikið og fá ekkert fyrir það. Hvað hefur fengist fyrir öll þessi met í útgjöldum? Það er erfitt að benda á það. En áfram koma loforðin og fyrirheitin og flest eru þess eðlis að það skuli framkvæma þau á næsta, þarnæsta eða einhverju öðru kjörtímabili eftir það, ekki í tíð þessarar ríkisstjórnar. Þjóðarhöll var tvisvar kynnt á blaðamannafundum með borgarstjóranum, forsætisráðherra og hvað það heitir núna, mennta-, íþrótta- og sitthvaðmálaráðherra, tvisvar kynnt með undirritun. Birtist það í þessu fjárlagafrumvarpi? Nei, auðvitað ekki. Þessu er bara kastað fram. Og ég tala nú ekki um það sem ég verð að nefna í þessari fyrstu ræðu minni, frú forseti, af því að ég sé að tíminn er að renna frá mér, húsnæðismálin. Hversu margar kynningar höfum við fengið að sjá frá þeim félögum, borgarstjóranum í Reykjavík og hæstv. innviðaráðherra, um þá tugi þúsunda íbúða sem þessir menn ætluðu að byggja sín á milli. Aftur og aftur kynningar og það fjölgar alltaf íbúðunum sem þeir ætla að byggja. Hvað var það fyrst, 10.000, 15.000, ég man það ekki, 18.000, 20.000, 25.000 — 35.000 íbúðir. Það gerist aldrei neitt nema búnar eru til nýjar glærur með fleiri íbúðum. Núna loksins viðurkenna menn þó að þetta eigi að gerast einhvern tíma í framtíðinni, löngu eftir að þessi ríkisstjórn er farin frá. Sama er með samgöngubæturnar. Hvað áttu göngin að vera mörg, frú forseti? 14? Þau eiga að koma einhvern tíma í tíð einhverrar annarrar ríkisstjórnar en þessi ríkisstjórn ætlar að státa sig af því að hafa lofað þeim.

Þetta er allt svona, frú forseti. Eins og ég nefndi í byrjun átti þessi ræða að vera á almennu nótunum, snúast um stóru myndina, en í seinni ræðum fer ég væntanlega nánar í stöku liði og tölurnar sem liggja hér að baki. Þær eru um margt íhugunarverðar og ég bið því hæstv. forseta að skrá mig aftur á mælendaskrá.