154. löggjafarþing — 44. fundur,  6. des. 2023.

fjárlög 2024.

1. mál
[21:27]
Horfa

Sigmundur Davíð Gunnlaugsson (M) (andsvar):

Frú forseti. Vissulega er meiri hætta á sveiflum ef gjaldmiðillinn er lítill en það er ekki beint samhengi þar á milli. Ef hagstjórn er í lagi þá þarf lítill gjaldmiðill ekki að sveiflast meira heldur en stærri. Við höfum séð dæmi um það auðvitað í samanburði við bandaríkjadollar, sænska krónu, breska pundið, íslensku krónuna að það er ekki endilega alltaf minnsti gjaldmiðillinn sem sveiflast mest, öðru nær. Meira að segja þýska markið á sínum tíma sveiflaðist oft töluvert, þannig að gjaldmiðill er bara mælikvarði á hagkerfið. Stundum kann að vera að okkur hafi gengið erfiðlega að hafa stjórn á hagkerfinu hér, ef svo má segja, eða halda á því jafnvægi. Það var líklega meira vandamál hér áður fyrr þegar atvinnuvegirnir voru einhæfari en nú er. En við höfum líka séð að vaxtastig fer ekki endilega eftir stærð gjaldmiðils. Við höfum svona í seinni tíð farið í gegnum tíma þar sem vextir af íslensku krónunni voru lægri en á mörgum öðrum gjaldmiðlum. Við höfum séð að meira að segja á sama gjaldmiðli, evrunni, getur verið mjög ólíkt vaxtastig. Það voru allt aðrir og miklu hærri vextir í Grikklandi á lánum þar heldur en í Þýskalandi. Það er vegna þess að vextirnir líta til áhættunnar sem liggur í fjárfestingunni sem ráðist er í fyrir lántökuna. Það hefur væntanlega ekki farið fram hjá hv. þingmanni hvers konar ófremdarástand hefur ríkt í Bandaríkjunum á húsnæðismarkaði þegar menn allt í einu upplifa það að vextir eru farnir upp úr húsnæðislánum, úr 0,5%, eða 1% upp í 7,5% í bandaríkjadölum. Allt er þetta því spurning um undirliggjandi stærðir. (Forseti hringir.) Gjaldmiðillinn er bara mælikvarði en gerir okkur líka kleift að hafa betri stjórn ef við viljum það.