154. löggjafarþing — 44. fundur,  6. des. 2023.

fjárlög 2024.

1. mál
[22:07]
Horfa

Lenya Rún Taha Karim (P):

Virðulegi forseti. Ég ætla ekki að gera forseta það að vera jafn lengi og ég var þegar við vorum að ræða fjárlögin í fyrra þannig að ég ætla að reyna að hafa þetta stutt og laggott og bara fara yfir helstu efni sem ég staldraði við. Til að byrja með setti ríkisstjórnin sér sjálfstætt landsmarkmið um 55% samdrátt í losun á beinni ábyrgð Íslands fyrir 2030 og kolefnishlutleysi og full orkuskipti eigi síðar en árið 2040 og m.a. að Ísland skuli verða óháð jarðefnaeldsneyti fyrst allra ríkja. Ástæðan fyrir því að ég nefni þetta er að þetta eru afar metnaðarfull markmið og þau eru ekki í samræmi við markmið og aðgerðaáætlanir t.d. Evrópusambandsins sem við fylgjum þegar kemur að þessum markmiðum en þar er miðað við árið 2050. Á Íslandi erum við heldur ekki með það í lögum hvað orkuskipti eru, við erum hvergi með aðgerðirnar lögfestar sem þarf til að ná fullum orkuskiptum og við vitum ekki einu sinni hvað full orkuskipti eru í skilningi laga og þar af leiðandi er ekki hægt að útfæra þær aðgerðir sem þarf til á skilvirkan og lögmætan hátt að einhverju leyti. Meðal þeirra spurninga sem maður spyr sig er: Eru full orkuskipti þá orkuskipti í samgöngum? Eru það orkuskipti í flugi líka? Eru það orkuskipti á sjó? Ef orkuskipti á sjó og í flugi eru tekin með í reikninginn, virðulegi forseti, þá getum við svo sannarlega gleymt því að ná þessum markmiðum.

Samt sem áður, þó að ríkisstjórnin hafi hlaupið á sig við gerð stjórnarsáttmálans með ótímabærum og vanfjármögnuðum markmiðum í umhverfis- og loftslagsmálum, verður þó að taka fram að ef eitthvert land á möguleika á því að ná þessum markmiðum þá er það auðvitað Ísland. Það sem er mikilvægast er að metnaðarfullum markmiðum þurfa að fylgja markvissar aðgerðir sem koma m.a. fram í formi fjárframlaga til þessara málaflokka. Í fjárlögum fyrir árið 2024 hækka fjárframlög til orkumála um 5,9 milljarða kr., sem er auðvitað fagnaðarefni, en í fjárlagafrumvarpinu er talað um, með leyfi forseta, „styrki til hreinorkuökutækja, átaksverkefni og til innviðauppbyggingar …“ og þetta er auðvitað gott og blessað en ég sakna þess vissulega að sjá bein framlög í almenningssamgöngur. Það er öllum alveg ljóst að sérstakir hvatar við kaup á hreinorkuökutækjum nýtast fyrst og fremst efri millistéttinni og gagnast lágtekjufólki lítið sem ekki neitt.

Í þessu samhengi langar mig einnig að benda á að aukin útgjöld ríkissjóðs megi m.a. rekja til stuðnings ríkissjóðs við orkuskiptin. En það kemur alveg þó nokkrum sinnum fram í fjárlagafrumvarpinu að umræddur stuðningur við orkuskiptin hefur flust af tekjuhliðinni yfir á gjaldahlið. Menn mega alveg spyrja sig hvort þessi stuðningur ríkissjóðs við orkuskiptin sé í raun bara aukabyrðar ríkissjóðs sem skila í ofanálag ekki tilætluðum árangri á sviði umhverfis- og loftslagsmála. Ég held að það sé nú alveg frekar ljóst að aðgerðir þessarar ríkisstjórnar til að stuðla að hröðum orkuskiptum eru nánast einvörðungu í formi rafmagnsbílavæðingar innan lands og lítil sem engin áhersla er lögð á bættar almenningssamgöngur sem eru knúnar af sjálfbæru eldsneyti sem myndu nýtast öllum.

Til að taka dæmi um hvert nágrannalönd okkar eru að fara þá samþykkti Evrópuþingið tilskipun fyrir sirka mánuði en með nýsamþykktri tilskipun Evrópuþingsins og ráðsins um breytingu á tilskipun 2018/2001, betur þekkt sem RED III, sem stendur fyrir, með leyfi forseta, „renewable energy directive“, var lögfest ákvæði sem aðildarríki eru skyldug til að taka upp og innleiða í landslög, var lögfest ákvæði þar sem aðildarríki eru skyldug til þess að styðja við framfarir á sviði orkutækni og þróun á sjálfbæru eldsneyti. Mér finnst þetta bara mjög góð aðgerð. Þetta er bara aðhaldið sem sum aðildarríki þurfa til að stuðla að þróun í málum sem varða umhverfis- og loftslagsmál.

Virðulegi forseti. Kannski fór það fram hjá mér við lestur þessa fjárlagafrumvarps en ég sá hvergi hvata né framlög til þess að stuðla að aukinni þekkingu á orkutækni og heldur ekki neitt um sjálfbært eldsneyti, hvort sem það er metan, lífeldsneyti eða rafeldsneyti og fleira. En enn og aftur, ég minni bara á markmiðin fyrir 2040 og hér fara ekki saman hljóð og mynd. Þessi ríkisstjórn þarf einfaldlega að gera betur ef þetta á að nást.

Hvað varðar kolefnishlutleysi, virðulegur forseti, þá eru 16 ár í að við verðum að athlægi á alþjóðavísu, en óskandi hefði verið að sjá útvíkkun gildissviðs kolefnisgjalds þannig að það nái yfir starfsemi sem fellur ekki þegar undir ETS-kerfið, viðskiptakerfi með losunarheimildir. Skilvirkar og árangursríkar aðgerðir sem bíta eru það sem þarf til að skila ætluðum árangri, enda virðist enginn hugsa sig tvisvar um þegar hækkaðir eru stýrivextir til að draga úr einkaneyslu almennings til að sporna við verðbólgunni. En þegar kemur að því að skattleggja mengandi stóriðju virðist enginn vilja taka að sér að hlutast til um réttindi og skyldur þeirra. Mig langar líka í þessu samhengi að nefna að við tölum gjarnan um gullhúðun evrópskra gerða sem við tökum upp í landsrétt en það skýtur skökku við að þegar kemur að innleiðingu regluverks sem stuðlar að auknum árangri á sviði umhverfis- og loftslagsmála þá virðumst við að reyna að forða okkur alfarið frá því.

Annar hlutur sem ég staldraði við var ógagnsæið í fjárlagafrumvarpinu. Til að nefna dæmi virðist stjórnsýsla umhverfismála vera að fá hærri fjárframlög en aðgerðirnar sjálfar sem þarf til að sporna við loftslagsvánni sem hér blasir við hvað varðar nánari tilgreiningu á helstu verkefnum hvers ráðuneytis fyrir sig. Ég er ekki að afmarka þessi atriði við umhverfis-, orku- og loftslagsráðuneytið, þetta á við um öll ráðuneytin. Þá er tekið fram að breyting á fjárveitingum til helstu verkefna hvers ráðuneytis fyrir sig sé innan ramma, bara innan ramma, ekkert meira en það. Ég spyr mig, virðulegi forseti, hvað þýðir innan ramma? Ég velti því bara fyrir mér hvernig hæstv. fjármála- og efnahagsráðherra ætlast til að við samþykkjum fjárlög fyrir næsta ár án þess að gera athugasemd við þetta og án þess að vita og vera kunnugt um hvert umrædd fjárveiting fer. Það eru ótal málaflokkar sem eru þegar fjársveltir og eiga hættu á að vera enn fjársveltari við samþykkt þessara fjárlaga fyrir árið 2024. Það virðist ekki vera ljóst hver þjónustuþörf hvers og eins málaflokks fyrir sig er og þar af leiðandi vantar upp á kostnaðarmatið á þeim verkefnum innan hvers málaflokks fyrir sig.

Þá vil ég koma inn á forgangsröðun verkefna. Aukin áhersla er lögð á forgangsröðun verkefna í hverjum málaflokki fyrir sig á sama tíma og gætt er hagsmuna og fjárhagsstöðu almennings þar sem við lifum á tímum stöðugrar verðbólgu. Með stöðugri verðbólgu á ég við að viðvera verðbólgunnar hefur verið bara nokkuð stöðug síðustu mánuði. Hún hefur ekki verið að fara neitt, hún er ekkert að lækka ef við erum að bera okkur saman við nágrannaríkin okkar, jafnvel frá byrjun þessa kjörtímabils. Staðan í efnahagsmálum hér á Íslandi hefur farið að íþyngja borgurum þessa lands og komandi kjarasamningaviðræður eru heldur ekki að bæta úr skák en útlit er fyrir að stjórnvöld og atvinnulífið muni setja á herðar launafólks til að sporna við verðbólgunni og biðla til þess að gæta hófs í kröfum í samningaviðræðunum. Það þykir mér verulega miður og ég vona að þessi spá mín verði ekki að veruleika.

Annað sem mig langaði að koma inn á, virðulegi forseti, og veldur mér áhyggjum eru fjárframlög næsta árs til eftirlitsstofnana, nánar tiltekið Samkeppniseftirlitsins. Helstu verkefni menningar- og viðskiptaráðuneytisins sem eru tilgreind í fjárlagafrumvarpinu kalla ekki á aðkomu Samkeppniseftirlitsins, enda myndi það fela í sér aukna fjárveitingu eða aukið fjárframlag til stofnunarinnar, sem þessi ríkisstjórn virðist vera afar treg við að framkvæma, því miður. Það er auðvitað nauðsynlegt að taka fram að eftirlit með virkri samkeppni og aðgerðir til að tryggja gagnsæi á samkeppnismarkaði skila sér í formi efnahagslegs ávinnings til samfélagsins og þetta er ekki í fyrsta skipti sem ég segi þetta hér í ræðustól Alþingis. Í skýrslu Samkeppniseftirlitsins frá 2008 kom fram að aðgerðir til að viðhalda og efla samkeppni stuðla hraðar að endurreisn atvinnulífsins í kjölfar efnahagsörðugleika. Þegar nágrannaríki okkar eru að grípa til aðgerða til að efla eftirlitsstofnanir erum við að láta eftirlitsstofnanir sæta aðhaldi hér á Íslandi. Með þessari þróun er hætta á að úrlausn mála vegna manneklu skili sér á þann veg að forgangsraða þurfi verkefnum sem eru með lögbundna tímafresti, líkt og samráðsmál, á kostnað annarra verkefna sem eru ekki með lögbundinn tímafrest en eru samt sem áður mjög alvarleg, líkt og misnotkun á markaðsráðandi stöðu sem hefur verulega íþyngjandi áhrif á aðra samkeppnisaðila og aðra markaðsaðila, sérstaklega í fákeppnisumhverfi sem skilgreinir marga ef ekki nánast alla lykilmarkaði hér á Íslandi. Ásamt þeim málum sem eftirlitið þarf að rannsaka þá hefur Samkeppniseftirlitið einnig heimild til að hefja mál að eigin frumkvæði, þ.e. frumkvæðisathugun, en með þessu aðhaldi sem eftirlitið þarf að sæta er útlit fyrir að það verði þrengt að getu Samkeppniseftirlitsins til að sinna því hlutverki og þar af leiðandi bara lögbundnu hlutverki sínu.

Virðulegur forseti. Gagnsæi á samkeppnismörkuðum sem er til komið af lögmætri og virkri samkeppni er eitthvað sem skilar sér margfalt til baka í samfélagið, ef ekki beint til ríkissjóðs í tilfelli sumra fyrirtækja sem eru einnig að einhverju leyti í eigu ríkisins. Við ættum svo sannarlega að standa vörð um það hér á Alþingi og ég vona að meiri hluti fjárlaganefndar taki mið af þessu.

Annað sem hefur verið mikið í brennidepli, alla vega síðan ég tók fyrst sæti á þingi, og hefur verið bara mörg síðustu ár, eru geðheilbrigðismálin, virðulegi forseti. Þetta er í þriðja skipti sem ég er að taka þátt í fjárlögum, ég hef ég tekið sæti á þingi á hverju einasta ári í fjárlögum síðan þetta kjörtímabil hófst, og á hverju ári hef ég komið hingað upp í pontu og bent á samþykkt þingsályktunartillögu Viðreisnar á síðasta kjörtímabili um niðurgreiðslu á sálfræðiþjónustu en líkt og öll önnur ár er ekki að finna aðgerðir til að fjármagna þessa tillögu. Það kemur væntanlega niður á þeim sem þurfa á þessari þjónustu að halda. Eins og ég sagði fyrr í ræðunni minni þurfa markvissar aðgerðir að fylgja metnaðarfullum markmiðum og þessar aðgerðir koma einmitt fram í formi fjárframlaga. Það gengur ekkert að samþykkja einhverja svona tillögu, veita fólki von um að það þurfi ekki að borga alla vega svona 60.000 kr. á mánuði, 40.000 ef það er heppið, fyrir það eitt að sækja sér aðstoð vegna andlegra veikinda og síðan bara taka það í burtu frá því og setja það aldrei í fjárlögin.

Virðulegi forseti. Ég er komin aðeins út af sporinu, fyrirgefðu. Í október kom út skýrsla út frá greiningu á gögnum Píeta samtakanna, en niðurstöður þessarar rannsóknar voru sláandi. Ég ætla ekki að fara út í smáatriði enda fengu allir þingmenn og ráðherrar boð á kynningu Píeta samtakanna, en ég saknaði þess að sjá marga þar. Hins vegar vil ég benda á að fyrirbyggjandi aðgerðir og forvarnir sem krefjast einnig fjármagns hafa auðvitað mjög mikil áhrif og eru vænlegar til vinnings þegar kemur að því að sporna við sjálfsvígum hérlendis en það krefst einnig fjármagns. Þessar fyrirbyggjandi aðgerðir til að stuðla að betri andlegri heilsu fólks og mögulega sporna við þessari þróun sem er að eiga sér stað á vinnumarkaði þar sem sífellt fleiri eru að lenda í kulnunarástandi — sífellt fleiri eru að hætta vegna andlegra veikinda, hætta að vinna vegna andlegra veikinda eða eru að hætta í námi — munu auðvitað skila sér margfalt til baka í samfélagið þar sem þessi verðmætasköpun sem sumir flokkar tala svo mikið um er auðvitað bara fyrst og fremst fólkið. Fólkið er að skapa þessi verðmæti og þar af leiðandi er fólkið þessi verðmæti. Þetta er eitthvað sem við þurfum að varðveita og þetta er eitthvað sem ég hefði svo viljað sjá í fjárlögum þessa árs en auðvitað er það ekki til staðar.

Síðasti punkturinn minn er fangelsin. Ég þarf ekkert að benda á skýrsluna sem kom út í síðustu viku en staða fangelsanna hefur verið frekar döpur síðustu ár og það hefur ekkert verið farið leynt með það. Margir flokkar og líka þau yfirvöld sem sjá um rekstur þessara fangelsa hafa margoft bent á þessa stöðu sem blasir við í fangelsunum og kemur niður á föngunum og meðferðinni þeirra. Hún er bara virkilega óviðunandi. Í kjördæmavikunni í október síðastliðnum heimsótti ég Litla-Hraun og það var svo rosalega margt þarna sem lét mig hugsa um hvað við sem þingmenn gætum gert hér á Alþingi. Aðstaðan var t.d. óviðunandi og það virðist öllum vera alveg sama. Það virðist enginn vera að forgangsraða heilsu og aðstöðu fanga til að stuðla að betrunarmeðferð af því að ívilnanir og hvatar vegna kaupa á hreinorkuökutækjum vega greinilega meira.

Ég hugsa líka til þess hvað einmitt fyrirbyggjandi aðferðir með styrkingu félagslegra kerfa, forvörnum, sálfræðiaðstoð frá unga aldri, ekki endilega regluleg sálfræðiaðstoð en bara aðgengi að sálfræðiþjónustu, og fleiri þættir myndu skila sér ótrúlega vel og mögulega minnka endurkomutíðni fanganna. Endurkomutíðni fanga er miklu hærri en við viljum gera okkur grein fyrir og áttum okkur hreinlega á. Kannski er hluti af ástæðunni það að betrunarmeðferðin sem fangar fá í fangelsum er ekki betrunarmeðferð. Þetta er alfarið refsing, þetta er einangrun. Þetta er afleiðing fjársveltis og manneklu. Við gleymum mjög oft að fangelsisvist á að stuðla að betrun fanga og gera þeim kleift að gerast þátttakendur í samfélaginu aftur. En þegar efling fangelsa á hátt sem stuðlar að betrun afbrotamanna lendir svo langt niðri í forgangsröðun ríkisstjórnarinnar þá neyðast fangelsin bara til að gera það besta úr því sem þau hafa, því að það eru allir vissulega að reyna sitt besta og það eru allir að reyna að veita þessu fólki sem besta þjónustu og stuðla að betrun en þetta þarf að koma frá ríkisstjórninni líka. Þetta þarf líka að koma í formi fjárframlaga af því að eins leiðinlegt og það er að segja það þá er bara ekki hægt að gera neitt ef þú ert ekki með pening. Stofnanir eru gjörsamlega geldar ef þær fá ekki peninga. Þetta er bara eitthvað sem ég vona að hæstv. fjármála- og efnahagsráðherra hafi í huga við gerð næsta fjárlagafrumvarps. Kannski á næsta ári, hver veit?

Til að ljúka þessu þá vil ég bara benda á að við erum þegar einangruð þjóð, við erum lengst úti á Atlantshafinu. Við erum ekki með neina tengingu við önnur lönd. Við þurfum að ferðast á milli með flugi, sem kostar mjög mikið miðað við önnur Evrópuríki, til annarra Evrópuríkja og bara persónuleiki Íslendinga og annarra norrænna ríkja er bara svolítið einangraður. Við erum ekki með þetta, með leyfi forseta, „sense of community“. Það vantar upp á þetta og orsakasamhengi milli félagslegrar einangrunar og andlegra veikinda er auðvitað bara rosalega mikið. Þess vegna nefndi ég auðvitað fyrirbyggjandi aðgerðir á borð við styrkingu félagslegra kerfa, eflingu forvarnastarfs, bætta sálfræðiþjónustu á grunnskólastigi þar sem allir nemendur eiga greiðan aðgang að sálfræðingi og betra aðgengi að sálfræðingum á háskólastigi. Ég er ekki viss hvað það starfa margir sálfræðingar í HÍ núna en þegar ég var í stúdentaráði störfuðu tveir sálfræðingar í HÍ og þau voru ekki í fullri vinnu þar. Við getum líka nefnt ofgreiningar á börnum sem kannski eru ekki með þessa greiningu. Kannski þurfa þau einfaldlega bara meira félagslegt utanumhald, aðeins meiri félagslegan stuðning. Þetta er að sjálfsögðu miklu auðveldar sagt en gert en bara til að byrja með hefðum við getað tekið á þessu núna í fjárlögum.

Annað skref til þess að líta fram á veg og nýta til þess að grípa til þessara aðgerða er í kjarasamningaviðræðum eftir áramót. Við getum hugað að þessum atriðum þar, t.d. í formi þess að stytta vinnuvikuna á þann hátt að foreldrar komist heim til barnanna sinna og nái að verja tíma með þeim og haga kjarasamningum á hátt sem stuðlar að fjölskylduvænum vinnustað, virðulegi forseti. Þetta eru bara nokkur atriði sem ég sakna þess að sjá í fjárlagafrumvarpi fyrir árið 2024. Ég var með marga fleiri punkta en, virðulegi forseti, ég er orðin svolítið þreytt. Ég ætla bara að hleypa næstu þingmönnum að.