154. löggjafarþing — 45. fundur,  7. des. 2023.

aðbúnaður fanga og fjárskortur í fangelsismálum.

[11:03]
Horfa

Sigmar Guðmundsson (V):

Virðulegi forseti. Eins og Viðreisn hefur ítrekað bent á þá skortir verulega á að fjármunum sé forgangsraðað í ríkisrekstrinum. Óvíða sést það betur en í löggæslu- og fangelsismálum, fangelsiskerfi landsins er fjársvelt á sama tíma og glæpum fjölgar. Fangelsismálastofnun hefur ítrekað bent á að fjársvelti og slæmur aðbúnaður bitni á öryggi fanga og einnig fangavarða. Ljótasta birtingarmynd fjársveltisins er sú staðreynd að á Íslandi eru andlega veikir fangar, fangar sem eru í geðrofi jafnvel, vistaðir í fangaklefa. Forstjóri Fangelsismálastofnunar hefur ítrekað um margra ára skeið bent á að fólk sem glímir við alvarleg andleg veikindi eigi ekki að vista í fangelsi. Samt er það gert. Á dögunum bárust fréttir af því að gæsluvarðhaldsfanga væri haldið í einangrun þrátt fyrir mjög alvarleg veikindi. Þessi fangi var í geðrofi og þurfti þar af leiðandi betri aðhlynningu en veitt er í einangrunarklefa í gæsluvarðhaldi. Hann þurfti aðstoð á spítala en var neitað, allt þar til Fangelsismálastofnun sendi tvo fangaverði með manninum á sjúkrahúsið til að sitja yfir honum. Mannekla og fjárskortur gerir það að verkum að ekki voru til peningar og mannskapur til að hafa fangaverðina lengi í því hlutverki og þegar þeir þurftu frá að hverfa var gæsluvarðhaldsfanginn fluttur aftur í fangelsið í geðrofi.

Það gengur ekki að það gerist aftur og aftur að alvarlega veikt fólk fái ekki þá heilbrigðisþjónustu sem það þarf vegna þess að tvö ráðuneyti, heilbrigðisráðuneytið og dómsmálaráðuneytið, geta ekki komið sér saman um hver eigi að tryggja þessi sjálfsögðu mannréttindi. Við eigum ekki að líða að veiku fólki sé neitað um sjálfsagða bráðaþjónustu á sjúkrahúsi vegna þess að ekki er hægt að skaffa fjármuni, sem í þessu tilfelli eru ekki háir fjármunir. Við brjótum ekki mannréttindi á fólki vegna þess að tvö ráðuneyti eru í störukeppni. Treystir hæstv. dómsmálaráðherra sér til þess að tryggja það að enginn vafi sé á að alvarlega veikir fangar fái þá þjónustu á sjúkrahúsi sem þeir þurfa svo sárlega á að halda, (Forseti hringir.) að við þurfum ekki að lesa um svona mannréttindabrot í fjölmiðlum aftur?