154. löggjafarþing — 45. fundur,  7. des. 2023.

aðbúnaður fanga og fjárskortur í fangelsismálum.

[11:05]
Horfa

dómsmálaráðherra (Guðrún Hafsteinsdóttir) (S):

Virðulegi forseti. Ég þakka hv. þingmanni fyrir fyrirspurnina um þetta mikilvæga mál sem hefur verið mikið í umræðunni síðustu daga. Það er rétt að umboðsmaður Alþingis hefur birt skýrslu um stöðuna í fangelsinu á Litla-Hrauni. Fangelsismálin hafa verið og eru eitt af mínum áherslumálum sem dómsmálaráðherra eftir að ég kom inn í ráðuneytið. Ég vil ítreka, og ég geri ráð fyrir að allur þingheimur sé sammála mér í því, að þetta er viðkvæmur og flókinn málaflokkur og það er mjög mikilvægt að hlúa vel að fólki í þeirri viðkvæmu stöðu sem það er í í fangelsum landsins. Í dómsmálaráðuneytinu tökum við því mjög alvarlega öllum ábendingum sem að okkur beinast um það sem betur má fara í þessum málaflokki. Við fögnum því jafnframt hve áhugi og skilningur á málefninu hefur aukist í samfélaginu öllu og teljum að það muni gagnast mikið í þeirri vinnu sem við þurfum að fara í til að raunverulega bæta aðstöðu fanga í fangelsunum. Eins og hv. þingmaður lýsti þá er það rétt og ég ætla ekki að draga það í efa, það mál sem kom upp um daginn, þar sem andlega veikur fangi lenti í vandræðum og virðist hafa lent á milli kerfa, heilbrigðiskerfis og svo fangelsismálakerfisins. Það er vinna í gangi í þremur stóru verkefnum sem tengjast þessu með einum eða öðrum hætti og þar vil ég fyrst nefna að í gangi er heildarendurskoðun í málaflokknum og við erum að leggja lokahönd á verkáætlun og skipun starfshóps og breiðari samráðsvettvang. Við viljum vinna það verkefni í breiðu samráði og samstarfi strax í upphafi milli ráðuneyta, stofnana, hagaðila og fleiri aðila. Ég get nefnt líka húsnæðismálin en ég kem kannski að því í seinna andsvari mínu.