154. löggjafarþing — 45. fundur,  7. des. 2023.

Miðstöð menntunar og skólaþjónustu.

238. mál
[11:27]
Horfa

Bryndís Haraldsdóttir (S):

Virðulegur forseti. Við ræðum hér stofnun Miðstöðvar menntunar og skólaþjónustu. Ég get tekið undir margt sem hv. þingmaður fór hér yfir áðan, Þorgerður Katrín Gunnarsdóttir, og jafnframt fyrrverandi menntamálaráðherra sem þekkir þennan málaflokk vel og þær breytingar sem við höfum verið að gera á síðustu árum.

Ég er sammála hv. þingmanni um mikilvægi þessa máls og vil geta þess að þetta mál kom fram seint á síðasta þingi. Við náðum ekki að klára það þá en bókuðum jafnframt í hv. allsherjar- og menntamálanefnd mikilvægi þess að málið fengi skjótan framgang á þessu þingi. Við höfum jafnframt lagt mikla áherslu á það á þessum vetri að menntamálin séu ofarlega á dagskrá og þau hafa verið ofarlega á dagskrá. Við höfum farið og heimsótt ráðuneyti barna- og menntamála og hitt þar fjöldann allan af frábærum sérfræðingum sem hafa verið að vinna með hæstv. ráðherra að þróun í málaflokknum og höfum einsett okkur að setja okkur eins vel og mögulegt er inn í þennan málaflokk.

Virðulegur forseti. Það er auðvitað ekki annað hægt en að nefna hér stöðu íslensks menntakerfis þegar við ræðum þessa miðstöð sem mun hafa ákveðið lykilhlutverk en er alls ekki þannig að við getum bara hallað okkur aftur í sætunum og sagt: Heyrðu, þau sjá bara um þetta. Það held ég að sé mikilvægt og ég hef margoft sagt það hér í þessum sal að við ræðum menntamál allt of lítið. Eflaust tengist það yfirfærslu grunnskólans til sveitarfélaganna og við höfum bara sagt við sveitarfélögin: Þið sjáið um þetta. Sveitarfélögin hafa gert margt vel en vandamálið okkar er að okkur vantar mælingar á það sem verið er að gera. Þessar PISA-niðurstöður eru í dag einu mælingarnar sem við höfum, einhverjar samræmdar mælingar á námsárangur íslenskra barna og því miður eru þær niðurstöður algjör vonbrigði. Það eru líka svo mikil vonbrigði að þetta eru ekki nýjar fréttir. Við höfum verið lök á þessum mælikvarða svo árum skiptir og við stefnum enn niður á við.

Mér finnst líka mikilvægt að geta þess þegar við ræðum þessa hluti að það eru ákveðnir þættir sem koma vel út og þeir lúta að líðan og velferð barna. Við megum ekki tala það niður. Það er rosalega mikilvæg undirstaða og ætti þar af leiðandi að vera góður grunnur til að byggja á góðan og mikinn námsárangur. En ég velti því fyrir mér og hef gert það í töluverðan tíma hvort við höfum verið of upptekin af því í skólaumræðu að leggja áherslu á líðan og velferð. Það er mikilvægt og það er gott og við höfum náð árangri, en hvort skólinn sé orðinn of mikil velferðarstofnun og hafi misst gildi sitt sem menntastofnun. Ég held að það hljóti að vera full ástæða fyrir okkur núna að ítreka mikilvægi skólanna sem menntastofnunar og til þess þurfa að vera mælikvarðar á þeim aðferðum sem verið er að beita inni í þeirri þjónustustofnun.

Ég er sammála því sem hér hefur komið fram, og ég held að það ríki um það mikill samhljómur, bæði í þessum sal og úti í samfélaginu, að skólakerfið okkar, grunnskólakerfið okkar er mikilvægt jöfnunartækifæri. Það eiga öll börn á Íslandi að fá jöfn tækifæri til að þroska hæfileika sína með góðum grunnskóla. Þá hafa einhverjir sagt: Já, þá hlýtur að þurfa að setja meiri peninga í kerfið. Nei, staðan er ekki sú að skólakerfið á Íslandi sé fjársvelt, sem er orð sem oft er notað um ýmis kerfi. Það er ekki staðan því sömu mælingar frá OECD sýna að grunnskólinn á Íslandi er að fá umtalsvert meiri fjármuni, bara sem hlutfall af vergri landsframleiðslu, heldur en skólakerfi annars staðar sem þó eru að sýna betri námsárangur. Þannig að við sem berum ábyrgð á menntamálum verðum að taka þessi skilaboð til okkar. Við verðum að taka þau alvarlega og það þarf að bregðast við með aðgerðum. Þá er einmitt spurningin: Með hvaða aðgerðum? Hvaða aðgerðir virka? Ég er algerlega sannfærð um það að þeir sem hafa verið að vinna bæði í grunnskólunum og hjá sveitarfélögunum og menntavísindasviði hafi komið með ofboðslega mikið af flottum og skemmtilegum hugmyndum á síðustu árum en við höfum ekki mælikvarða á hvað það er sem virkar. Það auðvitað gengur ekki.

Ég get líka tekið undir það sem kom fram áðan varðandi námsgagnagerð. Það er alla vega eitt sem við vitum, að námsgagnagerð er ekki í nægilega góðum farvegi. Okkur vantar meiri og betri námsgögn og það lýtur auðvitað sérstaklega að íslenskunni og okkar litla málsvæði, hvort sem það er í formi bóka eða annars konar lausna sem ná árangri, þannig að það er eitt efni sem við þurfum að taka til og það er hluti sem Miðstöð menntunar og skólaþjónustu fær ákveðið hlutverk í. En ég vil ítreka að ég held að það sé mikilvægt að virkja frumkvöðla, virkja markaðinn í þeim efnum þótt Miðstöð menntunar og skólaþjónustu þurfi að vera einhvers konar gæðaúttektaraðili á það hvaða námsefni sé gæðaefni og þar af leiðandi hvaða námsefni megi bjóða upp á inni í skólunum.

Ég ætla líka að gera það að tillögu minni að menntamálaráðherrar Norðurlandanna stofni með sér norrænt menntavísindaráð sem geti verið ráðgefandi ráð til menntamálayfirvalda á öllum Norðurlöndum. Í því sitji allir færustu sérfræðingar á sviði menntavísinda, hvort sem þeir eru norrænir eða annars staðar að úr heiminum því að við sjáum það líka í PISA að Norðurlöndin öll, þessi velferðarsamfélög sem við státum af og berum okkur saman við innbyrðis, árangur þeirra í PISA fer því miður niður á við í öllum þessum löndum og við erum þar því miður lægst.

Hér er svo sannarlega verk að vinna. Það frumvarp sem við erum með í höndunum og sú stofnun sem um ræðir fær mikilvægt hlutverk. En við þingmenn og hæstv. menntamálaráðherra, svo og sveitarfélögin auðvitað, kennarasamfélagið allt, foreldrasamfélagið allt, þurfum að sameinast um aðgerðir sem virka og sýna algjöran einhug í því að þessu þurfi að breyta því að börnin okkar eiga meira skilið. Ég ætla líka að fá að segja það, vegna þess að ég hef heyrt í börnum sem hafa áhyggjur af þessari umræðu allri saman, að ég hef engu að síður ofboðslega mikla trú á íslenskum ungmennum. Ég held að þau séu ofboðslega klár að svo mörgu leyti og hafi fengið ýmislegt gott, bæði frá samfélaginu Íslandi en ekki síður út úr grunnskólanum sínum. En við viljum bara líka, og það er algerlega nauðsynlegt, að þau fái fyrirtaksmenntun sem skili þeim árangri þannig að hægt sé að mæla hann og við eigum auðvitað að setja markið miklu hærra þegar kemur að þessum mælikvarða.