154. löggjafarþing — 45. fundur,  7. des. 2023.

Miðstöð menntunar og skólaþjónustu.

238. mál
[11:44]
Horfa

Dagbjört Hákonardóttir (Sf) (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég vil bara þakka hv. formanni allsherjar- og menntamálanefndar kærlega fyrir góða yfirferð á þessu mikilvæga máli. Ég ætla bara að nota tækifærið hér og segja að ég skynja mikinn vilja til að gera vel þvert á alla flokka. Þannig á það að vera og þannig skulum við halda áfram. Þess vegna ætla ég að nýta þann meðbyr sem er með íslenskum menntamálum í dag til þess að lyfta umræðunni upp á það plan sem hún á skilið ef við eigum að halda áfram á þeirri vegferð að skapa það sem ég vil meina að verði einhvers konar sátt um menntamál. Ég tek svo innilega undir með hv. formanni allsherjar- og menntamálanefndar um að það hafi verið of lítið talað um menntamál í íslenskum stjórnmálum. Alþingi hefur a.m.k. talið þetta vera verkefni sveitarfélaga, geri ég ráð fyrir, meðvitað eða ómeðvitað, sérstaklega grunnskólastigið. En PISA-niðurstöður eru bara PISA-niðurstöður, gleymum því ekki. Þær eru eitt mælitæki. Þau eru mörg og við eigum ekki að vera hrædd við að skera okkur úr með þeim hætti sem við eigum skilið, við getum nefnilega skarað fram úr á svo mörgum sviðum og það skal enginn segja mér að það sé ekki færi fyrir okkur fyrir það hér í dag. Mig langar til þess að spyrja formann um skoðun hennar á leikskólastiginu. Hvernig ætlum við að efla leikskólastigið með þeim hætti sem það á skilið í tengslum við stofnun nýrrar stofnunar þannig að það skili sér í öflugri grunnskólanemum með hliðsjón af áherslum ríkisstjórnarinnar á t.d. íslenska tungu?