154. löggjafarþing — 45. fundur,  7. des. 2023.

Miðstöð menntunar og skólaþjónustu.

238. mál
[11:48]
Horfa

Dagbjört Hákonardóttir (Sf) (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég þakka hv. þm. Bryndísi Haraldsdóttur kærlega fyrir svarið og það er bara ágætt að heyra hennar afstöðu í málefnum mikilvægustu stofnunar allra tíma sem er leikskólastigið. Það er nú eitt stig sem við Íslendingar höfum mótað góða umgjörð um svona í grunninn, þökk sé öflugum kvennalistakonunum hérna á níunda áratug síðustu aldar. Þá bjuggum við til módel sem er á heimsmælikvarða, ég ætla bara að fullyrða það hér. Þetta er gimsteinn í okkar kórónu í okkar jafnréttissamfélagi. En það er farið að kvarnast úr því vegna þess að við sjáum það að við erum í mörgum sveitarfélögum búin að missa sjónar á tilgangi stigsins. Ég verð bara því miður að nefna í þessu sambandi að það er búið að taka mjög afdrifarík skref í nágrannasveitarfélögum Reykjavíkurborgar, til að mynda í Kópavogi, á þá leið að stytta leikskóladaginn og þjónustu við foreldra og börn verulega án þess að eitthvað komi á móti. Ég er í grunninn hlynnt stuttum vinnudegi fyrir börn sem og fullorðna. Þessar aðgerðir, t.d. í þessu stóra nágrannasveitarfélagi Reykjavíkurborgar, eru ekki til þess fallnar að stytta biðlistana t.d. hjá talmeinafræðingum sem eiga að hjálpa börnum af erlendum uppruna að læra íslensku. Það er ekki til þess fallið að hjálpa starfsfólki leikskólanna að læra íslensku eða að gera fólki almennt kleift að taka á móti þeim áskorunum sem stærra flóknara samfélag býður upp á. Hérna erum við að fjarlægja leikskólann út úr þeim stóra ramma sem á að heita jöfnunartæki. Ég hef bara virkilega áhyggjur af þessu og ég vona að áherslurnar okkar hér á Alþingi, í formi þess að skapa þessa endurnýjuðu sátt um skólana sem jöfnunartæki, endurspeglist í þeirri umræðu sem er tímabær um hvort það sé bara rétt að skapa lagaumgjörð um leikskólastigið og gera það lögbundið og gerir það að verkum að þeir eigi sína eigin sjálfstæðu tekjustofna. Ég held þetta sé tímabær umræða.