154. löggjafarþing — 45. fundur,  7. des. 2023.

Miðstöð menntunar og skólaþjónustu.

238. mál
[12:42]
Horfa

Dagbjört Hákonardóttir (Sf):

Frú forseti. Ég þakka þeim hv. þingmönnum sem hafa tekið hér til máls í dag. Mér finnst þessi umræða ekki bara skemmtileg heldur er hún upphafið að einhverju nýju í okkar samfélagi sem lýtur að því að gera menntapólitík að alvörupólitík og færa hana úr því sem heitir: Við viljum öll að börn séu í skólum og það er gott að vera í skóla og ef börn læra heima, eru kurteis við kennarann sinn og gefa sig að náminu sínu þá farnast þeim vel. Og ef kennarar mennta sig í fimm ár og sinna símenntun sinni og beita sér fyrir því að skila góðum nemendum út í þetta þjóðfélag þá muni þeim líka farnast vel og búa við starfsánægju og hamingju í starfi.

Við vitum að veröldin er flókin. Hún verður sífellt flóknari. Samfélagið okkar hér á Íslandi verður líka aðeins flóknara samhliða stækkun þess, tækniþróun og aukinni fjölbreytni. Það er bara gott því að við höfum öll gott af því að upplifa nýjar áskoranir í lífinu. Það verður nú samt að segjast alveg eins og er að það kemur í hlut okkar stjórnmálafólks að veita bæði nemendum og kennurum og foreldrum tæki og tól til að láta menntakerfið ná tilgangi sínum og láta viðfangsefni menntakerfisins blómstra til fulls. Þarna er ég að sjálfsögðu að tala um börn og nemendur.

Það má nálgast menntamál út frá mismunandi vinklum. Ég er þeirrar skoðunar að mér finnst jafn mikilvægt að tala um vellíðan kennara og starfsfólks í skólum og vellíðan barna í skólum. Það skiptir auðvitað máli um hvaða skólastig ræðir. Ég hef fylgst með umræðum um menntamál á undanförnum árum, ekki reyndar beint sem notandi kerfisins. Ég er tveggja barna móðir, mér finnst allir ræðumenn hér gera dálitla grein fyrir fjölskylduhögum sínum hérna, en það er kannski allt í lagi að segja það að ég móðir tveggja barna sem núna hafa bæði lokið leikskólanámi og er því orðin stórnotandi í grunnskólakerfinu. Ég get alveg sagt ykkur það hér í dag að ég ætla ekki að kveðja leikskólastigið þótt ég hafi útskrifast þaðan sem foreldri, það er og verður einhver mikilvægasta stofnun sem við eigum.

Af hverju tala ég um leikskóla núna þegar PISA-könnunin er á vörum allra? Það er vegna þess að ég er að ræða það mál sem er hér til umfjöllunar í dag, sem er frumvarp til laga um Miðstöð menntunar og skólaþjónustu. Niðurstöðurnar eru sláandi — og ég kem aðeins inn á leikskóla eftir. En bara til að afgreiða aðeins þessa umræðu sem mér finnst rétt að gefa mig að í tengslum við PISA þá er sá munur sem kemur fram í fyrsta lagi á Íslandi og svo á hinum Norðurlöndunum og í öðru lagi sá árangur hér varðandi samfélagslega stöðu barna ekkert annað en afleiðing af forgangsröðun í ríkisstjórn. Ég fer ekki ofan af þeirri skoðun.

Ég geri mér grein fyrir því að við höfum ekki verið að æpa á hvert annað hér inni í þingsal eða úti í samfélaginu um það hvernig við eigum að haga íslenskukennslu. Við höfum bara hreinlega sofnað hérna á verðinum varðandi það hversu mikilvægt það er að fjármagna lítið málsvæði tilhlýðilega til þess að það skili sér í raunverulegri kunnáttu barna hérna. Ég ætla bara að segja það alveg eins og er að við endurreisum okkur ekkert eitthvað sem bókmenntaþjóð og menningarþjóð og lærdómsþjóð nema það komi mjög markvissar aðgerðir til skoðunar. Það þýðir þá að við þurfum bara að virkja okkar fremstu sérfræðinga, við þurfum að virkja hugvísindin. Hér er mikið talað um það að í þekkingarsamfélaginu þurfum við að lyfta upp STEM-greinum, sem á ensku útleggst, með leyfi forseta, „Science, Technology, Engineering and Mathematics“. Á Íslandi skiptir auðvitað máli að gera það. En ef við ætluðum að leyfa þessu litla, ofurlitla málsvæði okkar að blómstra eða bara hreinlega að láta það lifa af þá þarf annað og miklu meira að koma til.

Mér finnst kannski ágætt að minna á það að hér er liggur fyrir þingsályktunartillaga um eflingu íslenskrar tungu. Ég ætla að vísa í 14. lið, 14. markmið þeirrar þingsályktunartillögu, Efling íslenskuhæfni starfsfólks í leik og grunnskólum og frístundastarfi. Þar segir, með leyfi forseta:

„Mótuð verði viðmið um íslenskuhæfni starfsfólks sem vinnur við uppeldi og menntun sem hvorki er með íslensku að móðurmáli né með leyfisbréf til kennslu í leik- og grunnskólum. Hæfniviðmið byggist á markmiðum laga um leikskóla, laga um grunnskóla og aðalnámskrám viðkomandi skólastiga og taki mið af hæfniþrepi B samkvæmt Samevrópska tungumálarammanum. Jafnframt verði framboð á námskeiðum í íslensku fyrir þennan hóp aukið.“

Tímaáætlunin er 2024–2025 og ábyrgðin er sett á mennta- og barnamálaráðuneytið.

Í skýringum er gerð grein fyrir eftirfarandi, með leyfi forseta:

„Starfsfólki með fjölbreyttan menningar- og tungumálabakgrunn hefur fjölgað á íslenskum vinnumarkaði.“

Rúmlega 13% starfsfólks í leikskólum eru ekki með íslensku að móðurmáli. Þar segir enn fremur:

„Brýnt er að starfsfólkið búi yfir nauðsynlegri hæfni í íslensku til að eiga í samskiptum við nemendur og annað starfsfólk skóla, leiðbeina nemendum í námi og geta tekið þátt í að skapa lærdómsumhverfi sem stuðlar að aukinni hæfni í íslensku.“

Það er algjörlega ljóst að þetta verður að koma til framkvæmdar með einum eða öðrum hætti og það verður svo sannarlega ekki við okkur jafnaðarmenn sakast að styðja ekki þessar umleitanir. Það er hins vegar ekki sama hvernig við förum að hlutunum og það verður verkefni nýrrar stofnunar að sjá um útfærslu á þessu, geri ég fastlega ráð fyrir, og verður komið þar inn á t.d. framhaldsfræðslu sem á líka heima í þessu frumvarpi. Ég veit ekki hvort ég fari með rangt mál en ég held að ég geti fastlega gert ráð fyrir því að þeirri stofnun verði falið að sjá að stórum hluta um slíka fræðslu. Hvað varðar tímasetningu á þessari fræðslu, þ.e. innan vinnudagsins, er bara stórkostlegt mál sem við þurfum að ná sátt um. Á þetta fólk að geta farið að íslenskunám á vinnutíma? Ef ekki þá erum við að tala um risastórt kjaramál og ég á ekki von á því að það verði hægt að laða fólk af leikskólastiginu ef íslenskukennsla á að fara fram á öðrum vettvangi. Það lengir vinnudaginn svo um munar.

Ég ætla að segja alveg eins og er að ég hef ekki reynslu af því að vera kennari. Ég þekki ekki starfsumhverfið, kem ekki úr þessu umhverfi en ég kem af sveitarfélagsstiginu. Ég hef um árabil unnið við stoðþjónustu við menntastigið og þekki ágætlega þær áskoranir sem fólk stendur frammi fyrir í daglegu starfi. Ég þekki líka þær áhyggjur, ég þekki þær þungu byrðar sem lúta að því að sinna öðrum hlutum en beinni kennslu bara gagnvart börnum og ég veit að það er ákall um það að fleiri mælitæki séu til staðar fyrir fólk til þess að mæla árangur af þeirra starfi. Við vitum sem stöndum frammi fyrir nýjum verkefnum hverju sinni að það er ekkert jafn krefjandi og að vinna verkefni sem þú veist ekki hvernig þú átt að leysa af hendi og hefur engar mælistikur á það hvernig eða hvort aðferðirnar þínar séu að bera árangur. Það hefur verið nefnt réttilega að hér séum við með marga mismunandi skóla, mörg mismunandi skólasvæði, þar sem mismunandi aðferðum er beitt í tengslum við það að kenna námsefni sem leiðir beint af aðalnámskrá. En fólk er í takmörkuðum samskiptum og það er ákveðin innbyrðis streita milli sumra skólasvæða sem gerir það að verkum að fólk er að takast á um það sem rétt er hverju sinni um það hvernig maður kennir stærðfræði eða hvernig maður kennir íslensku. Þess vegna ber ég miklar væntingar til nýrrar stofnunar um það að vera til þjónustu við skólanna til að leysa úr þeim vanda.

Það er aftur okkar í stjórnmálunum að fylgjast með því hvort fjármunum sé forgangsraðað á rétta staði. Það hefur verið mikið sagt hér í, bæði í almennri umræðu og í umræðunni í tengslum við nýja stofnun, að það sé verkefni sveitarfélaganna að ráða úr þessum vanda, það sé í rauninni fjármagnið. Það eru þau sem hafa yfir 200 milljarða til ráðstöfunar til þess að veita börnum Íslands fyrsta flokks menntun á heimsmælikvarða, ef svo má segja. En auðvitað mun bara það kosta okkur fjármuni að stíga út úr þessum vanda. Hvort það kallar á forgangsröðun þess fjármagns sem nú liggur fyrir eða hvort við eigum að sækja fjármagn eitthvert annað inn í þessa púllíu skal ég ekki segja til um. En ég held að við þurfum svolítið að taka þessa 200 milljarða og leyfa þeim að standa fyrir sínu en horfa á hin kerfin okkar, sem við vitum að mun bæta íslenskt menntakerfi. Við sjáum að við erum ekki bara að skora illa í PISA, hjá OECD. Við Íslendingar skerum okkur algerlega úr á heimsmælikvarða hvað varðar jafnvægi á milli heimilis og vinnu. Við erum í 33. sæti af 40 í slíkum mælingum. Til viðmiðunar eru Finnar í 17. sæti, Svíar í því sjöunda, Norðmenn í þriðja og Danir í öðru. Þegar við ætlum að horfa til Norðurlandanna til að bæta okkur í menntamálum þá vitum við að stóra svarið við þessum vanda leynist kannski bara hreinlega í þeim aðbúnaði sem íslensk heimili búa við.

Ég held að það sé bara mjög vert að huga nánar að því, og það er algjörlega ljóst og það er bara mjög mikilvægt að benda á það, að það er erfiðara að koma þaki yfir höfuðið á Íslandi og eiga í hinu daglega streði heldur en í mörgum þessara landa sem ég nefni hér. Auðvitað er líka stéttskipting á Norðurlöndunum. Ég er ekki að segja að þar séu ekki til samfélagsleg vandamál sem við erum líka að glíma við. En þar eru hins vegar tilfærslukerfi sem hægt er að treysta á fyrir barnafjölskyldur, hvort sem það er í formi barnabóta, húsaleigubóta, skattaívilnana sem lúta sérstaklega að því að gera fólki kleift að komast út á vinnumarkað eftir barnsburð, hvort sem það er í lengra fæðingarorlofi eða þá annars konar aðbúnaði. Ég get ekki sagt að það séu allar leiðir sem farnar eru á Norðurlöndunum útfærðar betur en þær íslensku en við getum svo sannarlega gefið í vegna þess að þessar umbætur munu leiða til betri menntakerfis, ég ætla bara að fullyrða það hér.

Við ræddum hér áðan um leikskólakerfið. Það er alveg ljóst að leikskólakerfið er sprungið. Ég er bara algerlega þeirrar skoðunar. Þetta frábæra kerfi sem er algjört krúnudjásn í íslensku þjóðfélagi, forsendan fyrir því, ég ætla að fullyrða það hér, að við erum fremst meðal jafningja í jafnréttismálum, en það er að kvarnast úr því. Þessar aðfarir sem núna eiga sér stað víða um land um að stytta leikskóladaginn undir því yfirskini að vernda velferð barna eru ekkert annað en kvenna- og fátæktargildra. Ég er ekki bjartsýn á að þetta muni leiða til betra samfélags, þvert á móti. Við í Samfylkingunni munum berjast ötullega gegn slíkum breytingum og hér er tími til kominn að spyrja hvort leikskólarnir þurfi ekki að komast á sérstaka tekjustofna. Ég hlakka til að eiga áfram umræður um menntamál og þá í víðara samhengi hér því að þetta tengist allt saman.