154. löggjafarþing — 45. fundur,  7. des. 2023.

Miðstöð menntunar og skólaþjónustu.

238. mál
[13:10]
Horfa

Líneik Anna Sævarsdóttir (F):

Virðulegi forseti. Ég vil hér þakka þessa umræðu sem fram hefur farið við 3. umræðu um frumvarp til laga um Miðstöð menntunar og skólaþjónustu, umræða sem hefur verið mjög góð og virkilega mikilvægt að finna þann víðtæka stuðning sem er við frumvarpið þó að vissulega hafi komið fram gagnrýni á ýmsa þætti sem tengjast því. Það hefur margt mikilvægt verið dregið fram í umræðunni og mig langar að koma inn á nokkur þeirra atriða hér.

Ég fór yfir mínar áherslur varðandi þetta frumvarp þegar ég mælti hér fyrir hönd meiri hluta allsherjar- og menntamálanefndar fyrir nefndaráliti og breytingartillögum við málið og svo ræddi ég hér í ræðustól í gær þetta frumvarp og tengsl þess við niðurstöður úr PISA í stuttri ræðu undir liðnum störf þingsins. Ég ætla að ítreka einhver þessara atriða og koma inn á annað sem hér hefur komið fram.

Ég er mjög ánægð með þá breytingu sem frumvarpið felur í sér þar sem ætlunin er að setja á fót stofnun þar sem leiðarljósið verður að veita skólum og kennurum þann stuðning sem þarf í vinnu að farsæld og góðum námsárangri íslenskra barna. Góður námsárangur er liður í farsældinni. Það hefur annars heyrst í umræðunni, ekki hér í þingsal heldur kannski svolítið annars staðar, að námsárangur og farsæld eigi ekki saman en hluti af farsældarstefnunni er að bæta námsárangur. Þetta á að vera stofnun þar sem þjónustuhlutverkið verður í fyrirrúmi og forystuhlutverkið við að innleiða aðferðafræði og tryggja aðgang að þekkingu, bestu þekkingu á hverjum tíma til starfsþróunar í gegnum góð námsgögn og matstæki. Þar með taldar eru stafrænar lausnir sem er nauðsynlegt að henti skólunum, þannig næst bestur árangur í menntakerfinu.

Það er mikilvægt að stofnunin einfaldi vinnuna fyrir skólakerfið þannig að hún taki t.d. að sér verkefni sem nóg er að vinna á einum stað frekar en að hver skóli þurfi að finna upp hjólið, sama verkefnið sé endurtekið í hverjum skólanum á fætur öðrum, það sem hægt er að vinna á einum stað verði unnið á einum stað og tími kennara og starfsfólks skólanna getur þá farið í annað. Þetta á t.d. við um mat á gæðum námsgagna og alla vega stafrænna lausna þar sem þarf að liggja fyrir samræmt gæðamat með vísan til markmiða námskrár og mats á áhrifum á persónuvernd. Það mun leiða til verulegs hagræðis fyrir skólastofnanir en líka til miklu meiri gæða í vinnunni.

Ég vil svo ítreka það að frumvarpið er liður í innleiðingu á stefnunni um farsæld barna og eitt púslið í stærri heildarmynd og það kemur fram í nefndarálitinu að við eigum von á fleiri frumvörpum í vetur sem eru mjög mikilvæg, m.a. um námsgögn.

Aðeins að PISA. Það hefur verið talað töluvert um niðurstöðuna úr matinu á læsi og það sem mér finnst mjög jákvætt í niðurstöðunum er matið á líðan íslenskra nemenda. Þar skora íslenskir nemendur hátt, en gleymum samt aldrei þeim sem ekki líður vel í skólanum. Það þarf líka að hyggja að þeim. Íslenskir nemendur sýna þrautseigju en ég hef áhyggjur af því að þau virðast ekki vera eins forvitin og nemendur í samanburðarlöndunum þegar þau ljúka grunnskólanum því að forvitni er auðvitað lykill að námi, grunnfærni og forvitni, seigla og þrautseigja til að vinna og æfa sig.

Það voru nokkur atriði sem hv. þingmenn Þorgerður Katrín Gunnarsdóttir og Bjarkey Olsen Gunnarsdóttir ræddu hér, um áskoranir skólakerfisins, sem mig langar að bæta við. Það á við um það flókna tungumálaumhverfi sem er orðið inni í skólastofunni. Ég kom fyrst til kennslu í grunnskóla 1996 og þá voru í 100–150 barna skóla kannski einn til tveir nemendur sem ekki áttu íslensku að móðurmáli. Tíu árum seinna kenndi ég í þessum sama skóla og þá voru 20–25% nemenda sem ekki áttu íslensku að móðurmáli. Það er auðvitað bara verkefni skólanna að vinna með þessum hópi en til þess þurfum við rannsóknir á kennslu íslensku til þeirra sem eiga ekki íslensku sem móðurmál. Við þurfum rannsóknir, rannsóknir á námsefni og námsefni sem passar. Við þurfum aðferðir sem passa og leiðsögn og tækifæri fyrir kennara til að mennta sig í íslenskukennslunni. En við þurfum líka leiðsögn til allra kennara um hvernig þeir vinna með hópi sem er oft á tíðum í tví- eða þrítyngdu málumhverfi. Af hverju segi ég það? Flest íslensk börn eru alin upp við íslenskuna en enskan er líka orðin hluti af daglegu lífi. Þar fyrir utan eru svo börn í bekknum sem eiga önnur móðurmál en íslensku og ensku og þau eru þá í þreföldu umhverfi. Okkur vantar betri tækifæri fyrir kennara til að afla upplýsinga um hvernig best er að mæta þessum hópi og þessum aðstæðum.

Hv. þm. Dagbjört Hákonardóttir kom svo inn á aðgerðaáætlun í málefnum íslenskrar tungu og ég tek undir með henni að það er mjög mikilvægt að þeim aðgerðum sem þar eru verði hrint í framkvæmd og það er mjög mikilvægt verkefni sem allsherjar- og menntamálanefnd hefur fram undan, að fá umsóknir og ræða þá áætlun til þess að hún nýtist þessum hópi.

Eitt langar mig að nefna í viðbót varðandi þennan hóp tvítyngdra: Gleymum ekki foreldrum barnanna. Það er sá hópur sem við ættum að beina fyrst og fremst sjónum að varðandi íslenskukennslu fyrir fullorðna. Fólk af erlendum uppruna sem á börn í leikskólum, grunnskólum eða annars staðar í íslensku skólakerfi er sá hópur sem þarf að sinna fyrst og fremst í fullorðinsfræðslunni.

Mig langar að nefna aðra áskorun sem var komið inn á og það eru litlu skólarnir og nefnd var sameining sveitarfélaga sem lausn í því. Vissulega getur það verið lausn í einhverjum tilfellum en litlir skólar eru oft mjög langt frá næsta byggðakjarna. Það geta verið yfir 100 kílómetrar og einn eða tveir fjallvegir á milli o.s.frv., þannig að lausnin felst ekki í sameiningu. Ég held að það sé ekki hægt að leggja það á einstök sveitarfélög heldur þurfum við að vinna þetta í gegnum forystu á landsvísu, finna leiðir til að tryggja minnstu skólunum aðgang að fagþekkingu á mörgum sviðum. Þetta er eitt af því sem hefur komið upp í samtölum mínum við það fólk sem er að vinna fyrir verkefnið Brothættar byggðir um land allt.

Mig langaði svo að nefna það og taka undir og fagna umræðunni sem fram fór hér fyrr, m.a. frá hv. þm. Birni Leví Gunnarssyni, um að það er ekki hægt að tala um læsi, lestrarkennslu og læsi án þess að tala um lesblindu og mikilvægi þess að við höfum þekkingu á ólíkum aðferðum sem henta ólíkum einstaklingum til náms.

Mig langaði síðan að koma aðeins inn á hluti sem hv. þm. Eyjólfur Ármannsson hefur ítrekað vitnað til hér í ræðustól. Ég vil byrja á að hrósa þingmanninum fyrir mikinn áhuga á menntamálum og mikla elju í umræðu um menntamál. En mig langaði að nefna það að hann vitnar ítrekað til fyrirlesturs eða málþings sem haldið var hér á landi þangað sem kom m.a. franskur fyrirlesari. Ég hlustaði nefnilega líka á þennan fyrirlestur og úr honum tók ég fyrst og fremst að grunnfærni í lestri og stærðfræði verður ekki byggð upp nema með mjög mikilli æfingu og endurtekningum, æfingu og endurtekningu aftur og aftur, því þannig ná börn tökum á grunnfærni. En þessi sami prófessor lagði líka áherslu á hraðlestrarpróf sem mikilvægan mælikvarða á ákveðna lestrarhæfni, en alls ekki eina mælikvarðann. Ég vildi bara koma þessu á framfæri hér þar sem þetta hefur svo oft og ítrekað verið rætt.

En að lokum: Árangur næst ekki með töfralausnum eða tímabundnum aðgerðum. Það þarf langtímasýn. Stjórnvöld þurfa að sækja þekkingu víða, eins og við gerum m.a. í gegnum þátttöku í PISA og í öðrum alþjóðlegum menntarannsóknum og verkefnum. Ég tel ekki heppilegast að binda í lög um stofnun Miðstöðvar menntunar og skólaþjónustu hvernig við sækjum þessa alþjóðlegu þekkingu. Það ætti betur heima í stefnum og aðgerðaáætlunum hvers tíma. Og þótt sveitarfélögin beri ábyrgð á grunnskólunum þarf ráðuneyti menntamála að tryggja öfluga og faglega forystu og þjónusta starfsfólk sem vinnur með börnum um land allt.

Frumvarpið um Miðstöð menntunar og skólaþjónustu sem við ræðum hér er liður í umbótum. Og aftur: Gleymum því ekki að góður árangur í námi stuðlar að farsæld barna.