154. löggjafarþing — 45. fundur,  7. des. 2023.

fjárlög 2024.

1. mál
[13:49]
Horfa

Þorbjörg Sigríður Gunnlaugsdóttir (V):

Frú forseti. Ég ætla í minni seinni ræðu að fjalla aðeins um stöðuna á húsnæðismarkaði. Það er óumdeilt að staðan og árangur er lykilbreyta um að við náum árangri í glímunni við verðbólgu. Þar er auðvitað uppbygging eitt. Við heyrum mikið talað um mikilvægi þess að tryggja framboð og við heyrum mikið talað um framboðsvanda, jafnvel framboðsskort. Mér finnst við ræða minna um veruleika eftirspurnar. Þarna meina ég að það skorti aðeins upp á samhengi þess þegar við erum að ræða um framboðsvanda og framboðsskort þær einstöku aðstæður sem eru uppi á Íslandi vegna fólksfjölgunar. Við erum að horfa upp á mjög hraða og mikla fólksfjölgun og auðvitað þarf að vera jafnvægi í þessum breytum tveimur.

Varðandi verðbólguna þá erum við núna að sjá afleiðingar hennar á byggingamarkaði og á fasteignamarkaði. Við sjáum myndina t.d. hvað varðar leigjendur sem var verið að ræða hér í ræðunni á undan, að allar mælingar sýna að leigjendur á Íslandi hafa yfirleitt ekki valið sér það hlutskipti, eru á leigumarkaði vegna þess að þeir geta ekki keypt. Auðvitað er það ákveðið sérkenni á íslenskum leigumarkaði að þetta sé staðan, ef við horfum t.d. á Norðurlöndin er það töluvert algengt form sem fólk velur sér. Það segir svolítið mikið um stöðuna á íslenskum leigumarkaði og óöryggið hvað varðar húsnæði. Það er dýrt að leigja. Við þekkjum sögurnar af því að fólk er að greiða hærri leigu en bankinn telur að það geti staðist greiðslumat um. Á verðbólgutímum á þetta fólk enn lengra í land með það að geta eignast húsnæði. Síðan eru auðvitað birtingarmyndirnar sem við höfum rætt um töluvert hérna inni; afborganir af óverðtryggðum húsnæðislánum og þessi mikli flótti yfir í hin séríslensku verðtryggðu lán þar sem fólk kemst í skjól hvað varðar afborgunina en horfir fram á það að verðbólgan leggst ofan á höfuðstól lánsins.

Mig langaði í samhengi við húsnæðismarkaðinn og stöðuna þar að varpa fram þessari spurningu: Er það rétt lýsing á ástandinu að tala bara um framboðsvanda á húsnæðismarkaði? Er hægt að ræða um húsnæðismarkaðinn og stöðuna þar án þess að ræða samhliða ótrúlegan vöxt ferðaþjónustunnar inn á húsnæðismarkaðinn og hvaða áhrif það hefur á tækifæri fólks til að eignast húsnæði? Ferðaþjónustan er okkar verðmætasta útflutningsstoð í dag og er Íslendingum gríðarlega mikilvæg atvinnugrein sem hefur reynst þjóðinni vel. Við þekkjum flest þá sögu hvað hún gerði fyrir íslenskan efnahag í kjölfar hrunsins. Ferðaþjónustan hefur skilað og skilar okkur miklum tekjum og hefur reynst landsbyggðunum mikil lyftistöng. Ég vil leyfa mér að tala um nýsköpun í því samhengi og er á því að við ættum að skoða það í okkar stefnumótun hvernig mætti t.d. með hvötum reyna að dreifa henni betur um landið, víðar um landið í þágu byggðanna.

Ferðaþjónustan veldur um leið ytri áhrifum á hagkerfið. Við þekkjum þær lýsingar á greininni að hún er mannaflsfrek, við fáum ferðamenn hingað til lands og við flytjum líka fólk hingað til lands til að vinna í atvinnugreininni. Hún tekur undir sig húsnæði. Ferðamenn þurfa gistingu en það þarf fólkið sem hingað kemur til að vinna í greininni og tengdum greinum auðvitað líka. Hún veldur ytri áhrifum á hagkerfið. Við þekkjum það að þegar við tölum um verðbólgu og hagvöxt þá erum við að tala um tvær hliðar á sama peningi. Hagvöxturinn á Íslandi, eins og hann birtist okkur í dag, er að mjög miklu leyti drifinn af fólksfjölgun og af innflutningi á vinnuafli. Fjölgun íbúa er ör og eiginlega alveg ótrúleg. Það er eiginlega ótrúlegt að það sé ekki meira um þetta rætt. Það er ótrúleg fjölgun íbúa og starfa sem drífur þennan vöxt og það er erfitt að finna þjóðir þar sem fólksfjölgunin er á pari við það sem hún er á Íslandi núna. En hagvöxturinn hefur á þessum sama tíma verið einn sá minnsti í samanburði við OECD-ríki þegar við skoðum hvað hann er í reynd á mann. Hagvöxtur á hvern íbúa var samkvæmt gögnum frá BHM enginn á Íslandi á árunum 2017–2022. Það er ákveðinn spegill á það sem hér er að baki og hvað er að gerast. Þar vil ég tala aftur um fólksfjöldann því að þessi sprenging í fólksfjölda sem við erum að horfa upp á er ein helsta ástæða þess að íbúðaverð hefur farið svo ört hækkandi undanfarin ár. Þetta er ein helsta ástæða þess að raunverð húsnæðis hefur tvöfaldast á Íslandi á síðustu tíu árum — raunverðið hefur tvöfaldast á síðustu tíu árum. Þegar við berum okkur saman við Norðurlöndin að þessu leyti um raunhækkanir á fasteignaverði er munurinn dramatískur. Hækkunin er langtum hærri á Íslandi en annars staðar á Norðurlöndum. Auðvitað hefur það áhrif á lífskjör og lífsgæði fólks þegar þetta er staðan.

Aftur er hægt að setja þetta í samhengi við spurninguna: Hvers vegna eru kjarasamningar á Íslandi þetta erfiðir? Mig langar að vitna í Má Guðmundsson, fyrrverandi seðlabankastjóra, og ég gerði það raunar líka í minni fyrri ræðu, en hann sagði í viðtali fyrr í sumar í umfjöllun um þessa miklu fólksfjölgun og áhrif hennar að við verðum að hætta að tala um að staðan sé fasteignamarkaðnum að kenna því að umsvifin eru umfram það sem kerfið þolir. Ef við nálgumst þetta þannig að þetta sé fasteignamarkaðnum eða byggingamarkaðnum einum að kenna, að við séum ekki að byggja nóg, erum við þá ekki að líta fram hjá því hvað er að gerast á sama tíma í fólksfjölgun? Fólksfjölgunin er að langmestu leyti vegna flutnings starfsfólks til landsins í ferðaþjónustu og tengdum greinum og þegar íbúum fjölgar þetta ört hefur það auðvitað mikil og veruleg áhrif á eftirspurn eftir húsnæði, vörum og þjónustu. Við sjáum það mjög skýrt á höfuðborgarsvæðinu að markaðurinn ræður eins og er einfaldlega ekki við að mæta þörfinni á húsnæði. Þess vegna þurfum við á einhverjum stýritækjum að halda sem dempa sveiflur og kæla vöxtinn eða ágang ferðaþjónustunnar inn á húsnæðismarkaðinn. Við þurfum að setja mörk á byggingar fyrir gistirými í þéttbýli. Við þurfum nauðsynlega á takmörkunum að halda á Airbnb, heimagistingu, til að tryggja húsnæðisöryggi fólks, að það sé skýrt að húsnæðisöryggi fólks í höfuðborginni verði ekki stefnt í hættu vegna Airbnb. Þetta er mun augljósara á höfuðborgarsvæðinu heldur en annars staðar á landinu en ég er þeirrar skoðunar að meðan ekki er skýr stefna um ferðaþjónustuna og skýr atvinnustefna verður ómögulegt að koma húsnæðismarkaðnum í jafnvægi.

Það er ekki hægt að ræða húsnæðismarkaðinn og sleppa því að ræða ótrúlega fólksfjölgun hér, þessa hröðu fólksfjölgun, og ótrúlegan vöxt ferðaþjónustunnar inn á húsnæðismarkaðinn og áhrifin sem þetta hefur á möguleika fólks til að eignast húsnæði. Við heyrum enn þá að fyrst og fremst sé verið að ræða húsnæðismarkaðinn út frá framboðsvanda í því samhengi að ekki sé verið að byggja nóg. Auðvitað er framboðsvandi þegar eftirspurnin er þetta mikil en við þurfum að horfa á hverjar skýringarnar eru.

Í nýlegri skýrslu OECD, þessi skýrsla kom út í sumar, kemur fram að fjöldi ferðamanna á hvern íbúa á Íslandi er langmestur í OECD-samanburði. Hlutfallslegur fjöldi starfandi í ferðaþjónustu á Íslandi er líka sá mesti innan OECD. Eitt ríki toppar okkur þar sem er Malta. Þetta sýnir auðvitað stærð greinarinnar á Íslandi og það er ótrúlegt að setja þetta ekki í samhengi við áhrif og álag á innviði; á vegi, á heilbrigðisþjónustu. Löggæslan nefnir þetta álag líka. OECD mælir með því í samhengi við verðbólgu að tempra eftirspurn og stemma þannig stigu við verðbólgu og framleiðsluspennu. Í því ljósi vil ég segja að endurkoma gistináttagjaldsins er eðlilegt og þarft skref. Það þarf að hafa í huga að þessi gjaldtaka var við lýði en fór út í samhengi við heimsfaraldur og var sérstök aðgerð til að liðka fyrir og gera greininni auðveldara að komast af á erfiðum tímum. Ég held að það hafi verið fullkominn einhugur um þá aðgerð og það stóð aldrei annað til en að gistináttagjaldið kæmi aftur. Þetta er í mínum huga tímabær aðgerð sem sömuleiðis eykur jafnræði í skattlagningu milli atvinnugreina.

Ég vildi nefna þetta stuttlega í samhengi við húsnæðismarkaðinn og segja að ef við höfum metnað fyrir ferðaþjónustunni og fyrir íslensku samfélagi þá þurfum við skýra umgjörð og við þurfum einhverja sýn um það hvað samfélag eins og Ísland sækist eftir mörgum ferðamönnum, hvernig ferðamönnum við sækjumst eftir og hvort einhver efri mörk séu í því sambandi. Tækifærin fyrir greinina blasa við og sem Íslendingur er ég ekkert undrandi á því að fólk vilji sækja Ísland heim. Ég veit að það er í gangi stefnumörkun í ráðuneyti ferðamála og ég vona að hún skili þeim árangri fyrir greinina að tryggja þetta gullna jafnvægi sem greinin hefur gott af en innviðirnir og íslenskt samfélag í heild sinni líka. Þar þykir mér lykilbreyta vera að bregðast við því hver áhrif ferðaþjónustunnar og heimagistingar eru á húsnæðismarkaðinn og um leið á húsnæðisöryggi fólksins í landinu. Ég er sannfærð um að regluverk í þessa veruna muni hafa jákvæð áhrif á húsnæðismarkaðinn og húsnæðisöryggi og um leið liðka til um verðbólgu.