154. löggjafarþing — 45. fundur,  7. des. 2023.

fjárlög 2024.

1. mál
[14:02]
Horfa

Frsm. 1. minni hluta fjárln. (Björn Leví Gunnarsson) (P) (andsvar):

Forseti. Merkilegt nokk hafði ég ekki heyrt svo mikið rætt um húsnæðismálin í þessari umræðu. Ég var því mjög ánægður að heyra hv. þingmann koma aðeins inn á húsnæðismálin. Undanfarin þó nokkuð mörg ár hefur verið skortur á húsnæði á öllu landinu. Stjórnvöld hafa einhvern veginn reynt að koma til móts við það en alltaf gert það á eftirspurnarhliðinni, ekki framboðshliðinni. Einhvern veginn bauna allir, alla vega Sjálfstæðisflokkurinn, rosalega mikilli gagnrýni á Reykjavíkurborg sérstaklega fyrir að leysa ekki húsnæðisvandann fyrir þá. En vandinn er samt um allt land. Vissulega er Reykjavíkurborg stór hluti, þriðjungur landsmanna býr á höfuðborgarsvæðinu, en þegar tölur eru skoðaðar hefur bygging íbúða í Reykjavík haldið í við hlutfall íbúa í Reykjavík en íbúðabygging annars staðar hefur ekki náð því, eða sums staðar annars staðar en á mjög fáum öðrum stöðum. Nokkur sveitarfélög eru að standa sig þokkalega vel en það vantar upp á annars staðar. Þar er ég ekki að kenna einstaka sveitarfélögum um heldur er þessi skortur á samhæfingarhlutverki stjórnvalda. Eins og hér hefur verið sagt er búið að gera samning við Reykjavíkurborg um byggingu, sérstaklega á félagslegum íbúðum, en önnur sveitarfélög eru ekki komin inn í það. Mér finnst skorta á þessa almennu umræðu um það hvar heildarvandinn er í staðinn fyrir að vera bara í pólitísku skotgröfunum: Það er þessu sveitarfélagi að kenna eða hinu, þegar það eru í alvörunni stjórnvöld sem bera samhæfingarábyrgðina á þessu varðandi stofnframlögin, varðandi skipulagið í heild sinni, stefnumótunina og þess háttar. Mér finnst stjórnvöld hafa reynt að varpa ábyrgðinni af sér og yfir á Reykjavík og mér finnst það einfaldlega óheiðarlegt. Mig langar í meiri og dýpri umræðu um húsnæðismálin.