154. löggjafarþing — 45. fundur,  7. des. 2023.

fjárlög 2024.

1. mál
[15:24]
Horfa

Bergþór Ólason (M) (andsvar):

Frú forseti. Ég þakka hv. þingmanni andsvarið. Varðandi útgjöldin þá held ég að það séu rétt — ætli það séu ekki u.þ.b. fimm ár frá því að við rufum 1.000 milljarða markið í heildarútgjöldum. Nú eru heildarútgjöld samkvæmt fjárlögum núna einhvers staðar í námunda við … (BLG: Það var 2021.) 2021. Það eru ekki einu sinni fimm ár, það eru fjögur ár síðan, sem sagt fern fjárlög. Við stefnum núna í rétt um 1.500 milljarða í heildarútgjöldum, 1.396 minnir mig að hafi verið talan í fjárlagafrumvarpinu fyrir ári síðan. Að teknu tilliti til raunútgjaldanna yfir þetta tímabil, raunútgjaldavaxtarins, þá held ég að það séu mjög fáir sem hafi það á tilfinningunni að við séum að fá mikið fyrir viðbótarútgjöldin. Ég held að það séu mjög fáir sem upplifa það þannig að heilbrigðisþjónustan, heilbrigðiskerfið, sé á betri stað í dag en fyrir sex árum síðan. Ég held að það séu mjög fáir sem upplifa það að félagslegu kerfin séu á miklu betri stað í dag heldur en fyrir sex árum síðan. Þannig að spurningarinnar: Hvað erum við að fá fyrir peninginn? er spurt allt of sjaldan. Og hvernig getum við fengið meira fyrir íslenska skattborgara og þá sem hér búa? Og líka bara að geta svarað því gagnvart skattgreiðendum í hvað peningarnir þeirra eru að fara. Ég held að við séum allt of léleg í því hér í þinginu að kryfja mál út frá þessari forsendu: Í hvað eru peningarnir fara? Erum við að fá eitthvað fyrir viðbótarútgjöldin og hvar getum við gert betur? Af því að það er frumskylda okkar hér inni, að mínu mati, að fara vel með skattfé, eins vel og hægt er. (Gripið fram í: Heyr, heyr.)