154. löggjafarþing — 45. fundur,  7. des. 2023.

fjárlög 2024.

1. mál
[16:15]
Horfa

Sigmar Guðmundsson (V):

Frú forseti. Ég ætla aðeins að tæpa á því sem ég náði ekki að koma að í minni fyrri ræðu og snertir svona stóru myndina sem við erum að ræða hérna í fjárlögunum, allir þingmenn. Ég fór nú ofan í einstaka liði í fyrri ræðunni minni sem ég vildi sérstaklega taka fram. En auðvitað erum við í fjárlagagerð að leggja grunn að því hvernig samfélagið okkar lítur út til lengri tíma litið. Það gerum við með hverjum einustu fjárlögum og fjármálaáætlun og öllu því. Það sem mér finnst að við þurfum að hafa sérstaklega í huga núna til viðbótar við það sem ég nefndi í minni fyrri ræðu er annars vegar orkumálin og hins vegar það sem snýr að framtíðarfólksfjölgun hér á Íslandi því að þetta eru hlutir sem skipta mjög miklu máli þegar við erum að skoða þá velferð sem við viljum byggja upp hér í samfélaginu til lengri tíma.

En mig langar samt aðeins áður en ég kem að orkumálunum að fá að nefna, vegna þess að ég kom ekki inn á það í minni fyrri ræðu, að þegar við erum að tala um þennan alltumlykjandi vanda íslensks hagkerfis, sem er m.a. mjög sveiflukenndur gjaldmiðill, þá hljótum við að gera okkur grein fyrir því að þessi gjaldmiðill hefur áhrif á alls konar stærðir í hagkerfinu. Vegna þess að við erum að fara í kjarasamninga, og núna er það þannig að menn sitja og eru að reyna að ná einhverri lendingu og við vitum öll að ríkisvaldið mun koma inn í þá kjarasamningsgerð með einhvers konar útspili eins og gjarnan gerist, þá myndi ég vilja nefna vegna þess að það hefur verið nefnt hér í þessari umræðu og er náttúrlega mikið í umræðunni úti í samfélaginu, að vinnumarkaðsmódelið hér sé einhvers konar uppskrift að óstöðugleika. Það er auðvitað ekki nema að hluta til rétt þegar við höfum í huga hvers vegna það er að kjarasamningar ganga hér fram eins og við þekkjum svo vel úr sögunni. Það er auðvitað vegna þess að bæði launþegar og atvinnurekendur eru endurtekið í kjarasamningsviðræðum í þeirri stöðu að vera búnir að taka á sig mikið högg vegna vaxta og verðbólgu. Það gildir bæði um launþega og líka um fyrirtækin í landinu. Þó að ég sé ekki endilega sammála nálguninni þá hljótum við a.m.k. að geta sýnt því skilning þegar launþegahreyfingin horfir á alla þessa vexti sem hafa hrúgast upp í heimilisbókhaldinu, alla verðbólguna og dýrtíðina sem fólk finnur fyrir á hverju einasta skinni og gerir það að verkum að launin duga minna þennan mánuðinn en síðasta mánuðinn og þannig heldur það áfram út í hið óendanlega, þá hefur maður mikinn skilning á því að menn vilji í kjarasamningum einhvern veginn reyna að ná þessu til baka, reyna að milda það högg sem heimilin hafa þegar orðið fyrir.

Maður verður að hafa uppi þau almennu varnaðarorð að ef við erum að semja umfram eðlilega framleiðni í samfélaginu þá fáum við það á endanum til baka í verðbólgu því að því verður bara ýtt út í verðlag sem hækkar þá verðbólgu og svo aftur vexti. En við verðum að sýna því skilning að þegar menn eru beggja vegna, atvinnurekendamegin og launþegamegin, að semja sífellt í svona ástandi eins og ríkir jafnan hérna á Íslandi, þar sem vextir eru háir og verðbólga er há þá hefur það auðvitað mikil áhrif. Þannig að það má alveg færa rök fyrir því að þegar menn tala um það að ástandið sé svona í vöxtum og verðbólgu vegna þess að menn eru alltaf að semja með vitlausum hætti á vinnumarkaði þá séu þeir í raun og veru í hverjum samningunum á fætur öðrum að eiga við þær afleiðingar sem sveiflurnar í hagkerfinu valda og þær sveiflur má að mjög miklu leyti a.m.k. rekja til gjaldmiðilsins sem við höfum. En auðvitað spila síðan aðrar stærðir mikið inn í það, ríkisfjármál og fleira.

Ég vona að það gangi vel í þessum kjarasamningsviðræðum sem fram undan eru, en það mun örugglega þurfa að kosta ríkissjóð einhver fjárútlát að reyna að ná þar lendingu sem er hagfelld og stöðvar þennan vítahring verðbólgu og vaxta sem við erum föst í og er miklu meira viðvarandi ástand hér til lengri tíma en við þekkjum í löndunum í kringum okkur. Bara sú staðreynd að við erum með lítinn gjaldmiðil í alþjóðlegu umhverfi gerir það að verkum að við eigum erfiðara með að ná þeim árangri sem hefur náðst á vinnumarkaði í löndunum í kringum okkur og okkur þykir mörgum eftirsóknarvert að ná upp á stöðugleikann. Ég vildi bara halda því til haga hér í þessari umræðu af því að stutt er í kjarasamninga.

En síðan er það hitt atriðið sem ég nefndi og það eru orkumálin. Það hafa fleiri þingmenn tekið þetta upp hér í þessum umræðum. Það hefur átt sér stað einhver viðbótarorkuöflun núna á síðustu árum en stóra vandamálið er hins vegar að á næsta áratug, tveimur áratugum, þá erum við að vinna í orkuskiptunum og þegar kemur að þyngri hlutum þar, þegar kemur að skipunum og flugumferðinni og slíku, þá er það gríðarlega orkufrekt og við erum ekki byrjuð á því enn þá að leggja einhvers konar grunn að því að afla þeirrar orku sem til þarf þá. Þetta eru mjög afturþung orkuskipti, ef við getum orðað það þannig. Það er ekki gott að vera þá með ríkisstjórn við völd sem spannar litrófið frá ysta vinstri til ysta hægris vegna þess að við höfum séð það í þeim málaflokki ekki síst og auðvitað í mörgum öðrum líka að það getur verið erfitt að ná lendingu um þessi mál.

Sjálfur er ég þeirrar skoðunar að við þurfum alltaf að fara gríðarlega varlega þegar við erum að vega og meta orkukosti og við verðum að taka mjög mikið tillit til náttúruverndar og eigum ekki að gefa neinn afslátt þar þannig að við þurfum að vera skynsöm og klók í því hvernig við berum okkur að. En sú kyrrstaða sem verið hefur í framtíðaruppbyggingu og er núna að leiða til þess að það er orkuskortur í landinu sem síðan leiðir til þess að það er verið að brenna olíu í stórum stíl sem núllar út allan ávinninginn af þeim árangri sem hefur náðst í umferðinni í orkuskiptum, núllar út allan þann ávinning sem rafbílarnir hafa veitt okkur, þá getum við ekki setið lengur þegjandi undir því. Ég sé þetta í raun og veru ekki bara sem verkfæri inn í orkuskiptin, þó að það sé auðvitað gríðarlega mikilvægt út frá loftslagsmálum. Ég sé þetta líka sem algerlega óhjákvæmilegan fylgifisk þess að Íslendingum fjölgar og ef við ætlum að búa hér til einhverja framtíðaruppbyggingu, hafa hér góðan, hóflegan og svona þolanlegan hagvöxt sem keyrir okkur ekki í kaf, losnum við sveiflurnar en búum við svona jafnan og þéttan hagvöxt á næstu árum til að standa undir framtíðarvelferðinni, þá er orkuöflun eitt af því sem þarf að ráðast í. Ég verð að segja það alveg eins og er að ég get tekið undir allar þær áhyggjur sem menn hafa af því vegna þess að sporin geta hrætt okkur að einhverju leyti, að hér fari menn í einhverja stórkarlalega uppbyggingu og það verði komnar einhverjar risavirkjanir hér víða um land. Ég held að við þurfum ekki að gera þetta þannig. Ég held að tími hinna risastóru vatnsaflsvirkjana sé liðinn. Við hljótum frekar að reyna að einblína á það að nýta betur þá kosti sem við höfum. Við hljótum líka að reyna að vera skynsöm í því hvernig við nýtum vindinn sem orkugjafa og við hljótum líka að leggja mikla áherslu á það að laga hér flutningskerfin þannig að við séum ekki að tapa dýrmætri orku í lélegu flutningskerfi, eins og við erum að gera í dag.

Mig langar að undirstrika þetta: Það að við séum á þeim stað í dag, Íslendingar, að orkuöflunin hér dugir ekki fyrir því sem við erum að gera innan landamæranna og við erum farin að brenna olíu vegna þess að það þarf að skerða rafmagn til ákveðinna aðila sem eru með samninga um skerðanlega orku, vinnur beint gegn hagsmunum okkar og áformum okkar í loftslagsaðgerðum. Það er staða sem við getum ekki búið mikið lengur við.

Að öðru leyti vildi ég kannski fá að nefna hér að lokum að það er alveg með ólíkindum hvað við ætlum að reka ríkissjóð með miklum halla lengi. Það að reka ríkissjóð með þeim halla sem stefnir í núna er ekkert annað en ávísun á það að við erum lengur að glíma við verðbólguna. Á þetta hafa mjög margir verið að benda í umræðunni að undanförnu. Það er kannski sérstaklega blóðugt að vera að horfa á hallarekstur upp á tæpa 50 milljarða á sama tíma og íslenska ríkið er að borga ríflega 100 milljarða í vaxtagjöld, að á tveimur árum sé íslenska ríkið að borga meira en 200 milljarða í vaxtagjöld. Það eitt og sér finnst mér mikið áhyggjuefni fyrir okkur og ég ætla bara að leyfa mér að kalla það blóðpeninga vegna þess að við þurfum ekki að vera með þetta kerfi svona frekar en við viljum. Það er vel hægt að breyta þessu. Það er vel hægt að komast úr þessu ofurvaxtaumhverfi sem við erum föst í, þessu verðbólguumhverfi sem við erum föst í. Við þurfum bara að hafa kjark til að ráðast gegn þeim kerfisvanda sem ýkir hér upp allar sveiflur.

En síðan myndi ég kannski vilja segja að lokum að ég fagna því hvernig þessi umræða hefur farið fram. Það hefur verið mikið um góð skoðanaskipti hér í ræðustól þingsins. Þetta er umræða sem er gríðarlega mikilvæg á hverju ári og við erum í þeirri stöðu, þingmenn, að þurfa að gæta okkar á því að fara vel með peninga skattgreiðenda. Það er okkar frumskylda. Það er okkar frumskylda að reyna að styrkja kerfin okkar þannig að þau sinni þeirri velferð sem þau eiga að sinna en jafnframt að hugsa vel og einbeitt um það að peningar ríkisins eru peningar fólksins í landinu. Það er ekki sjálfsagt og sjálfgefið að hækka álögur á fólkið í landinu eða verja þeim peningum sem koma úr álögunum með slæmum hætti í ríkisfjármálunum. Þetta er vakt sem við þurfum að standa á hverjum einasta degi og núna styttist í það að við förum í atkvæðagreiðslu um fjárlögin og klárum þau fyrir jól ef allt gengur að óskum. Þá vonast ég til þess að þingheimur hafi þetta í huga þegar farið er í gegnum allar þær breytingartillögur og allt það sem er verið að leggja til í fjárlögunum. Við eigum öll að vera vinir skattgreiðenda og reyna að samþætta það því hlutverki að búa vel um kerfin okkar svo að þau geti staðið vörð um þá velferð sem við viljum búa við í íslensku samfélagi.