154. löggjafarþing — 46. fundur,  8. des. 2023.

fjárlög 2024.

1. mál
[13:06]
Horfa

Jóhann Páll Jóhannsson (Sf) (andsvar):

Virðulegur forseti. Ég held að það sem gæti skýrt þennan mismun sem hv. þingmaður er að tala um sé það að við teljum vaxtabæturnar til bænda með í ljósi þess að búskapur er alla jafna mjög samofinn heimilisbókhaldinu. Auk þess erum við að leggja til líka sérstaka ívilnun til uppbyggingar í almenna íbúðakerfinu sem kostar skildinginn en það er mjög erfitt að leggja mat á það hvað það mun nákvæmlega kosta, til þess þyrftum við að vita nákvæmlega hversu margar almennar íbúðir verða byggðar á næsta ári. En í grunninn lúta útgjaldatillögurnar okkar annars vegar að hærri vaxtabótum til heimila almennt í gegnum vaxtabótakerfið eins og við þekkjum það. Þetta eru hærri húsnæðisbætur til leigjenda, vaxtabætur til bænda og svo er það ívilnun til uppbyggingar á almennum íbúðum sem mig minnir að við höfum verðmetið á 500 millj. kr. þótt það sé mikil óvissa um það hvað þetta kostar. Raunar finnst mér líklegast að það muni kosta umtalsvert minna, en við höfðum það sem viðmið að vera mjög varkár í þessu mati öllu og frekar ofáætla útgjöld og vanáætla tekjur.