154. löggjafarþing — 46. fundur,  8. des. 2023.

fjárlög 2024.

1. mál
[13:08]
Horfa

Hanna Katrín Friðriksson (V) (andsvar):

Frú forseti. Ég þakka hv. þingmanni svörin. Það er ljóst að einhvers staðar liggur þetta. En ég hef bara fyrir mér það sem ég sé í kynningu á kjarapakka Samfylkingarinnar, þar stendur 6 milljarðar í húsnæðis- og vaxtabætur þannig að það hefur þá eitthvað skolast til þar í framsetningunni. En það er alveg ljóst að það þarf að fara í margháttaðar aðgerðir og það er enginn af þessum flokkum sem hv. þingmaður nefnir hér ofalinn af þeim tillögum sem hér eru lagðar til eða aðrir hafa lagt til sem því veldur. Það var fyrst og fremst þessi athugasemd mín varðandi ákveðna ónákvæmni í framsetningu af því að það er svo sem nóg lagt á heimilin þó að það sé ekki verið að vekja þeim vonir um hærri viðbótarframlög en raunverulega er hægt að standa undir. En þetta skýrir þá málið; einhver ónákvæmni í framsetningu.