154. löggjafarþing — 46. fundur,  8. des. 2023.

fjárlög 2024.

1. mál
[13:15]
Horfa

Jóhann Páll Jóhannsson (Sf) (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég vil þakka hv. þingmanni fyrir sína ræðu. Það hefur auðvitað verið um margt athyglisvert að fylgjast með umræðunni um afkomubata ríkissjóðs síðastliðna mánuði. Það er eitthvað sem ráðherra hefur hreykt sér mikið af þegar það liggur auðvitað fyrir að sá afkomubati byggir að miklu leyti á tekjufroðu vegna verðbólgunnar. Þegar ráðherra er að hreykja sér af þessum afkomubata má kannski segja í vissum skilningi að hann sé að monta sig af ofþöndu hagkerfi sem við ættum einmitt að vera að reyna að tempra.

Ég vil spyrja hv. þingmann, vegna þess að hann kallaði eftir auknu aðhaldi á útgjaldahlið: Hvar sér hv. þingmaður helst fyrir sér að hægt sé að ná fram slíku aðhaldi? Nú liggur auðvitað fyrir að stærstu útgjaldaliðirnir eru mjög viðkvæm þjónusta. Við erum að tala um heilbrigðiskerfið, við erum að tala um almannatryggingakerfið, við erum að tala um menntakerfið. Dæmin sanna nú bara að þegar ríkisstjórnir hafa ákveðið að fara þá leið að ná fram auknu aðhaldi fyrst og fremst á útgjaldahlið þá er mjög erfitt að gera það án þess að það komi niður á þessari þjónustu.

Ég vil því kannski spyrja hv. þingmann: Hvað sér hann helst fyrir sér þegar kemur að þessu aðhaldi á útgjaldahlið, hvar mætti helst spara? Hvað hann sér fyrir sér, t.d. varðandi heilbrigðismálin? Hvernig mætti nýta þar fjármuni betur?