154. löggjafarþing — 46. fundur,  8. des. 2023.

Miðstöð menntunar og skólaþjónustu.

238. mál
[15:21]
Horfa

Eyjólfur Ármannsson (Flf) (um atkvæðagreiðslu):

Virðulegur forseti. Við í Flokki fólksins styðjum þetta frumvarp. Þetta er mikilvægt frumvarp til stuðnings við sveitarfélögin og skóla í landinu. Ég er með breytingartillögu um að sett verði á fót vísindaráðgjafarnefnd á sviði menntamála til ráðgjafar fyrir hina nýju stofnun og ráðherrann. Það er mjög mikilvægt að við beitum nýjustu vísindaaðferðum og því sem er að gerast úti í heimi á hverjum tíma og rýnum þær rannsóknarskýrslur sem koma t.d. frá UNESCO og fleiri aðilum í menntamálunum.

Ég tel um mjög mikilvæga breytingu að ræða þar sem við vorum áður með ráðgjafarnefnd þar sem sæti áttu hagsmunaaðilar en hérna erum við að tala um fyrst og fremst fræðimenn. Við verðum að taka meiri beintengingu við fræðin og við það sem er að gerast úti í heimi.

Ég vonast til þess að sú breytingartillaga fái framgang. Við verðum að breyta um stefnu í menntamálum og það verður einungis gert hér. Það verður gert í skólastofunni með breytingum sem koma héðan, í gegnum lögin, í gegnum aðalnámskrá o.s.frv. Það eru við sem berum ábyrgð á ástandinu varðandi grunnhæfni í læsi, náttúruvísindum og stærðfræði. (Forseti hringir.) Það eru við sem berum ábyrgð á því og enginn annar í þingræðisríki.