154. löggjafarþing — 46. fundur,  8. des. 2023.

fjárlög 2024.

1. mál
[15:43]
Horfa

Oddný G. Harðardóttir (Sf) (um atkvæðagreiðslu):

Herra forseti. Stjórnvöld búa yfir stýritækjum sem geta mildað eða magnað ójöfnuðinn í skiptingu tekna og eigna í samfélaginu. Það er bara spurning um hvort beita eigi þeim stýritækjum og hvernig. Stefna ríkisstjórnar VG, Sjálfstæðisflokksins og Framsóknar er augljóslega að ekki eigi að beita þessum stýritækjum til að auka jöfnuð. Ef greiðslur almannatrygginga og atvinnuleysistrygginga hækka ekki og vaxtabætur, húsnæðisbætur, barnabætur og fæðingarorlofsgreiðslur hækka ekki í samræmi við laun og verðlag er ríkisstjórnin að taka ákvörðun um að auka ójöfnuð í landinu. Og það er einmitt það sem verið er að gera með þessu frumvarpi, taka pólitíska ákvörðun um að auka ójöfnuð í landinu og því mótmælum við jafnaðarmenn.