154. löggjafarþing — 46. fundur,  8. des. 2023.

fjárlög 2024.

1. mál
[15:44]
Horfa

utanríkisráðherra (Bjarni Benediktsson) (S) (um atkvæðagreiðslu):

Virðulegi forseti. Það er gott að geta komið hingað og tekið til máls óáreittur. [Hlátur í þingsal.] Ég ætla að byrja á því aðeins að tala um aðhaldið sem er ótvírætt, hefur verið í fyrra, í ár og verður áfram á næsta ári. Það er staðfest í opinberum tölum frá Seðlabankanum að við höfum verið að reka hér aðhaldssöm ríkisfjármál. Má ég minna á það að eftir að fjárlagafrumvarpið kom fram hækkaði lánshæfismat ríkisins. Við höfum sömuleiðis fengið vaxtaákvörðun sem vísar til þess, eftir framlagningu fjárlagafrumvarps, að ríkisfjármálin séu ekki að þvælast fyrir Seðlabankanum. Þetta skiptir máli og svo skiptir líka máli þegar við erum að ræða hérna um vaxtakostnað ríkissjóðs að tala um greiddu vextina, ekki líka reiknuðu stærðirnar eins og verðbæturnar og lífeyrisskuldbindingarnar sem koma ekki til greiðslu á næsta ári. Þegar við tökum greidda vexti og drögum frá vaxtatekjur ríkissjóðs þá erum við komin með vaxtajöfnuðinn. Hann er neikvæður um 22 milljarða, (Forseti hringir.) ekki 200 á næstu tveimur árum heldur 22 milljarða á næsta ári og kannski eitthvað álíka, vonandi minna, árið þar á eftir.