154. löggjafarþing — 46. fundur,  8. des. 2023.

fjárlög 2024.

1. mál
[16:05]
Horfa

Eyjólfur Ármannsson (Flf):

Virðulegi forseti. Hér er tillaga um hækkun bankaskatts, hann hækki um 31 milljarð kr. Ýmsum kann að þykja það mikið en á sama tíma ætti sami aðili að hugsa um það hversu mikið heimilin í landinu eru að greiða fyrir 9,25% stýrivexti í landinu og hátt vaxtastig í landinu. Það er ekki hægt að taka þetta úr samhengi, svo mikið er víst. Við búum við bankamarkað þar sem er algjört samkeppnisleysi og sjálftaka í hagnaði. Hagnaður bankanna í ár mun verða á bilinu 80–100 milljarða kr. Hér er um hvalrekaskatt að ræða og mun hlíta endurskoðun ef vextir fara niður fyrir 5%. Það er mjög mikilvægt að setja þetta í samhengi við heimilin í landinu. Það eru heimilin í landinu sem eru að greiða niður verðbólguna og öll þjóðin er að verða fátækari — nema hverjir? Jú, það eru bankarnir sem hagnast á verðbólgunni en þjóðin er að tapa. Það er kominn tími til þess að bankastarfsemi í landinu greiði sanngjarnt gjald í sameiginlega sjóði landsmanna svo við getum tekist sameiginlega á við verðbólguna og keyrt hana niður.