154. löggjafarþing — 46. fundur,  8. des. 2023.

fjárlög 2024.

1. mál
[17:12]
Horfa

Sigmar Guðmundsson (V):

Herra forseti. Eins og komið hefur hér fram hjá okkur við þessa atkvæðagreiðslu hingað til þá hefðum við viljað sjá þessi fjárlög allt öðruvísi. Við hefðum viljað forgangsraða. Eitt af því sem við hefðum viljað forgangsraða er að veikt fólk sem þjáist af sjúkdómi sem oft er banvænn eigi rétt á heilbrigðisþjónustu, það eigi rétt á því að heilbrigðiskerfið taki utan um það og það þurfi ekki að bíða á biðlista jafnvel mánuðum saman. Þetta er okkar allra veikasta fólk. Það er ítrekað búið að kalla eftir þessum fjármunum en ríkisstjórnin hefur daufheyrst við. Þetta er þannig að í stóra samhenginu eru þetta ekki háar upphæðir en þetta eru hins vegar upphæðir sem bjarga mannslífum og í þágu þess eigum við að forgangsraða. — Ég segi já.