154. löggjafarþing — 47. fundur,  11. des. 2023.

viðskiptaþvinganir og aðrar aðgerðir vegna ástandsins á Gaza.

[15:08]
Horfa

utanríkisráðherra (Bjarni Benediktsson) (S):

Virðulegi forseti. Fyrst aðeins um þvingunaraðgerðir sem spurt hefur verið um hér. Það er hægt að segja um þvingunaraðgerðir almennt að þær hafa langmest áhrif þegar samtakamáttur ríkja er nýttur og nú eru ekki umræður um það á alþjóðavettvangi að beita slíkum úrræðum. En við höfum ávallt fylgt bandalagsríkjum þegar slíkum úrræðum er beitt og við myndum gera það í þessu. En ég held að einhliða aðgerðir Íslendinga myndu nákvæmlega engum árangri skila heldur jafnvel þvert á móti myndu eyðileggja diplómatíska möguleika okkar til þess að koma okkar skilaboðum á framfæri. Það er meira en sjálfsagt að taka þátt í umræðu um þessi mál í þinginu. Og varðandi það sem er fram undan hjá Sameinuðu þjóðunum þá eru þetta lifandi samtöl og eins og reynslan sýnir geta hlutir breyst hratt þannig að það fer eftir því hvað gerist í dag og jafnvel á morgun nákvæmlega hvernig við sjáum fram á að ráðstafa okkar atkvæði eða skilaboðum.