154. löggjafarþing — 47. fundur,  11. des. 2023.

hækkun framlaga til baráttu gegn fíknisjúkdómum.

[15:10]
Horfa

Inga Sæland (Flf):

Herra forseti. Á Íslandi deyja um 100 einstaklingar á ári vegna fíknisjúkdómsins, hátt í 100 einstaklingar á ári. Þar af eru tugir sem deyja ótímabærum dauða og enn aðrir tugir sem deyja á meðan verið er að bíða á biðlista eftir hjálp. Ég velti fyrir mér núna þegar kemur í ljós að við erum að fara í þessar krónutöluhækkanir eða prósentuhækkanir eftir jólin, 1. janúar næstkomandi — sem Flokkur fólksins hefði reyndar aldrei samþykkt ef hann væri að stýra þessu landi, við hefðum aldrei samþykkt 3,5% hækkun á neinum gjöldum sem færu beint út í verðlagið og þensluna sem á sér stað núna þegar við erum að glíma við verðbólguna. En það kemur í ljós að við þessa hækkun munu áfengisgjöldin, áfengisskattarnir, hækka um 1,1 milljarð þannig að þá er íslenska ríkið að taka til sín um 26,3 milljarða kr. vegna áfengisgjaldsins. Ég velti fyrir mér, hæstv. fjármálaráðherra, hvort það hafi ekki komið til greina að taka þó það væri ekki nema þessa hækkun núna um áramótin og færa hana inn í baráttuna gegn fíknisjúkdómnum og gefa þeim einstaklingum og góðgerðarfélögum sem hafa verið að líkna og hjálpa þessu fólki færi á að gera það betur. Það hefur komið í ljós að meira að segja sjúkrahúsið Vogur er rekið undir afli og gæti gert mun meira, en fjármunina skortir. Ég velti því fyrir mér hvort hæstv. fjármálaráðherra geti séð fyrir sér að taka þó það væri ekki nema þennan ríflega milljarð sem á að hækka áfengisgjaldið um og færa það inn í baráttuna gegn fíknisjúkdómnum. Við erum ekki að nýta nema innan við 2 milljarða á ári af áfengisgjaldinu í baráttunni gegn þessum sjúkdómi.