154. löggjafarþing — 47. fundur,  11. des. 2023.

hækkun framlaga til baráttu gegn fíknisjúkdómum.

[15:14]
Horfa

Inga Sæland (Flf):

Herra forseti. Ég þakka hæstv. ráðherra fyrir ekkert svar, sem sýndi nákvæmlega hugarfarið, að rúlla vandanum yfir á íslenskan almenning, íslenskt samfélag. Það er jú stjórnvöld sem bera ábyrgð á því hvernig hlutirnir eru að þróast í fíknisjúkdómum í dag. Hæstv. ráðherra talar um að það séu ekki markaðar tekjur en ég veit ekki betur en að ég hafi talað um að hér væru að koma inn 26,3 milljarðar markaðir í áfengisgjald. Ég er að spyrja hæstv. ráðherra hvort hún geti séð það fyrir sér að nýta sitt afl til að nýta eitthvað af þeim fjármunum sem beint er verið að taka af brennivíni og þessum neysluvörum til að taka utan um og hjálpa fólki sem er í sárri neyð. Þetta er neyðarástand sem ríkir. Ég spyr þess vegna: Hver á fórnarkostnaðurinn að vera áður en ríkisstjórnin opnar augun? Hversu margir þurfa að deyja á biðlistum og ótímabærum dauða áður en ríkisstjórnin og ráðherrar axla ábyrgð og taka utan um vandann af einhverjum dug? Það er algjörlega ljóst að það eru þeir ekki að gera í dag heldur sigla steinsofandi í gegnum þetta, bæði heyrnarlausir og blindir.