154. löggjafarþing — 47. fundur,  11. des. 2023.

nýr meiri hluti til að takast á við verkefnin í samfélaginu.

[15:20]
Horfa

umhverfis-, orku- og loftslagsráðherra (Guðlaugur Þór Þórðarson) (S):

Virðulegi forseti. Það eru bara ákveðin tækifæri fyrir hv. þingmenn til að skiptast á skoðunum og ég veit ekki af hverju hv. þingmaður telur að ég sé umboðsmaður hv. þm. Jóns Gunnarssonar, þar er einhver misskilningur á ferðinni. En gjarnan vil ég ræða við hv. þingmann um orkumálin og hv. þingmaður hlýtur að gleðjast yfir því hvað er búið að gerast mikið á síðustu tveimur árum í tíð þessarar ríkisstjórnar í orkumálum. Ramminn hafði ekki verið samþykktur í níu ár en á að vera samþykktur á fjögurra ára fresti. Næsti áfangi er kominn núna í samráðsgátt og það hefur aldrei verið svona snemma. Væntanlega er mesta einföldunarfrumvarp í sögu þess sem hefur verið samþykkt hér frumvarpið um aflaukninguna sem þýðir að þú þarft ekki lengur að fara í gegnum rammann og allt það ferli þegar þú ert að stækka virkjanir. Það þýðir að 300 MW eru núna í pípunum þar. Við þekkjum auðvitað varmadælufrumvarpið sem var mikil einföldun varðandi orkusparnað og gerir það að verkum að við erum búin að skapa hér orku fyrir tugi þúsunda rafbíla. Við erum farin í jarðhitaleitarátak í fyrsta skipi í nokkra áratugi og það var að finnast heitt vatn á Drangsnesi í kjölfarið á því. Suðurnesjalínan, það er búið að leysa það, og Orkusjóður hefur verið efldur, svo eitthvað sé nefnt. Ég fagna því að hv. þingmaður — af því að það þarf að gera miklu meira og það er miklu meira í pípunum eins og hv. þingmaður þekkir. En hv. þingmaður er í Viðreisn og hv. þm. Jón Gunnarsson nefndi kannski eitt risamál sem er að það vantar heitt vatn í Reykjavík. Hver hefði trúað því? Og hver stýrir þar? Síðast þegar ég vissi var það Viðreisn. En staðan sem er komin upp núna í orkumálum, og ég fagna því að hv. þingmenn séu vakandi yfir því, (Forseti hringir.) er út af því að það hefur ekki verið gert mikið lengi, í 15–20 ár, m.a. í Reykjavík.