154. löggjafarþing — 47. fundur,  11. des. 2023.

sérlög um tiltekna virkjunarkosti.

[15:26]
Horfa

umhverfis-, orku- og loftslagsráðherra (Guðlaugur Þór Þórðarson) (S):

Virðulegi forseti. Frá því að ég kom í þetta embætti þá hefur mín áhersla verið alveg skýr. Ég hef gert allt sem ég hef getað bæði til að flýta aðgerðum, koma málum í gegn og sömuleiðis til að vekja athygli á stöðu mála vegna þess að okkur vantar græna orku. Við höfum gert mjög lítið í grænni raforku í 15 ár og þegar kemur að hitaveitunni í 20 ár. Menn tala hér um raforkuna. Það kom skýrsla hérna fyrir einu ári síðan þar sem lögð var áhersla á að tveir þriðju hlutar hitaveitna í landinu væru komnir í vanda og að við hefðum ekki leitað að jarðhita fyrr en við settum það af stað nú fyrir nokkrum mánuðum.

Aðalatriðið er að okkur vantar græna orku og við þurfum að ná því. Það er algerlega skýrt. Og af því að nú eru hv. þingmenn að vakna þegar þetta frumvarp kemur fram — það er langt síðan það kom, það kom síðasta vor, fyrsta frumvarpið um að skilgreina það, af því að það þarf að gera það hvort sem er, að slá skjaldborg um notendur, sem hafði ekki verið gert eftir 2003 því að með lögum um Landsvirkjun 2003 féll úr hendi sú skylda að það fyrirtæki myndi sjá almennum notendum, þ.e. almenningi og litlum og meðalstórum fyrirtækjum, fyrir orku. Þannig að það eitt og sér er mikilvægt. Hins vegar þurfti þetta mál að koma miklu hraðar hérna inn en menn vildu, sú vinna hefur ekki verið kláruð. Það eina góða við þá stöðu sem nú er er að menn hafa loksins vaknað. Ég mun vera með nákvæmlega sömu áherslur og ég hef verið með frá því að ég fór í þetta ráðuneyti, sem er að flýta því að við getum fengið græna orku af því að okkur vantar græna orku.