154. löggjafarþing — 47. fundur,  11. des. 2023.

sérlög um tiltekna virkjunarkosti.

[15:29]
Horfa

umhverfis-, orku- og loftslagsráðherra (Guðlaugur Þór Þórðarson) (S):

Virðulegi forseti. Bara til að setja hlutina í samhengi þá eru núna í nýtingarflokki um 1.200 MW. Það er mjög mikilvægt að orkufyrirtækin nýti sér það. Nýtingarflokkur heitir nýtingarflokkur af því að það á að nýta það sem er í flokknum. Ef hv. þingmanni finnst svarið ekki nógu skýrt þá er komið að skuldadögum hjá okkur núna út af 15 ára sofandahætti, 15–20 ára sofandahætti. Munu sérlög flýta fyrir því? Ég veit það ekki. Við skulum sjá hvaða viðbrögð verða við kynningu á því þegar við erum að einfalda leyfisveitingaferlið fyrir vindorkuna. (Gripið fram í.) Það kemur í vikunni og verður áhugavert að sjá hvernig hv. þingmaður tekur því. Í kjölfarið, og það er í rauninni unnið meðfram, verður sömuleiðis einföldun varðandi rammann. Hver er besta leiðin til þess að flýta þessu? Við skulum bara ræða það, það er bara sjálfsagt. En það er ólíklegt að ekki verði deilt um það og þá er ég líka að vísa til annarra landa því það getur enginn bent á eitthvert land þar sem þessir hlutir eru nákvæmlega eins og menn vilja hafa þá. (Forseti hringir.) Það eru deilur um þessi mál víðar en á Íslandi.