154. löggjafarþing — 47. fundur,  11. des. 2023.

aðgerðir Íslendinga og annarra þjóða vegna ástandsins fyrir botni Miðjarðarhafs.

[15:38]
Horfa

Steinunn Þóra Árnadóttir (Vg):

Virðulegi forseti. Við fylgjumst öll með skelfingunum fyrir botni Miðjarðarhafs í Palestínu og ég held að við séum öll að hugsa hvað við sem einstaklingar eða ríki eða þátttakendur á alþjóðasviðinu getum gert til þess að stöðva blóðsúthellingar á almennum borgurum. Það sem mig langar að spyrja hæstv. utanríkisráðherra út í er að nú fyrir helgi bárust þau jákvæðu tíðindi að Ísland og Norðurlöndin öll hafi í sameiningu lýst yfir stuðningi við ákvörðun aðalritara Sameinuðu þjóðanna um að virkja heimild samkvæmt stofnsáttmála og krefja öryggisráðið með formlegum hætti um viðbrögð til þess að stoppa hið skelfilega ástand, sem Bandaríkin beittu svo neitunarvaldi til þess að stöðva. Þetta er óneitanlega slæm staða sem komin er upp þegar ríki heims reyna í sameiningu að vinna að því að koma á vopnahléi. Ég veit að það eru fundir fram undan á vettvangi Sameinuðu þjóðanna og ég vil því spyrja hæstv. ráðherra hvernig Ísland og Norðurlöndin og í raun þjóðir heims geti beitt sér, því að það getur varla gengið að ein þjóð beiti neitunarvaldi í svona málum og hér gerist það í rauninni þvert ofan í þær aðgerðir og þann hátt sem Norðurlöndin öll hafa viljað beita sér.