154. löggjafarþing — 47. fundur,  11. des. 2023.

aðgerðir Íslendinga og annarra þjóða vegna ástandsins fyrir botni Miðjarðarhafs.

[15:41]
Horfa

utanríkisráðherra (Bjarni Benediktsson) (S):

Virðulegi forseti. Já, þetta er hárrétt hjá hv. þingmanni að þetta er gríðarlega snúin staða. Mér finnst mestu skipta að halda því til haga að við höfum verið mjög skýr alveg frá upphafi. Við höfum ítrekað kallað eftir tafarlausu vopnahléi af mannúðarástæðum. Við höfum sagt að það þyrfti að tryggja óheft aðgengi neyðaraðstoðar og við höfum farið fram á undantekningarlausa virðingu við alþjóðalög og við fordæmum öll brot á alþjóðalögum, rétt eins og við fordæmdum hrottalega hryðjuverkaárás Hamas þann 7. október.

Við höfum látið í okkur heyra á fundum Sameinuðu þjóðanna og annarra alþjóðastofnana í opinberum yfirlýsingum, samtölum við fulltrúa ísraelska stjórnvalda og í ályktun Alþingis 9. nóvember kom skýrt ákall frá þinginu. Sendiherra Ísraels var upplýstur um inntak ályktunar Alþingis samdægurs og ég hef enn fremur átt símtal við ísraelskan kollega minn, utanríkisráðherrann, og sagt honum af áhyggjum okkar af ástandinu og þessari ályktun þingsins. Ég hef sömuleiðis óskað eftir samtali við utanríkisráðherra Palestínuheimastjórnarinnar, hún er auðvitað upplýst um ályktun Alþingis, en það hefur gengið treglega hjá okkur að ná saman.

Eins og hér kom fram þá sendi Ísland ásamt hinum Norðurlöndunum bréf til stuðnings ákalli aðalframkvæmdastjórans til öryggisráðsins fyrir helgi og þar er krafist tafarlausra aðgerða og vopnahlés af mannúðarástæðum. Í framhaldi af þessu, í samræmi við ályktun Alþingis, var Ísland áfram meðal annarra ríkja. Það var 101 ríki, þar á meðal Noregur, Finnland, Nýja-Sjáland og ýmis ESB-ríki sem fluttu saman ályktun sem lögð var fyrir öryggisráðið í síðustu viku en náði ekki fram að ganga. Áfram mun þessi umræða halda hjá Sameinuðu þjóðunum.

Það er bara erfitt að svara því hvernig eigi að bregðast við þegar neitunarvaldi er beitt í öryggisráðinu. Það er kannski ekki annað hægt að segja en bara það að samtalið verður að halda áfram og ríki verða að koma saman til að stöðva þessar hörmungar og vinna að þeirri langtímalausn sem við höfum lengi talað fyrir, tveggja ríkja lausn.