154. löggjafarþing — 47. fundur,  11. des. 2023.

stuðningur við mál um græna orkuframleiðslu.

[15:50]
Horfa

Þorgerður Katrín Gunnarsdóttir (V):

Virðulegi forseti. Nei, þetta er einmitt til þess gert að liðka fyrir stjórn hér í þinginu, fyrir fundarstjórninni. Við fundum það svo áþreifanlega áðan að hæstv. ráðherra er kominn í ákveðið öngstræti með þau mál sem við ræddum hér um orkumálin. Ég vil undirstrika það að Viðreisn er tilbúin til að gera það sem þarf til að koma okkur áfram, koma okkur úr því neyðarástandi sem m.a. þungavigtarmaður í Sjálfstæðisflokknum, Jón Gunnarsson, benti svo rækilega á. Það sem hann segir augljóslega er að það eru alvarlegir brestir í ríkisstjórninni og það er stöðnun í kerfinu og hann treystir ekki ríkisstjórninni til að leysa þessi verkefni. Ég held að það sé einfaldlega þannig að ráðherra og ríkisstjórn þurfi þá að leita eftir meiri hluta hér í þinginu til að halda áfram og við í Viðreisn erum reiðubúin í það samtal, við erum reiðubúin í þá liðveislu.