154. löggjafarþing — 47. fundur,  11. des. 2023.

stuðningur við mál um græna orkuframleiðslu.

[15:51]
Horfa

umhverfis-, orku- og loftslagsráðherra (Guðlaugur Þór Þórðarson) (S):

Virðulegi forseti. Það er mikilvægt að ræða fundarstjórn forseta og af því að það hefur komið fram í umræðu um fundarstjórn forseta þá vil ég bara gleðjast yfir þeim ummælum sem hér hafa fallið. Ég hvet Viðreisn til dáða þegar kemur að því að nýta það sem er í nýtingarflokki með öðru stærsta orkufyrirtæki landsins. En svo vil ég líka vekja athygli þings og þjóðar á þessari sögulegu yfirlýsingu sem kom frá þingflokki Miðflokksins því að 50% af þingflokki Miðflokksins var eitt sinn forsætisráðherra og þá settu menn gríðarlega metnaðarfull markmið í loftslagsmálum en gerðu ekkert í því að framleiða græna orku, ekki neitt. Þessi mikla stefnubreyting sem ég fagna og þakka stuðninginn, og ég mun alveg draga á hann, er svo ánægjuleg að ég er bara í sjöunda himni og gott að þetta sé allur þingflokkurinn, ég treysti því að allur þingflokkurinn sé með í þessu, því að það vantaði svolítið að það væri eitthvað gert. Reyndar var bara ekkert gert í grænum orkumálum þegar 50% af þingflokki Miðflokksins hafði öll tök á að gera það.