154. löggjafarþing — 47. fundur,  11. des. 2023.

stuðningur við mál um græna orkuframleiðslu.

[16:00]
Horfa

Kristrún Frostadóttir (Sf):

Virðulegi forseti. Ég ætla nú bara að koma hérna upp í fundarstjórn og bera af okkur í Samfylkingunni þær sakir að við séum að gera lítið úr ástandinu í landinu. Það er alls ekki svo. Það sem hv. þm. Þórunn Sveinbjarnardóttir var einfaldlega að benda á var að það væri ótrúlegt í þeirri stöðu sem upp er komin að fólk taki ekki ábyrgð á ástandinu innan ríkisstjórnarinnar í staðinn fyrir að blaðra um það í fjölmiðlum hversu ómögulegt ástandið er. Það er það sem er verið að benda á í þessum þingsal. Þessi staða sem uppi er í orkumálum í dag er á borði ríkisstjórnarinnar þó að þingið muni að lokum þurfa að koma að því, líklega fyrir áramót, þar sem takmarkaðir hlutir hafa verið gerðir hvað þetta varðar. Samfylkingin tekur þessu bara mjög alvarlega, svo það liggi fyrir.