154. löggjafarþing — 47. fundur,  11. des. 2023.

stuðningur við mál um græna orkuframleiðslu.

[16:03]
Horfa

Bergþór Ólason (M):

Virðulegur forseti. Ég vil bara fagna því með hvaða hætti hæstv. orkumálaráðherra tók þessum stuðningsyfirlýsingum frá Miðflokki og Viðreisn í sínu máli hér. Það skiptir auðvitað máli að menn taki á móti stuðningnum þegar hann berst með þessum hætti. En ég vil sömuleiðis biðja hæstv. forseta að styðja við bakið á hæstv. orkumálaráðherra því að hann virðist í einhverjum vandræðum með að ná jafnvægi gagnvart því að núverandi formaður Miðflokksins hafi farið til Frakklands í nokkra daga árið 2015 og telji sig því í miklum vandræðum í framhaldinu að gera það sem gera þarf í tengslum við orkumál og framleiðslu nýrrar grænnar orku. En ég ítreka yfirlýsingu mína hér áðan um stuðning Miðflokksins við allar þær aðgerðir, öll þau frumvörp sem kunna að koma fram hjá ríkisstjórninni sem geta orðið að gagni til þess að hér verði framleidd meiri græn orka og við losnum út úr því ástandi að vera að setja neyðarlög til að hægt sé að hafa ljós á í stofum heimila landið um kring.