154. löggjafarþing — 47. fundur,  11. des. 2023.

stuðningur við mál um græna orkuframleiðslu.

[16:04]
Horfa

Orri Páll Jóhannsson (Vg):

Virðulegi forseti. Hv. þm. Sigmari Guðmundssyni tókst það sem hann ætlaði sér, að svæla mig hér upp í of lágt ræðupúltið sem er víst ekki svo vegna orkuskorts. Ég tek bara undir fram komnar hugmyndir um það sem hér hefur verið fleygt fram í þessari umræðu, sem við getum vonandi farið að ljúka því að þetta er komið langt út fyrir umræðu um fundarstjórn forseta, og að við ræðum orkumálin sérstaklega. Ekki drögum við af okkur í þeirri umræðu, við í Vinstrihreyfingunni – grænu framboði, til þess að lýsa okkar sýn og okkar skoðun þar. Ég hlakka til að eiga þessa umræðu, eins og ég átti reyndar í síðustu viku við hv. þm. Sigmar Guðmundsson, og það verður bara gaman hjá okkur þegar við tökum umræðu um þetta þegar forseti finnur tíma fyrir það í dagskránni.