154. löggjafarþing — 47. fundur,  11. des. 2023.

skipulagslög.

183. mál
[16:26]
Horfa

Frsm. 1. minni hluta um.- og samgn. (Andrés Ingi Jónsson) (P):

Frú forseti. Ég geri hér grein fyrir nefndaráliti 1. minni hluta samgöngunefndar sem að þessu sinni inniber einungis þann sem hér stendur.

Það neyðarástand sem ríkir á húsnæðismarkaði kemur sérstaklega illa við tekju- og eignaminni hluta samfélagsins. Það er því mikið réttlætismál að rétta af þá markaðsskekkju sem hefur ríkt um allt of langan tíma. Stöðuna má að miklu leyti rekja til þess að framboðshliðin hefur verið mikið vanrækt og þegar svo bætast við hagstjórnarmistök ríkisstjórnarinnar, sem styrkti eftirspurnarhliðina rækilega á Covid-tímum, þá er orðið mjög aðkallandi að grípa til róttækra aðgerða. Sú heimild sem hér er lagt til að lögfesta er skref í þá átt að gera sveitarfélögum kleift að stýra þróun húsnæðisuppbyggingar, t.d. á þéttingarreitum, þannig að framboð á hagkvæmum íbúðum geti aukist verulega. Sum sveitarfélög hafa þegar tekist þetta á hendur en hafa kvartað undan samskiptum við verktaka. Það getur verið betra að hafa skýra lagaheimild til þess. 1. minni hluti telur brýnt að lögfesta slík markmið enda sýnir reynslan hversu mikilvægt það getur verið fyrir sveitarfélög að hafa fast land undir fótum þegar setja á uppbyggingaraðilum skilyrði af þessu tagi. 1. minni hluti tekur hins vegar undir með þeim umsagnaraðilum sem telja nauðsynlegt að ganga lengra og gerir breytingartillögu þess efnis, sem verður gert grein fyrir hér á eftir.

Með frumvarpinu er lagt til að sveitarfélög fái heimild til að gera kröfu um að við gerð deiliskipulags fyrir ný íbúðasvæði verði allt að fjórðungur af heildarfermetrafjölda íbúða innan skipulagssvæðis fyrir hagkvæmt húsnæði, þ.e. almennar íbúðir, félagslegar íbúðir og aðrar leiguíbúðir, hvort sem eigandi lands er sveitarfélag, ríki eða einkaaðili. Markmiðið er sem sagt að aðstoða sveitarfélög og hvetja þau til að skipuleggja íbúðabyggð þannig að gert sé ráð fyrir fjölbreyttari byggð innan svæðis. Við umfjöllun nefndarinnar komu fram ábendingar um að til þess þyrfti enn skýrari ákvæði en lagt er til í frumvarpinu.

Í fyrsta lagi var bent á orðalagið „allt að 25%“, að uppbyggingaraðilar gætu litið á það sem nokkurs konar hámark í viðræðum og þannig torveldað sveitarfélögum að semja um hærri hlutfallstölu. Aðstæður á uppbyggingarreitum eru ólíkar og líta verður svo á að í skipulagsvaldi sveitarfélaga felist að meta hverju sinni hvort þörf sé á enn hærra hlutfalli hagkvæms húsnæðis, t.d. á svæðum þar sem mikill skortur er á því og þeim mun meiri þörf á að tryggja félagslega blöndun. 1. minni hluti hefði talið eðlilegt fyrir meiri hlutann að skoða af meiri alvöru möguleikann á að hækka hlutfallstöluna til að styðja með skýrari hætti þau sveitarfélög sem vilja sýna meiri metnað í uppbyggingu hagkvæms húsnæðis, að sníða þeim ekki þetta þröngan stakk.

Í öðru lagi kom fram gagnrýni á að einungis væri um að ræða heimildarákvæði sem sveitarfélögum væri í sjálfsvald sett hvort beitt yrði. 1. minni hluti tekur undir þessi sjónarmið, þótt vissulega þurfi löggjafinn að stíga varlega til jarðar þegar settar eru stífar kvaðir á skipulagsvald sveitarfélaga, en vel hefði mátt kveða fastar að orði um skyldu sveitarfélaga til að standa að metnaðarfullri uppbyggingu hagkvæms húsnæðis innan þess ramma. Þannig myndi ákvæðið ekki einungis nýtast þeim sveitarfélögum sem þegar hafa metnað til slíkrar uppbyggingar heldur myndi það með skýrari hætti hvetja öll sveitarfélög til að skoða uppbyggingu hagkvæms húsnæðis af fullri alvöru. Í ljósi þess að sú uppbygging er mikilvægur þáttur í því að byggja upp heilbrigðan húsnæðismarkað til frambúðar, sem er gríðarlegt hagsmunamál almennings, þá vekur furðu að meiri hlutinn vilji ekki skoða breytingar á orðalagi.

Í þriðja lagi var bent á að töluleg markmið frumvarpsins væru ekki í samræmi við rammasamning á milli ríkis og sveitarfélaga um að auka framboð íbúða á árunum 2023–2032 þar sem hvort tveggja er miðað við hærri hlutfallstölu og viðmiðin eru gerð að skyldu. Þar fléttast sem sagt saman báðir fyrrgreindir þættir. Með þessum samningi sammæltust sveitarfélög og ríki um stefnu og markvissar aðgerðir til að tryggja uppbyggingu íbúða í samræmi við þörf ólíkra hópa, þar á meðal þeirra tekju- og eignaminni. Sérstök áhersla var lögð á framboð íbúða á viðráðanlegu verði og að hlutfall þeirra skyldi vera að jafnaði um 30% nýrra íbúða til að koma til móts við tekju- og eignaminni hópa og tryggja þeim möguleika á þaki yfir höfuðið. Jafnframt voru aðilar samningsins sammála um að félagsleg húsnæðisúrræði yrðu að jafnaði sem næst 5% af öllu nýju húsnæði á samningstímanum. 1. minni hluti telur skjóta skökku við að frumvarpið sé ekki í samræmi við þetta sameiginlega markmið ríkis og sveitarfélaga um uppbyggingu á hagkvæmu húsnæði og félagslegum húsnæðisúrræðum. Frumvarpið leggur einungis til að allt að 25% af byggingarmagni, samkvæmt nýju deiliskipulagi, fyrir tilgreint svæði skuli vera fyrir almennar íbúðir, félagslegar íbúðir eða aðrar leiguíbúðir.

Þá er vert að nefna, líkt og ÖBÍ réttindasamtök bentu á í umsögn sinni, að orðalagið „allt að 25% íbúða“ er of óljóst og veitir sveitarfélögum of mikið svigrúm til að koma sér undan því mikilvæga markmiði frumvarpsins að fjölga almennum íbúðum, félagslegum íbúðum og öðrum leiguíbúðum. Eins og áður segir er staðan á húsnæðismarkaði grafalvarleg, einkum fyrir tekju- og eignaminni hópa, og metnaður sveitarfélaga er einfaldlega mismikill. Hér þarf að hvetja þau til dáða.

Í umsögn Þroskahjálpar er sérstök athygli vakin á því að fatlað fólk eigi til jafns við aðra rétt á að velja sér búsetustað og hvar og með hverjum það býr og að óheimilt sé að binda þjónustu við fatlað fólk því skilyrði að það búi í tilteknu búsetuformi. Hér er gríðarmikið verk að vinna, svo að við tökum bara einn hóp út fyrir sviga sérstaklega, þar sem tæplega 500 fatlaðir einstaklingar eru annaðhvort á biðlista eftir húsnæði eða búa í herbergi á sambýlum þrátt fyrir skyldur stjórnvalda til að gefa þeim kost á að búa á eigin heimili. Þetta er ólíðandi ástand og stytting þessara biðlista ætti að vera í forgangi hjá stjórnvöldum. Því er nauðsynlegt að ríki og öll sveitarfélög gangi samstiga til verka og marki sér skýr viðmið um sjálfbæra uppbyggingu íbúðarhúsnæðis sem fyrst. Þau viðmið er að finna í fyrrgreindum rammasamningi ríkis og sveitarfélaga sem mikilvægt er að endurspegla með skýrri lagaheimild, á gildistíma samningsins hið minnsta.

Fyrsti minni hluti leggur því til breytingu þess efnis að við frumvarpið bætist bráðabirgðaákvæði sem endurspegli töluleg markmið rammasamnings ríkis og sveitarfélaga um uppbyggingu á hagkvæmum íbúðum og félagslegum húsnæðisúrræðum til loka árs 2032.