154. löggjafarþing — 47. fundur,  11. des. 2023.

framlenging gildistíma bráðabirgðaákvæða um rafræna meðferð mála.

544. mál
[16:41]
Horfa

Frsm. allsh.- og menntmn. (Birgir Þórarinsson) (S):

Frú forseti. Ég mæli hér fyrir hönd allsherjar- og menntamálanefndar fyrir nefndaráliti um frumvarp til laga um breytingu á ýmsum lögum til að framlengja gildistíma bráðabirgðaákvæða um rafræna meðferð mála. Nefndin hefur fjallað um málið og fengið á sinn fund gesti frá dómsmálaráðuneytinu.

Með frumvarpinu er lagt til að bráðabirgðaheimildir stjórnvalda og dómstóla til að beita rafrænum lausnum við meðferð mála og notkun fjarfundarbúnaðar verði framlengdar. Nefndin framlengdi síðast gildistíma heimildanna með lögum nr. 136/2021. Í áliti allsherjar- og menntamálanefndar á þeim tíma lagði nefndin áherslu á mikilvægi nauðsynlegra lagabreytinga til að innleiða varanlegar heimildir fyrir dómstóla og stjórnvöld til að nýta rafrænar lausnir til að bæta þjónustu. Lagði nefndin til að heimildirnar yrðu framlengdar til ársloka 2023 en sá tími yrði nýttur til að ljúka vinnu við endurskoðun laga um varanlegar heimildir.

Í greinargerð frumvarpsins kemur fram að vinnan sé langt á veg komin hvað varðar varanlegar heimildir til að beita rafrænum lausnum við meðferð mála og notkun fjarfundarbúnaðar. Í því ljósi leggur nefndin til að framlengja bráðabirgðaheimildirnar.

Að framangreindu virtu, frú forseti, leggur nefndin til að frumvarpið verði samþykkt óbreytt.

Undir nefndarálit þetta rita auk þess sem hér stendur hv. þingmenn Bryndís Haraldsdóttir, Eyjólfur Ármannsson, Dagbjört Hákonardóttir, Jódís Skúladóttir, Líneik Anna Sævarsdóttir og Greta Ósk Óskarsdóttur.