154. löggjafarþing — 48. fundur,  12. des. 2023.

Störf þingsins.

[13:40]
Horfa

Inga Sæland (Flf):

Frú forseti. Fyrstu níu mánuði ársins voru hreinar vaxtatekjur bankanna um 113 milljarða kr. Svo er öskrað og grenjað þegar Flokkur fólksins vill sækja fé í þessa græðgismaskínu með því að koma bankaskattinum í 0,838%. Enn og aftur erum við fórnarlömb valdníðslu og okurs, enn og aftur fara fram stórkostlegir fjármagnsflutningar frá almenningi til auðmanna og okrara sem stendur nákvæmlega á sama um allt nema botninn á sér sjálfum. Græða og græða meira er eina hugtakið sem þeir þekkja og hafa tileinkað sér. Þetta er ógeðsleg ríkisstjórn sem gerir ekkert til að vernda okkur gegn þessum hryllingi. Löggjafarvaldið er á Alþingi og það er þar sem taka skal á þessum óþverra öllum saman. Það er þar sem setja ber lög til verndar heimilunum, það er þar sem lög eru sett til að verjast því að græðgismaskínur fjármálafyrirtækjanna fleygi hækkun bankaskattsins til baka og beint í andlitið á okkur aftur. Það er algjört bull og algjör fyrirsláttur að ætla að halda því fram að þetta lið geti gert nákvæmlega það sem því sýnist. Það er algerlega undir þessari ríkisstjórn komið. Bankarnir eru meira en aflögufærir, svo mikið vitum við. Og eitt skulum við hafa algerlega á hreinu, að þetta er mannanna verk. Svo stöndum við hér, skipti eftir skipti, ár eftir ár, og biðjum um réttláta ölmusu í orðsins fyllstu merkingu fyrir fátækasta fólkið í landinu. Nú förum við að biðja eina ferðina enn um það að koma til móts við fátækustu eldri borgara landsins og veita þeim 66.000 kr. eingreiðslu í jólabónus núna fyrir jólin. Það verður athyglisvert að sjá hvernig varnarmúrinn er reistur um peningakerfið okkar þá, hvernig fjármunir okkar passa ekki til þess að styðja við langfátækasta eldra fólkið okkar núna fyrir jólin.