154. löggjafarþing — 48. fundur,  12. des. 2023.

Störf þingsins.

[13:42]
Horfa

Þorbjörg Sigríður Gunnlaugsdóttir (V):

Frú forseti. Niðurstöður PISA-könnunarinnar eru sláandi. Þær eru svo alvarlegar að þær ættu að halda fyrir okkur vöku. Ísland stendur sig verst á Norðurlöndunum. Ekkert ríki innan OECD lækkar jafn mikið milli kannana og Ísland. Hér mega viðbrögðin ekki vera eins og svo oft gerist; flóðbylgja frétta og tilfinninga í nokkra daga og svo gerist ekkert. Alþingi þarf að taka sér pláss í þessu máli, ræða þessar niðurstöður og skólamál almennt séð meira. Það þarf að ræða þá staðreynd að rúmlega 40% nemenda geta ekki lesið sér til gagns eftir að hafa lokið grunnskólanámi á Íslandi, 40% nemenda. Við þurfum að horfa á hvað er að gerast í skólunum sem getur skýrt þessa stöðu, hvaða umgjörð stjórnmálin hafa skapað skólanum. Og stjórnmálin geta ekki bara litið undan. Þetta er pólitískt samtal og það þarf pólitískt samtal um hvað við viljum fá út úr náminu fyrir börnin okkar. Við eigum að ræða stefnu í skólamálum og hvaða árangur við viljum ná fram fyrir börnin okkar.

Jón Pétur Zimsen, aðstoðarskólastjóri Réttarholtsskóla, vill benda á að strax í sex ára bekk eigi svo gott sem öll börn að geta verið læs. Það eigi að mæla jafnt og þétt hvar börnin eru stödd þannig að hægt sé að styðja þau og bregðast við þannig að enginn verði út undan. Í dag eru 40% barna út undan og hefur Jón Pétur sett stöðuna í samhengi við þau tækifæri og þau lífsgæði sem verið er að hafa af börnunum í íslenskum skólum með þessum árangri. Grunnskólarnir eiga að fá niðurstöðurnar í PISA ef okkur er alvara með að bregðast við. Það er algjört fyrsta skref. Eistland, sem vegnar best í Evrópu, veitir skólum þessi gögn. Skólarnir eiga rétt á að fá niðurstöðurnar sem þeir hafa lagt vinnu í að taka. Annað er einfaldlega galið.