154. löggjafarþing — 48. fundur,  12. des. 2023.

póstþjónusta.

181. mál
[14:16]
Horfa

Andrés Ingi Jónsson (P) (um atkvæðagreiðslu):

Forseti. Ég vil rétt kveðja mér hljóðs hér til að lýsa ánægju með þá ákvörðun meiri hluta nefndarinnar að fella brott 2. gr. frumvarpsins sem snýst um heimild Íslandspósts til að setja upp bréfakassasamstæður í þéttbýli víðs vegar um landið, en á sama tíma hvetja ráðherrana til að láta svona handvömm ekki eiga sér stað aftur. Þetta mál var lagt fram fyrst fyrir einu ári síðan og þá kom í ljós að ekkert samráð hafði verið haft við ÖBÍ réttindasamtök. Þessu var mótmælt. Svo fór það í tætarann síðasta vor, leit síðan aftur dagsins ljós núna í haust óbreytt. Enn hafði ekkert samráð verið haft við ÖBÍ réttindasamtök. Enn hafði ekkert verið rætt við hagsmunasamtök fatlaðs fólks um breytingu sem hafði bein áhrif á stöðu þess. Svona á ekki að vinna málin og ég vona að hæstv. ráðherra og helst allir ráðherrar ríkisstjórnarinnar láti sér þetta að kenningu verða.