154. löggjafarþing — 48. fundur,  12. des. 2023.

breyting á ýmsum lögum vegna fjárlaga 2024.

2. mál
[15:00]
Horfa

Björn Leví Gunnarsson (P) (andsvar):

Forseti. Af því að hv. þingmaður kom inn á kirkjujarðasamkomulagið, tengist í rauninni hvort tveggja, þá erum við, eins og við höfum rætt undanfarið, ekki lengur með lög um markaðar tekjur og upprunalega var þetta hugsað einmitt sem hlutdeild af tekjuskatti eða útsvari sem innheimta fyrir trúar- og lífsskoðunarfélög, eða í rauninni bara þjóðkirkjuna þegar allt kemur til alls, til þess að greiða laun. Nú er búið að slaufa því og er ekki lengur til, markaðar tekjur eru ekki lengur til en tekjuskattshlutfallið eða útsvarshlutfallið er enn þá inni í þessu og það er reiknað niður á einhverja krónutölu. Og af því að það er gert, af því að þetta fer í gegnum ríkissjóð, þá verða allt í einu til í rauninni ákveðnar kröfur á það fjármagn. Það fylgja kvaðir því að fá opinbert fjármagn. Hvernig sem því líður þá þarf að uppfylla ákveðin skilyrði þegar viðkomandi tekur við opinberu fé af því að það er almannafé, hvernig sem hægt er svo að snúa út úr því á alla vegu. En það er kjarninn í því sem við erum að fást við núna, taka skatta af fólki og nota þá til að greiða í einhver önnur verkefni og þar verður að vera ákveðið gagnsæi og, eins og í lögum um opinber fjármál, skilyrði um ákveðnar uppfylltar kvaðir eða rekstur eða þjónustu eða eitthvað svoleiðis, sem verður að vera skýrt kveðið á um. Það er kveðið á um að það megi ekki vera lengri en fimm ára samningar t.d., þjónustusamningar. En kirkjujarðasamkomulagið er með óendanlegan tíma. Viðbótarkirkjujarðasamkomulagið er með 15 ára tíma, en undirliggjandi samkomulag er með óendanlegan tíma sem er einfaldlega ólöglegt. Það er mjög áhugavert að við séum enn þá að glíma við þetta þrátt fyrir að forsendurnar sem eru þarna á bak við séu orðnar ólöglegar með lögum um opinber fjármál.