154. löggjafarþing — 48. fundur,  12. des. 2023.

breyting á ýmsum lögum vegna fjárlaga 2024.

2. mál
[15:27]
Horfa

Frsm. 1. minni hluta efh.- og viðskn. (Logi Einarsson) (Sf) (andsvar):

Frú forseti. Það er rétt að Ísland er meðal þeirra landa þar sem jöfnuður mælist mikill. En það fer auðvitað, eins og hv. þingmaður sagði, aðeins eftir því hvað þú notar til grundvallar. Gini-stuðullinn mælir t.d. bara tekjujöfnuð. Það eru stórir hlutar samfélagsins hérna sem hafa afkomu sína fyrst og fremst af fjármagnstekjum. Þar er miklu meiri ójöfnuður.

Það er rétt hjá hv. þingmanni að hér er ekki allt á vonarvöl en í ljósi þess að allar rannsóknir sýna að mikill jöfnuður í samfélagi er líklegri til að skila kraftmeira, friðsamara og betra samfélagi þá ættu stjórnvöld að huga aðeins að því að þróa þetta enn frekar í réttari átt.

Nú stöndum við frammi fyrir gríðarlega flóknum efnahagslegum aðstæðum þar sem ríkisstjórnin hefur meira eða minna útvistað verkefninu til Seðlabankans sem talar um þetta fjárlagafrumvarp sem í besta falli hlutlaust. Hvaða afleiðingar hefur það? Jú, Seðlabankinn hefur þetta tæki, að hækka vexti. Gallinn við það tæki er að það leggst jafnt á alla hópa og þess vegna hlutfallslega langverst á láglaunafólk og þá sem eru skuldsettir. Þess vegna ætti ríkisstjórnin að beita aðhaldi, bæði á útgjaldahlið en ekki síst tekjuhlið, og styrkja tilfærslukerfin sem eru langskilvirkasta leiðin til að koma aðstoðinni nauðsynlega þangað sem hennar er þörf. Ég tek eftir því að það gerir ríkisstjórnin t.d. í tilfelli ungra bænda, sem eru í miklum erfiðleikum. Þar beita þau einmitt vaxtabótakerfinu til að koma aurunum þangað sem þörf er á þeim. Það sama ætti ríkisstjórnin að gera varðandi húsnæðisbætur, barnabætur og vaxtabætur.