154. löggjafarþing — 48. fundur,  12. des. 2023.

breyting á ýmsum lögum vegna fjárlaga 2024.

2. mál
[15:51]
Horfa

Steinunn Þóra Árnadóttir (Vg) (andsvar):

Frú forseti. Ég vil þakka hv. þingmanni fyrir ræðuna sem ég get tekið undir sumt í, til að mynda er ég sammála því að það skiptir máli að verið er að gera breytingu sem miðar að því að sveitarfélögin geti hækkað útsvarið hjá sér til að koma betur til móts við málaflokk fatlaðs fólks eins og hefur lengi verið rætt. En mig langaði að koma upp í andsvar fyrst til þess að mótmæla því, sem mér fannst vera dregnar hér mjög breiðar línur um, að ekkert hafi verið gert fyrir heimili í neyð í þessu landi. Hér fannst mér hv. þingmaður tala ansi þröngt. Það er nefnilega þannig að ýmislegt hefur verið gert, sér í lagi fyrir tekjulágt fólk, leigjendur og ungt fólk til þess að bæta stöðu þeirra hópa sem búa nú þegar við hvað minnst húsnæðisöryggi. Þessu finnst mér mikilvægt að halda til haga. En svo langar mig að spyrja hv. þingmann því að hún leggur til að alveg verði fallið frá krónutöluhækkunum, en ég tel þær mjög hógværar, einungis 3,5%, þær fylgi ekki verðbólgunni: Hvernig sér hv. þingmaður fyrir sér að jafnvægi verði náð síðar í framtíðinni ef engar krónutöluhækkanir (Forseti hringir.) eru gerðar núna eða telur hún það ekki skipta máli að þær fylgi verðlagi?