154. löggjafarþing — 48. fundur,  12. des. 2023.

breyting á ýmsum lögum vegna fjárlaga 2024.

2. mál
[15:55]
Horfa

Steinunn Þóra Árnadóttir (Vg) (andsvar):

Frú forseti. Sem betur fer hafa lífskjör almennt verið að batna mjög hér í landinu og líkt og ég kom inn á í mínu fyrra andsvari þá hefur verið margvíslegur stuðningur til þess að bæta stöðu fólks á húsnæðismarkaði. Þá nefndi ég ekki að það hefur m.a. verið áhersla lögð á það að efla framboð á húsnæði með því að auka stofnframlög til almenna íbúðakerfisins og fjölga leiguíbúðum sem eru á viðráðanlegum kjörum fyrir tekjulægri heimilin. Mér finnst mjög eðlilegt að fjármunum ríkisins sé forgangsraðað til þeirra sem eru tekjulægri vegna þess að það er hópurinn sem er í hvað erfiðastri stöðu.

Varðandi krónutölugjöldin, gott og vel, það er allt í lagi að segja að við tökumst á við þetta síðar og það er auðvitað það sem ríkisstjórnin er að hluta til að gera með því að leggja til mjög hóflegar hækkanir á þeim. Það skiptir máli til þess að ná tökum á verðbólgunni. Ég held jafnframt að það skipti máli að hugsa í dag hvernig við ætlum að fjármagna ríkissjóð til framtíðar vegna þess að til þess að tryggja lífskjör í landinu til framtíðar þá megum við ekki aðeins hugsa um daginn í dag. Við eigum að taka mið af honum en einnig þannig að við getum stuðlað áfram að góðu samfélagi til framtíðar. Ég tel að hér sé verið að ná ákveðnu jafnvægi í því og tel þess vegna og ítreka það að hér sé verið að fara mjög hóflega leið hvað varðar þessi gjöld. (Forseti hringir.) Ég heyrði að hv. þingmaður er sammála því að hækka sóknargjöldin. Það eru (Forseti hringir.) örugglega ekki öll sem telja það vera mikilvægustu ráðstöfunina hér.

(Forseti (JSkúl): Forseti minnir hv. þingmenn á takmarkaðan ræðutíma.)