154. löggjafarþing — 48. fundur,  12. des. 2023.

breyting á ýmsum lögum vegna fjárlaga 2024.

2. mál
[15:58]
Horfa

Frsm. 2. minni hluta efh.- og viðskn. (Ásthildur Lóa Þórsdóttir) (Flf) (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég ætla að byrja á að svara þessu með sóknargjöldin, þetta voru einhverjir tugir króna og eins og ég færði rök fyrir þá er það út af því að við þurfum á því framlagi að halda sem kirkjan er með til hjálparstarfs núna þegar neyðin er að aukast í þjóðfélaginu. Við megum ekki við því að hún fari að draga saman seglin enda er ríkið ekki að standa sig í þeim málum sem skyldi. Það er alveg á hreinu. Hv. þingmaður talaði um að lífskjör hefðu batnað á Íslandi. Það fer nú alveg eftir því hvaða mælikvarðar eru notaðir. Þegar við erum að horfa upp á það núna að allar forsendur hjá fólki eru brostnar og það er að borga upp undir, eins og ég færði rök fyrir í grein sem ég skrifaði bara núna um daginn, 98,5% tekna sinna, af útborguðum tekjum í kostnað vegna lána, vegna húsnæðiskostnaðar, þá er nú lítið eftir af þessum góðu lífskjörum. Þetta með framboð á húsnæði, að það sé verið er að auka framboð á húsnæði, þá hefði náttúrlega átt að vera fyrir löngu búið að auka framboð á húsnæði. Við hjá Hagsmunasamtökum heimilanna höfum talað um það síðan 2012 að það þyrfti að auka framboð á húsnæði og núna er verið að gera það. Það tekur mörg ár. Fyrir utan það að margt af því sem ríkisstjórnin er að lofa er ekki einu sinni á hennar valdi. Það er á valdi sveitarfélaga að útvega lóðir. Það er spurning með verktaka sem hver á fætur öðrum eru núna að bregða búi af því að þeir geta ekki verið á þessum markaði sem Seðlabankinn er búinn að botnfrysta. Ég spyr þá: Hvað á að gera núna? Hvernig verður þetta þegar fólk fer í hrönnum að gefast upp? Þessar krónutöluhækkanir, jú, jú, fínt, að hugsa fyrir hlutum núna og fram í tímann, hóflegar hækkanir. Það getur vel verið. En þær eru engu að síður verðbólguhvetjandi og það passar ekki þegar hver ráðherrann á fætur öðrum segir: Okkar stærsta verkefni er að vinna bug á verðbólgunni.