154. löggjafarþing — 48. fundur,  12. des. 2023.

breyting á ýmsum lögum vegna fjárlaga 2024.

2. mál
[16:37]
Horfa

Frsm. 3. minni hluta efh.- og viðskn. (Guðbrandur Einarsson) (V) (andsvar):

Virðulegur forseti. Ég tek undir með hv. þingmanni að það er bara eðlilegt við þessar aðstæður að skoða fleiri möguleika. Hv. þingmaður nefnir svokallaða leiguleið, sem hefur verið reynd áður. Menn fóru í hana eftir hrun á sínum tíma, sú ríkisstjórn sem þá sat. Sveitarfélögin tóku að sér að fjármagna þetta, fengu svo greidda húsaleigu og það getur verið ágætt. Þessi 85/15% leið er erfið því að ríkið ætlar bara að borga þessi 85% þegar samningurinn er gerður, svo kemur verðbólga og þá þarf sveitarfélagið að taka það á sig. Sveitarfélagið ber því alltaf ábyrgðina en ekki ríkið. Af því að hér er verið að nefna töf í Reykjavík upp á tvö ár þá langar mig að segja hv. þingmanni frá því að í minni heimabyggð var skrifað undir samning um byggingu nýs hjúkrunarheimilis í febrúar 2019. Um mitt þetta ár var byrjað á framkvæmdinni. Það tók fjögur og hálft ár að hefja framkvæmd út af alls konar rugli; baráttu við Framkvæmdasýsluna, endurgerð samninga út af verðbólgu og óstöðugleika, alls konar hlutir sem töfðu verkið. Við getum ekki sætt okkur við þetta. Ég skil vel að verið sé að leita nýrra leiða en mér hefur fundist hæstv. heilbrigðisráðherra leggja mikla áherslu á heimahjúkrun. Gott og vel, við viljum öll fá að vera heima hjá okkur en það kemur að því að við lendum á spítala og þá er betra að við förum með fólk á hjúkrunarheimili heldur en að setja það á Landspítalann eða t.d. Heilbrigðisstofnun Suðurnesja. Þar liggur fullt af veikum einstaklingum sem gætu verið á hjúkrunarheimili en af því að þau eru ekki til staðar þá erum við að nota dýrasta úrræðið. Eins og forstjóri hjúkrunar á Landspítala sagði í viðtali í gær: Landspítalinn er að verða dýrasta hjúkrunarheimili á Íslandi.