154. löggjafarþing — 48. fundur,  12. des. 2023.

breyting á ýmsum lögum vegna fjárlaga 2024.

2. mál
[16:52]
Horfa

Bergþór Ólason (M):

Frú forseti. Mig langar hér við 2. umræðu um bandorminn svokallaða, sem ég slysast oft til að kalla hringorminn, að tala á almennum nótum og kannski ítreka að einhverju marki það sem ég sagði við 1. umræðu sem mér þykir upp á vanta í þessu frumvarpi sem hér liggur fyrir. Ég minni jafnframt á að það er annað mál sambærilegrar gerðar sem á eftir að klára áður en við komumst til 3. umræðu fjárlaga. Það eru miklu meiri tækifæri en stjórnarflokkarnir virðast átta sig á í því fólgnir að senda merki hvað varðar hvert ríkisstjórnin ætlar sér með ríkisfjármálin í gegnum krónutöluhækkanir, eða öllu heldur ekki krónutöluhækkanir, ef menn treystu sér til þess, eins og gert var í ríkisstjórn Sjálfstæðisflokks og Framsóknarflokks árið 2014, ef ég man rétt, þar sem tekin var prinsippákvörðun um það að hækka krónutölugjöld ekki neitt.

Núna liggur fyrir meginákvörðun um að hækka krónutölugjöld um 3,5% og ég held, vitandi það að meiri hlutinn hér inni væri ekki tilbúinn að fara í að hækka krónutölugjöld ekki neitt, að þá hefði strax verið betri áferð á því að stilla gjaldahækkunina af miðað við 2,5%, sem er þá innan verðbólgumarkmiðs Seðlabankans, og senda þar með þau skilaboð út í samfélagið að ríkisstjórnin ætli að leggja sitt af mörkum í þessum efnum, því að ekki er það gert í gegnum 17 milljarða aðhaldið að neinu marki sem skilar fjárlögunum eingöngu á þann stað að vera talin hlutlaus í slagnum við verðbólguna, sem er auðvitað ótæk staða eins og við okkur blasir núna. Eins og við þekkjum og hefur auðvitað verið farið yfir óteljandi oft yfir hér í ræðum í tengslum við þetta mál og sambærileg mál þá eru þessi krónutölugjöld í hinum ýmsu lagabálkum; um umhverfis- og auðlindaskatta, gjöld af áfengi og tóbaki, ökutæki og eldsneyti, olíugjald, kílómetragjald, bifreiðagjald og svo mætti áfram telja. Allt telur þetta og setur þann takt inn í kerfið að hækkanir séu við hæfi um áramót. Þó að við blasi að þetta verði afgreitt með þeirri hækkun sem lögð er til að meginhluta varðandi 3,5% þá vil ég enn einu sinni ítreka að ríkisstjórnin var í dauðafæri til að leggja sitt á vogarskálarnar með því að nálgast krónutölugjöldin með öðrum hætti en hér er gert.

Það er eitt og annað þessu til viðbótar sem ástæða er til að nefna hér. Það var mjög mikil hækkun fyrirhuguð á svokölluðu gjaldi á fiskeldi. Ég held að þar hafi menn stefnt í að ganga hraðar um gleðinnar dyr í skattalegu tilliti og gjaldatilliti en skynsamlegt er gagnvart ungri grein í vexti þar sem svo miklu skiptir að forsendur séu til að fjárfesta í besta búnaði til að tryggja rekstrarumhverfi og rekstrarhæfi þessara fyrirtækja, því að ef við göngum of hart fram í gjaldtökunni þá verður miklu erfiðara fyrir stjórnvöld og eftirlitsaðila að setja þrýsting á um að fjárfest sé í bestu tækjum og tólum til að eldið geti vaxið og dafnað og rekið með eins góðum hætti og mögulegt er í sátt við umhverfið og samfélögin. Ég held því að þetta sé skynsamleg afstaða efnahags- og viðskiptanefndar og fagna henni og tel blasa við að til framtíðar, eins og þessi starfsemi lítur út núna, verði tekjur hins opinbera, bæði beinar og óbeinar, af þessum rekstri umtalsverðar og miklu meiri og tryggari í raun ef starfseminni er gefinn kostur á að þroskast og vaxa þótt ekki væri nema með svipuðum hætti og í löndunum í kringum okkur sem lengra eru komin. En þetta var allt of langt gengið að mínu mati eins og tillagan lá fyrir sem hér var kynnt í upphafi og ég ítreka að ég fagna því að efnahags- og viðskiptanefnd hafi stigið a.m.k. skref til baka í þeim efnum.

Þetta frumvarp og seinna frumvarp — þau gætu meira að segja verið þrjú ef ég man rétt. Eru þau ekki tvö, frumvörpin sem mætti fella undir hatt bandorma í þetta skiptið? Þau eru nátengd, vaxin saman við mjöðm með fjárlögum hvers árs og allt þarf þetta að skoðast heildstætt. Ég legg áherslu á það hér eins og á fyrri stigum að við förum okkur hægt hvað gjaldtökuheimildir varðar, reynum að halda gjaldtöku á atvinnulífið eins hóflegri og nokkur kostur er því að á endanum endar kostnaðurinn af þessum viðbótargjöldum auðvitað hvergi annars staðar en hjá neytendum, endakaupanda vöru. Með það í huga hefði ég talið að það væri skynsamlegt að færa 3,5% viðmiðið niður í 2,5% mörk Seðlabankans. Síðan ítreka ég að ég held að þetta sé skynsamleg nálgun hvað varðar hækkun gjalda á fiskeldið.

Það eru auðvitað krúsidúllur hér sem snúa að ökutækjum og umferð. Þar verð ég að minna á að akstur og ökutæki eru mjög þungt skattlagðir skattstofnar og ég ítreka áhyggjur mínar af því að þau gjöld sem nú er verið að undirbyggja, m.a. með öðru frumvarpi sem er til meðferðar hér í þinginu, verði hrein viðbót á aðra gjaldtöku. Ég hef nefnt það stundum að það sé svona þrefalt stuðmannahopp fram undan hvað sérstaka gjaldtöku varðar, í fyrsta lagi gjaldtaka í tengslum við tafagjöld sem tengjast samgöngusáttmála höfuðborgarsvæðisins, síðan er sérstök gjaldtaka gagnvart þessum svokölluðu samvinnuverkefnum sem sex framkvæmdir falla undir og loks eru hugmyndir samgönguráðherra, innviðaráðherra eins og það heitir víst í dag, þess efnis að taka upp gjaldtöku í öllum jarðgöngum á Íslandi, bæði þeim sem eftir á að bora og þeim sem þegar eru til komin.

Mér hefur alltaf þótt sjónarmið ráðherrans í þeim efnum stangast á við hans eigin þar sem ráðherrann leggur núna til að gjald verði tekið í öllum göngum landsins, en hann hefur á fyrri stigum haldið því fram að sérstök gjaldtaka með veggjöldum komi ekki til greina nema þar sem vegfarendur eiga annan valkost. Í því samhengi hef ég hvergi séð neinar áætlanir uppi um að opna Óshlíðina aftur, svo dæmi sé tekið, og fleiri jarðgöng eru auðvitað þeirrar gerðar að önnur leið er ekki fær. Og raunverulega er ekki önnur leið fær lengur, t.d. í tengslum við Hvalfjarðargöng. Það er ekki valkostur fyrir alla þá umferð sem fer á milli Vesturlands og höfuðborgarsvæðisins á hverjum degi að keyra Hvalfjörðinn. Vegurinn ber það ekki og það eru einhver ómöguleiki í því fólginn að halda því fram að það sé raunverulega önnur leið, svo ekki sé nú nefnt það að siglingaleiðinni var auðvitað kippt úr sambandi þegar göngin opnuðu. Þannig að ég ítreka það hér að þótt ekki sé lengra gengið en þetta hvað það varðar að draga úr vexti krónutölutölugjaldanna þá held ég að við þurfum í næsta hring að sníða okkur sérstaklega stakk eftir vexti.

Það er kannski eitt mál sem ég vil nefna sem ég geri árlega: Það er ekki eðlilegt að mínu mati að í 16. kafla, 22. gr., þar sem fjallað er um breytingu á lögum um Ríkisútvarpið, fjölmiðil í almannaþágu, að þar sé þessi eina stofnun, held ég að ég fari rétt með, sem er í allt öðrum takti en aðrar stofnanir sem undir hið opinbera heyra. Það að Ríkisútvarpið fái bæði fulla krónutöluhækkun og síðan allar nýjar kennitölur landsins, lögaðila sem stofnaðir eru og því til viðbótar þjónustusamninginn, sem mig minnir að sé upp á sirka 175 milljónir á ári — þetta er allt annar tekjustrúktúr en blasir við öllum öðrum ríkisfyrirtækjum og -stofnunum. Þetta er hlutur sem mér finnst að við verðum að taka til gagngerrar endurskoðunar, þótt ég sé nú hóflega bjartsýnn á að það sé hreinlega hægt í núverandi stjórnarsamstarfi frekar en ýmislegt annað. En fjármögnun Ríkisútvarpsins og það að tekjustrúktúr þeirrar stofnunar sé með allt öðrum hætti og miklu tryggari hvað hækkun varðar, jafnvel þannig að það sé umfram raunhækkun bara þegar vel gengur í atvinnulífinu og fyrirtækjum fjölgar, það er staða sem getur ekki verið skynsamleg í neinu samhengi og við vitum það öll að ef við kæmum að hreinu blaði dytti engum í hug að stofna ríkisútvarp með þeim hætti sem stofnunin starfar í dag.

Þetta vil ég bara að skilja hér eftir og vona að þessi atriði sem ég nefni hér verði tekin til ígrundunar fyrir næsta hring. En ég ítreka að ég fagna þeim breytingum sem lagðar eru til varðandi það að draga úr hækkun gjalds á fiskeldi. Þó að ég hafi ekki séð útfærsluna þá held ég að það sem lagt var upp með hafi verið allt of groddalegt og þá skipti engu máli hver afstaða fólks er til fiskeldisins, laxeldisins sem slíks því að þeir sem hafa efasemdir um þá starfsemi ættu líka að hafa efasemdir gagnvart því að ganga of hart fram í skattalegu tilliti vegna þess að það dregur úr getu starfseminnar, fyrirtækjanna til að byggja sig upp með öruggasta hætti umhverfislega séð sem kostur er á með nýjustu tækni og nýjustu lausnum.

Þetta er það sem ég vildi skilja eftir hér við þessa 2. umræðu um breytingu á ýmsum lögum vegna fjárlaga, bandorminn svokallaða, og óska hv. efnahags- og viðskiptanefnd, góðs gengis með að klára málið.