154. löggjafarþing — 48. fundur,  12. des. 2023.

breyting á ýmsum lögum vegna fjárlaga 2024.

2. mál
[17:05]
Horfa

Ágúst Bjarni Garðarsson (F):

Virðulegur forseti. Við ræðum hér frumvarp til laga um breytingu á ýmsum lögum vegna fjárlaga fyrir árið 2024, mál sem er oft kallaður bandormurinn og tillögurnar hér hafa bæði áhrif á tekju- og gjaldahlið fjárlagafrumvarpsins. Formaður efnahags- og viðskiptanefndar, hv. þm. Teitur Björn Einarsson, er búinn að fara nokkuð vel yfir nefndarálit meiri hlutans og helstu atriðin þar en mig langar aðeins í upphafi til að fara almennt yfir stöðuna, hef reyndar gert það áður hér í umræðum um fjárlögin sem slík.

Það eru auðvitað áskoranir sem blasa við í samfélaginu þó að það séu einnig jákvæð teikn á lofti. Við erum búin að vera hér að koma út úr heimsfaraldri Covid, stríð í Evrópu, það eru kjarasamningar fram undan og ýmsir óvissuþættir sem við þurfum að taka tillit til í allri þessari vinnu. Ég get alveg sagt það heiðarlega að þetta er ekki einfalt og þetta er ekki auðvelt en ég held að það sem liggur hér fyrir og nefndarálit meiri hlutans sé skynsamlegt og að það sé ágætt jafnvægi, nokkuð gott jafnvægi á milli tekju- og gjaldahliðar þessa máls.

Svo að ég nefni það sérstaklega sem er mér hugleikið í þessu og ég held að hafi áhrif á stóru myndina þá eru það húsnæðismál hér á landi. Við erum að kljást við háa vexti og mikla verðbólgu sem við verðum að bera gæfu til að takast á hendur og ná niður eins fljótt og við mögulega getum vegna þess að það vita allir að það er eitt mesta hagsmunamál og kjarabót íslenskra heimila og fyrirtækja að ná niður vöxtum og verðbólgu. Um þessa staðreynd held ég að deili ekki nokkur maður þótt við kannski deilum um það hvernig og hvaða leið sé best til þess fallin að ná þessu markmiði. Ég held að það þurfi og megi taka ýmislegt til varðandi húsnæðismálin. Við verðum að bera gæfu til að byggja og anna eftirspurn á markaði og við megum aldrei, og þar hefur hæstv. innviðaráðherra lagt gott til, fara í þá stöðu aftur að vera með umframeftirspurn á markaði. Það leiðir til hás verðs sem ýtir undir og kyndir undir verðbólgu.

Svo eru það kjarasamningar sem ég nefni hér og það er ýmislegt sem því tengist. Við verðum að ná, og þegar ég segi við þá er ég að tala um aðila vinnumarkaðarins og þeirra viðsemjendur, skynsamlegum kjarasamningum til lengri tíma til þess að koma hér á stöðugleika og einhverjum fyrirsjáanleika fyrir íslensk heimili og fyrirtæki til framtíðar. Það er mjög brýnt að mínu mati. Og þó svo að staðan sé sú að stjórnvöld sitji ekki við samningsborðið þá liggur það alveg fyrir, og við þekkjum það frá fyrri kjarasamningsgerð, að það er auðvitað lögð áhersla á það að stjórnvöld komi með einhverjum hætti að borðinu og verði þátttakendur í því að leysa þá hnúta sem þar myndast, ef svo má segja. Þar held ég að við komum að því að húsnæðismálin verði veigamikill þáttur ásamt því að þeir hópar sem verða hvað verst fyrir barðinu á háum vöxtum og mikilli verðbólgu verði sérstaklega varðir. Ég held það og veit og trúi að stjórnvöld munu rísa undir þeirri ábyrgð og koma að borðinu með skynsamlegar aðgerðir vegna þess að þetta er mjög brýnt og er okkar verkefni, sérstaklega í því ástandi sem við erum í í dag, að fylgjast með efnahagsástandinu, fylgjast með þróuninni og fylgjast með áhrifum sem háir vextir og verðbólga hafa á ákveðna hópa. Við þurfum að greina og bregðast við eftir því sem við á og þá jafnvel með sértækum aðgerðum fyrir þá hópa sem verða hvað verst úti.

Ef ég leyfi mér að nefna það sem kemur fram í þessu frumvarpi sem ég tel einmitt styðja við þetta markmið þá er það þessi verðlagsuppfærsla krónutöluskatta. Gert er ráð fyrir því í frumvarpinu að það verði 3,5% hækkun á svokölluðum krónutölusköttum í samræmi við það sem fram kemur í forsendum tekjuáætlunar fjárlagafrumvarpsins. Ef við förum aðeins yfir sviðið þá er áætluð 12 mánaða breyting á vísitölu neysluverðs yfir árið 2023 7,4% samkvæmt þjóðhagsspá Hagstofunnar, en þar er hins vegar gert ráð fyrir því að hækkun krónutöluskatta verði ekki meiri en sem nemur 3,5%. Þessi hækkun nær þá til gjalds á áfengi og tóbaki, bensín-, olíu-, kolefnis-, bifreiða- og kílómetragjalds ásamt gjaldi í Framkvæmdasjóð aldraðra og útvarpsgjaldi. Þarna er um að ræða aðgerð stjórnvalda á tekjuhlið ríkisfjármálanna sem miðar að því að vinna gegn þeirri spennu sem hefur myndast í hagkerfinu, og ég hef rætt hér, og um leið styrkja tekjugrundvöll ríkissjóðs en án þess þó að vera of íþyngjandi fyrir almenning. Ég tel að þarna sé stigið mjög varfærið skref, hóflegt. Þessi 3,5% hækkun nær að mínu mati að vera það og því að vera ekki, þrátt fyrir að hér sé um hækkun að ræða, of íþyngjandi fyrir almenning í því ástandi sem við erum í í dag.

Þarna er auðvitað fleira sem má taka tillit til og líkt og kemur fram í nefndarálitinu frá meiri hluta efnahags- og viðskiptanefndar þá er lögð til framlenging á bráðabirgðaákvæði um víxlverkun á greiðslum almannatrygginga og lífeyrissjóða. Þetta er eitt af því sem okkur verður að takast að koma í þessa varanlegu lausn en þar erum við að gera ráð fyrir því að bráðabirgðaákvæði um skyldutryggingu lífeyrisréttinda og starfsemi lífeyrissjóða verði framlengt um eitt ár. Bráðabirgðaákvæðið hefur þau áhrif að óheimilt verður á árinu 2024 að láta almennar hækkanir sem kunna að verða á örorkulífeyrisgreiðslum samkvæmt lögum um almannatryggingar og lögum um félagslega aðstoð leiða til lækkunar á örorkulífeyri sjóðfélaga úr lífeyrissjóði. Það er, og það kemur fram í þeim umsögnum sem nefndinni bárust, stuðningur við þessa aðgerð en eins og fyrr segir er mikilvægt, og eitt af því sem meiri hluti nefndarinnar tekur til í þessu nefndaráliti, að það verði fundin framtíðarlausn á víxlverkun á greiðslum almannatrygginga og lífeyrissjóða.

Mig langar að koma inn á tvennt í viðbót, jafnvel þrennt. Það er varðandi sóknargjöldin sem er eitt af þessum atriðum þar sem nefndin hefur ítrekað á liðnum árum þurft að stíga inn og hækka vegna þess að hækkunin í fjárlögum var tímabundin, eðli málsins samkvæmt, til eins árs. Í frumvarpinu sem lagt var fram var gert ráð fyrir því að krónutala sóknargjalda yrði 1.107 kr. á mánuði fyrir árið 2024 fyrir hvern einstakling 16 ára og eldri. Þar er um að ræða lækkun frá fyrra ári en á síðasta löggjafarþingi ákvað einmitt meiri hluti efnahags- og viðskiptanefndar að leggja til hækkun á sóknargjaldi og þá var gjaldið hækkað í 1.192 kr. Þrátt fyrir að skiptar skoðanir séu í samfélaginu og jafnvel inni á þingi um sóknargjöldin almennt þá tel ég nokkuð breiða samstöðu hér á þingi og í samfélaginu öllu um mikilvægi þeirra og mikilvægi þeirrar starfsemi sem þar fer fram. Þar er unnið mjög gott og gefandi starf. Kirkjan og sóknir þjóna fjölmennum hópi fólks í samfélaginu, bæði á erfiðum tímum og á gleðistundum. Ég tel og það er mín einlæga skoðun að við þurfum að vernda þetta og því hefur meiri hlutinn lagt til að krónutalan verði óbreytt frá fyrra ári, eða 1.192 kr. Um leið og við segjum þetta er jafnframt mikilvægt í þessu, og því er hreinlega beint til fjármála- og efnahagsráðherra og dómsmálaráðherra, að huga að því hvernig við getum komið þessu í varanlegt horf eða komið með varanlega útfærslu á tilhögun sóknargjalda í stað þess að vera hér með bráðabirgðaákvæði á hverju ári sem efnahags- og viðskiptanefnd þarf svo að stíga inn í og rétta af, ef svo má segja. En það erum við að gera hér aftur, enn og aftur. Ég tel það skynsamlegt og ekki bara skynsamlegt heldur beinlínis mikilvægt fyrir það starf sem þar er unnið.

Síðan er það fiskeldisgjaldið sem formaður nefndarinnar, hv. þm. Teitur Björn Einarsson, er búinn að fara vel yfir. Mér finnst umræðan aðeins bera þess merki að hér sé um einhvers konar lækkun að ræða en málið er einfaldlega ekki þannig og ég tel ekki rétt að setja það fram með þeim hætti. Forsendur hafa einfaldlega breyst og það er verið að taka tillit til þess. Það er líka verið að taka tillit til þess frumvarps sem liggur nú fyrir í samráðsgátt frá hæstv. matvælaráðherra um framtíðarfyrirkomulag þessarar nýju atvinnugreinar. Það sem nefndin er að gera hér er að taka tillit til þeirra þátta. Nefndin er auðvitað, þrátt fyrir lækkun frá þeirri prósentutölu sem var lögð hér fyrir, 5%, sem hefði þýtt hækkun um 1,5% frá núverandi tölu, að leggja hér til hækkun um 0,8% á þessa atvinnugrein. Það er til komið vegna mikillar vinnu nefndarinnar og gagnasöfnunar vegna þess að það er einfaldlega svo að forsendur hafa breyst. Við sjáum það m.a. á því að áætlaðar framleiðslutölur eru misjafnar, hvort sem horft er til Matvælastofnunar, MAST, eða til fiskeldisfyrirtækjanna sjálfra. Þegar þetta er allt lagt saman er skynsamlegt að stíga þetta skref. Þetta er að mínu mati ásættanleg lausn og gefur greininni, þrátt fyrir að hér sé um hækkun að ræða, ákveðið svigrúm til að halda áfram að vaxa og dafna og fjárfesta. Það er mjög brýnt í nýrri atvinnugrein sem þessari að hún hafi það tækifæri að geta fjárfest í góðum búnaði, bestu tækjunum, mannskap, þekkingu o.s.frv. Ef við tökum þetta vil ég meina að við séum í raun að segja að við séum tilbúin að leggja niður atvinnugrein sem hefur breytt heilu byggðarlögunum hér um land allt, sérstaklega sé horft til Vestfjarða og Austfjarða. Fyrir mér væri það ekki ásættanlegt en ég styð auðvitað það sem fram kemur í þessu nefndaráliti, þá hækkun sem nefndin leggur til, vegna þess að ég trúi því mjög einlægt að þetta sem ég nefni hér varðandi fjárfestingar í tækjum, mannskap og þekkingu verði áfram til staðar.

Í lokin vil ég nefna eitthvað sem hefur verið bitbein í langan tíma, þrátt fyrir að við séum með einstakt mál hér, en það eru tekjustofnar sveitarfélaga og það samtal sem hefur verið við ríkið um þessi mál í lengri tíma. Þar ber hæst og heyrist mest í opinberri umræðu varðandi fjármögnun á málaflokki fatlaðs fólks. Það er í nefndaráliti meiri hluta fjárlaganefndar við frumvarp til fjárlaga fyrir árið 2024 gert ráð fyrir 6 milljarða kr. lækkun tekjuskatts einstaklinga vegna tilfærslu tekna til sveitarfélaga vegna reksturs málefna fatlaðs fólks. Á móti lækkun tekjuskatts er útsvarsprósentan sem sveitarfélögin fá að hækka um sömu krónutöluhækkun, eða um 6 milljarða kr. Þetta þýðir að þessir fjármunir skila sér til sveitarfélaganna í gegnum Jöfnunarsjóð sveitarfélaga og þetta þýðir að hámarksútsvar sveitarfélaga, sem í dag er 14,75%, hækkar um 0,23% samhliða lækkun tekjuskatts um samsvarandi hlutfall í öllum skattþrepum einstaklinga. Mér finnst mikilvægt að þessu sé haldið til haga.

Virðulegur forseti. Þrátt fyrir að ég segi að þetta sé mjög jákvætt skref þá verðum við að fara að ræða það, sem er auðvitað stærri umræða sem hefur komið inn á borð Alþingis, af einhverri alvöru hvernig við ætlum að hátta tekjuskiptingu milli ríkis og sveitarfélaga í kjölfar þess að stórir málaflokkar hafa verið að færast yfir til sveitarfélaga. Ég ætla að leyfa mér að segja að þeir hafi ekki alltaf verið fullfjármagnaðir og það er einfaldlega vegna þess að þegar þjónustan er komin nær fólki þá eykst kostnaðurinn. Ég held að það sé gott, ekki í öllum tilfellum en í mörgum tilfellum, vegna þess að ef við horfum sérstaklega á þjónustu við fatlað fólk eins og hér er til umræðu þá held ég að það sé mikil samstaða um það í samfélaginu öllu, hvort sem það er inni á þingi eða í sveitarstjórnum eða annars staðar, að þjónusta fatlað fólk vel. Þetta snýst ekki um neitt annað en að bæta lífsgæði fólks og gera því kleift að vera raunverulegir þátttakendur í íslensku samfélagi, taka þátt í tómstundum, frístundum og bara í eðlilegu daglegu lífi. Þannig að ég held að þetta sé mjög gott skref.

Það væri hægt að taka meira bæði úr frumvarpinu og nefndarálitinu en ég ætla að láta þetta gott heita, virðulegur forseti.