154. löggjafarþing — 48. fundur,  12. des. 2023.

fjáraukalög 2023.

481. mál
[17:49]
Horfa

Frsm. 1. minni hluta fjárln. (Eyjólfur Ármannsson) (Flf) (andsvar):

Virðulegur forseti. Það sem gagnrýni mín lýtur að varðandi það að almenni varasjóðurinn skyldi ekki hafa verið tæmdur fyrst þegar það eru 3,8 milljarðar í afgang í honum er að það segir í lögum um frumvarp til fjáraukalaga að það megi beita fjáraukalögum, beita frumvarpi til fjáraukalaga ef ekki er unnt að bregðast við með úrræðum sem tilgreind eru í lögum um opinber fjármál. Ég lít því á það þannig að við eigum að nota varasjóðinn fyrst, tæma hann og þá er búið að nota þau úrræði sem tilgreind eru í lögunum. Svo getum við líka notað útgjaldasvigrúmið og þegar það er búið getum við farið og skoðað fjáraukann. Ég hef gagnrýnt það varðandi lögin um innviði á Reykjanesi að þar var settur skattur á almenning sem tekur gildi 1. janúar og svo erum við með þetta í fjáraukanum líka, þannig að það er sú skattlagning sem er þar undir sem er raunverulega verið að nota. En það er gott að við erum sammála um að það þurfi að bæta áætlanagerðina og ég tel að þetta ætti að koma inn varðandi endurskoðun á lögum um opinber fjármál sem ég var að nefna hér og líka það að mikið af þessu bætir áætlanagerð fram í tímann, sem fjárlög eru.

Varðandi bændurna, sem er mjög mikilvægt að fái stuðning á þessum tímum mikillar verðbólgu og mikils fjármagnskostnaðar — og ég veit að við munum fjalla um þetta, eða vonandi, í nefnd núna eftir þessa umræðu hér: Ef ég skil það rétt munu allir kúabændur fá 500 milljónir og það eru þá þeir sem leggja inn mjólk, innvegna mjólk, en það er ekki greiðslumark. Eru einhver rök fyrir því að það var valin sú leið að taka með 4. gr., minnir mig, búvörusamningsins sem er innvegin mjólk en ekki greiðslumarkið, að miða við greiðslumarkið? Og annað um sauðfjárbændurna og ég ítreka þá spurningu: Nær þetta alveg utan um alla sauðfjárbændur, þessi peningur sem er settur í þá? Munu allir kúabændur fá bætur? Þeir sem hafa lagt inn innvegna mjólk núna í nóvember (Forseti hringir.) munu fá bætur en mér finnst þetta svolítið óljóst varðandi sauðfjárbændur. (Forseti hringir.) Það er ekki sagt að allir (Forseti hringir.) sem hafa lagt inn sláturfé í haust muni fá bætur. Ef hann gæti fjallað aðeins nánar um það.