154. löggjafarþing — 48. fundur,  12. des. 2023.

fjáraukalög 2023.

481. mál
[17:51]
Horfa

Frsm. meiri hluta fjárln. (Stefán Vagn Stefánsson) (F) (andsvar):

Virðulegur forseti. Ég þakka hv. þingmanni fyrir síðara andsvar. Varðandi varasjóðinn og hvort við hefðum átt að tæma varasjóðina eða ekki þá skil ég alveg hvaðan hv. þingmaður kemur í þessu máli og hef ákveðna samúð með hans sjónarmið í þessu. Mín persónulega skoðun er hins vegar þessi, og það var það sem ég var að reyna að koma að í mínu fyrra andsvari: Við erum á þeim stað núna að við erum inni í miðjum viðburði á Reykjanesi. Hvernig árið endar liggur ekki fyrir, hvaða kostnaður mun verða til á Reykjanesi vitum við ekki. Þess vegna er skynsamlegt að við séum með sjóð sem er tilbúinn á árinu 2023 að bregðast við því og þeim tilkostnaði sem út af stendur. Kostnaður viðbragðsaðila vegna ársins 2023, aukakostnaður björgunarsveita, lögreglu, almannavarna, Landhelgisgæslunnar, Veðurstofu Íslands og fleiri aðila sem hafa komið að þessu risastóra verkefni, liggur ekki fyrir. Það kemur fram í frumvarpinu. Þessi kostnaður verður dreginn úr varasjóðnum. Þess vegna er ekki skynsamlegt að tæma sjóðinn fyrr en við erum búin að átta okkur á umfangi ársins 2023 á Reykjanesi. Það er bara það sem ég hef verið að nefna og það finnast mér vera rökin í málinu.

Varðandi bæturnar þá er þetta er sú leið sem var valin. Það hefði verið hægt að fara aðrar leiðir en þetta er sú leið sem var valin. Hún dreifist á alla bændur og miðgildi styrksins, eins og ég kom að áðan, (Forseti hringir.) er um 900.000 þannig að þetta mun koma þeim bændum gríðarlega vel (Forseti hringir.) sem fyrri tillögur náðu ekki til.